Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Biblía flóttafólksins

The Berlin Wall

Einu sinni þegar við vorum að undirbúa messu hér í kirkjunni, sátum við nokkur og vorum að spjalla um Biblíuna og hvað hún væri eiginlega. Það er ekkert einfalt að svara því, og margskonar lýsingar geta náð utan um fyrirbærið. Stutt og algengt svar er að Biblían sé orð Guðs. Það svar skapar svo miklu fleiri spurningar um hvernig það gangi upp að samansett rit eftir ótal höfunda, skrifuð í ótal bókmenntastílum, í margs konar tilgangi, á ótrúlega löngum tíma, sé á einhvern hátt heilagt eða sérstakt.

Fjölbreytt rit

Þegar ég segi að Biblían sé fjölbreytt rit skrifuð í ólíkum tilgangi, á löngum tíma, þá á ég við að í henni eru til dæmis hreinræktaðir lagatextar ætlaðir inn í sérstakt samfélag; það eru langar frásögur um ævi og störf konunga og stjórnvalda á tilteknum tíma, það eru ævintýralegar upprunasögur, sem eiga að skýra tilkomu þjóða eða ástands sem allir þekkja, það eru helgisögur, það eru þjóðsögur, það eru ljóð og ljóðabálkar, það eru spekirit, sendibréf, uppeldisráð, o.s.frv.

Við vitum nokkurn veginn hverjir skrifuðu sum þessara rita og við vitum ýmislegt um það við hvaða aðstæðurþau urðu til. Við vitum að sumir fengu lánuð minni úr eigin menningu eða úr sögum annarra þjóða, sem síðan urðu þeirra eigin sögur. Við vitum líka margt um hvað var að gerast í lífi þjóðarinnar sem skapaði þessi rit og hvað hún gekk í gegnum á þessum langa tíma.

Sú staðreynd að Biblían er trúarrit kristinna manna, þarf að skoðast í þessu ljósi um fjölbreyttan og margskonar uppruna þess sem stendur í Biblíunni. Við þurfum líka að meta hana út frá því sem við vitum um fólkið sem skrifaði það sem stendur í henni. Við vitum nefnilega heilmikið um það. Og hér kemur það áhugaverða: eftir því sem við vitum meira um fólkið á bak við sögurnar í Biblíunni, því meira virði verða þær.

Ég held að þar sé mjög einföld sálfræði að baki: manni fer að þykja vænt um þau sem maður kynnist. Þegar þú færð að skyggnast á bak við aðstæður fólks, færist þú nær því, skynjar hvernig reynslan mótar og stýrir og það rennur upp fyrir þér að þið eigið kannski eitthvað sameiginlegt. Það sem er sammannlegt færir okkur nær öðru fólki, í gegnum tíma og gegnum rúm. Það kemur í ljós að fólk sem okkur fannst vera órafjarri okkar eigin reynslu og eigin lífi, stendur okkur nær en okkur grunar.

Fólk á flótta

Þetta er reyndar eitthvað sem við höfum uppgötvað með nýjum þunga og nýjum hætti á Íslandi upp á síðkastið, þegar við höfum komist í snertingu við líf og aðstæður fólks sem hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka og ofsókna. Það eru engar nýjar aðstæður og flóttafólk hefur alltaf verið til, vegna þess að þess að það hefur aldrei verið skortur á átökum, stríði, hagsmunaárekstrum og landvinningum.

En það er þegar við komumst í snertingu við það sem sameinar okkur fólki á flótta, sem við förum að horfast í augu við að þar eru á ferð manneskjur sem eru eins og þú og ég, hafa samskonar tilfinningar, hafa drauma og vonir, hafa elskað, saknað og misst, eins og ég og þú. Börn á flótta eru eins og okkar börn. Þau vilja leika, prófa, knúsa, læra og ná tökum á nýjum og spennandi hlutum. Þegar við föttum þetta, lítum við ekki sömu augum á fólkið sem núna streymir frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum, í leit að betra lífi.

Hælisleitendur frá Íran

Flóttafólk er mál dagsins í Evrópu og líka á Íslandi. Í dag eru með okkur hér í kirkjunni tveir menn sem við höfum fengið að kynnast og þykir mjög vænt um. Þeir eru á flótta frá heimalandi sínu Íran og hafa sótt um hæli hér á landi. Enn sem komið er hafa þeir ekki fengið raunverulega áheyrn hér. En þeir hafa fengið úrskurð um að þeir megi ekki vera hér og verði fluttir tilbaka þaðan sem þeir komu. Af því að þeir eru vinir okkar, snertir þetta okkur djúpt hér í Laugarneskirkju og aðstæður vina okkar hafa opnað augu okkar fyrir veruleika flóttafólks allt í kringum okkur.

