Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Ósíuð aðventa 18: Helgileikurinn

Englakórinn syngur.

Í gær fengu foreldrar barna í grunnskólanum okkar að njóta uppsetningar þeirra á árlegum helgileik. Þar gat að líta syngjandi englakór, vitringa, hirða, Jósef, Maríu og Jesúbarnið ásamt nokkrum englum og sögukonu. Þetta var tilkomumikið, fallegt og hátíðlegt.

Helgileikurinn hefur verið settur upp í skólanum í áratugi. Handritið breytist ekki, sagan er sú sama og lögin sem eru sungin, en nýtt listafólk bætist í hópinn á hverju ári. Skólinn er vettvangur þeirra til að rækta hæfileika sína og leyfa öðrum að njóta þeirra.

Hefðir skipta máli. Helgileikurinn í skólanum gott dæmi um hefð sem hefur lifað gegnum árin, skapað samkennd og tilfinningu fyrir því að við séum hluti af einhverju stærra.

Það er líka boðskapur aðventunnar.

#ósíuðaðventa

 

Aðventuáskorun

Jóhanna æskulýðsfulltrúi í Langholtskirkju hitti krakka úr Langholtskirkju á dögunum. Hún skoraði á þau og það er ástæða til að taka undir þessa áskorun:

Þannig að nú ætla ég að koma með smá aðventu-áskor­un. Hvað segið þið um að við sam­ein­ust öll um að gera eitt góðverk heima fyr­ir áður en við för­um að sofa í kvöld? Það þarf ekki að vera risa­stórt eða taka lang­an tíma, það get­ur verið til dæm­is að fara úr með ruslið, ganga frá eft­ir kvöld­mat­inn eða gefa gamla fólk­inu óvænt gott faðmlag og koss á kinn.

Skólinn, kirkjan og aðventan – nokkrar vísanir

Á þessari aðventu hefur verið mikið rætt um vettvangsferðir skólanna í landinu í kirkjurnar. Okkur langar að safna saman vísunum á efni sem hefur verið skrifað á einn stað, til að auðvelda yfirsýn og hjálpa okkur að skilja rökin sem eru notuð. Það mun því bætast við færsluna eftir því sem á líður.

Pistlar

Fréttir

Ps. Í vísun felst engin afstaða til efnis pistlanna, þetta er bara tilraun til að ná utan um umræðuna. Lesandinn athugi það.

Samtal um trú og samfélag

Spurningin um tilvist Guðs eða tilvist hins illa er ekki knýjandi í trúmálaumræðu dagsins. Trúarspurningar samtímans snúast fremur um sýn okkar á hið góða samfélag og um hlutverk og rými hins trúarlega innan þess. Um þetta fjallar samtalið um kirkju og skóla í höfuðborginni.

Fermingarbörn úr Hafnarfirði heimsækja SkálholtDeilur um ákvörðun mannréttindaráðs Reykjavíkur endurspegla ágreining um sýnina á hið góða samfélag. Ekki er deilt um trúarbragðafræðslu. Námskrá grunnskóla er skýr og henni er fylgt eftir efnum og aðstæðum á hverjum stað. Deilurnar standa um þann félagslega umbúnað sem trú og trúariðkun nemenda er sniðinn af skóla og menntayfirvöldum.

Aðgerðir borgarinnar beinast að því starfi trúfélaga með börnum og unglingum sem getur flokkast sem boðun og skarast við tíma og rými skólans. Hér má nefna fermingarstarf sem krefst sveigjanleika frá hefðbundnu skólastarfi og tilboð um kirkjustarf í skipulögðum frístundum skólabarna.

Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar byggir á þeirri sýn að trúin sé eitt af því mikilvæga í lífi manneskjunnar og þar með í samfélaginu. Gagnrýna má borgaryfirvöld fyrir að taka trúna út fyrir rammann og setja önnur viðmið fyrir tengsl trúfélaga og skóla en íþróttahreyfinga, skáta og tónlistarskóla.

Þjóðkirkjan er stærsta trúfélagið í Reykjavík og á landinu öllu. Að mörgu leyti hefur kirkjan gengið hreint til verks. Hún hefur markað sér stefnu um aðgreiningu fræðslu sem er á ábyrgð skólans og boðunar sem kirkjan sinnir. Forsvarsmenn sókna og hverfisskóla hafa einnig nálgast málið af ábyrgð og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og fundið leiðir til að umgangast hið trúarlega sem hluta af fjölbreytileika samfélagsins.

Samtalið um hið góða samfélag og hlutverk trúarinnar heldur áfram í kirkju, skóla og borg. Áskorunin er að draga úr tortryggni og efla traust. Aðferðin er samtal og hlustun með visku og skilningi.

Birtist líka í Fréttablaðinu, á Vísi.is og á Trú.is.

Myndin með pistlinum var tekin í Skálholti á sumarnámskeiði fermingarbarna í Hafnarfjarðarkirkju.