Reza verður með okkur í kaffinu á eftir og ég vona að þið notið tækifærið til að spjalla við þá, gefa þeim high-five eða eitthvað. Eftir viku verður það kannski of seint því búið verður að flytja þá úr landi.

Rit flóttafólksins

Tökum aftur upp þráðinn um Biblíuna, þetta margbrotna, fjölbreytilega og flókna rit sem við kristnir menn köllum trúarritið okkar. Það er eitt sem kemur í ljós þegar við förum að skoða hana: mörg rit hennar hafa mótast af aðstæðum fólks á flótta. Ótrúlega mikið sem hefur borist til okkar í gegnum aldirnar í orðum og hugmyndum Biblíunnar á rætur sínar að rekja til veruleika flóttafólksins.

Finnst ykkur það ekki magnað?

Þetta sést í beinum sögum af einstaklingum, hópum og þjóðum sem hrekjast til og frá, úr landinu sínu, inni í það aftur og innan þess. Sagan sem við heyrðum í dag um samskipti Rutar og Bóasar, er af þessum meiði. Við munum líka eftir sögunni um þegar Jósef tók Jesúbarnið og Maríu móður þess og flúði til Egyptalands, til að verða ekki fyrir ofsóknum Heródesar konungs.

Sagan af Jósef er annað dæmi um hvernig fólk á flótta og flutningum mætir okkur í Biblíunni. Hann var seldur í annað land – þar sem hann náði svo að koma undir sig fótunum og komst reyndar til mikilla metorða þar sem hann starfaði fyrir sjálfan Faraó, réði drauma og sinnti ráðgjafastörfum. Jósef er frábært dæmi um útlendinginn sem “aðlagast” og fær að njóta þess.

Dæmi um hið gagnstæða, um útlendinginn sem aðlagast alls ekki og hefur engan áhuga á því, er sagan af Daníeli sem endaði í ljónagryfjunni. Hans saga er á þann veg að þjóð hans er hertekin og flutt gegn vilja sínum í annað land, þar sem annar konungur ríkir og þar sem önnur trúarbrögð eru stunduð. Þar sem Daníel ætlar ekki að láta beygja sig undir siði móttökulandsins, lætur hann hart mæta hörðu og endar, eins og við vitum, í ljónagryfjunni, þar sem konungurinn ætlar að kenna honum almennilega lexíu.

Úr jarðvegi flóttafólks

Það eru ekki bara sögur um einstaklinga á flótta sem gera Biblíuna að sannkölluðu flóttamannariti heldur óx mikið af grunnhugmyndum í Biblíunni úr jarðvegi þjóðflutninga og flóttafólks. Það er t.d. þegar Ísraelsþjóðin er í útlegð við Babýlonsfljót, en Babýlónía hin forna var þar sem Írak er í dag, að hún komst í kynni við sköpunarhelgisögurnar sem síðan fundu leið sína inn í ritin sem við köllum Mósebækur. Þar komust þau í snertingu við helgisögur eins og Nóaflóðið, sem síðan varð ein þekktasta saga Gamla testamentisins, sem tjáir auðvitað í grunninn, óskina eftir því að ranglæti verði upprætt og friður og sátt ríki.

Ef flóttafólk eru jaðarhópur samfélagsins á okkar tímum, þá getum við líka sagt að Biblían sé rit um jaðarhópa hvers tíma. Taktu eftir því hvað oft hópar eins og útlendingar, fatlaðir, sjúkir, skækjur, óhreinir, eru nefnd til sögunnar, ekki síst til að varpa ljósi á hvers eðlis samfélagið er. Taktu eftir því hvað Jesús tekur oft dæmi af fólki á kantinum til að útskýra samband Guðs við heiminn. Taktu eftir því að sjálfur Guðs sonur er barn á flótta undan ofsóknum yfirvalda og þarf að leita skjóls í öðru landi.

Taktu eftir þessum sögum, lærðu að þekkja og elska meðbróður þinn og systur sem er í erfiðum aðstæðum, opnaðu hjarta þitt og líf fyrir því sem Guð vill segja þér, í gegnum orðið sitt og fólkið sem hann sendir til að verða á vegi þínum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svao sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Vatnsflöskur og lófatak

Flóttafólk

Það eru sannarlega andstæður sem mæta okkur í íhugunarefni dagsins eins og þau birtast í biblíutextunum. Textinn í Davíðsálmunum lyftir okkur í hæstu hæðir og staðsetur okkur í himneskri fegurð og fullkomnu ástandi.

Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Allt önnur mynd mætir okkur í guðspjallinu, þar göngum við með Jesú inn í borgina og leiðin liggur fram hjá stað þar sem ótal manneskjur í neyð bíða eftir tækifæri til að verða heilar.

Það er eitthvað ofboðslega yfirþyrmandi og niðurdrepandi við þessar aðstæður, þar sem fólkinu hefur verið hrúgað saman í hjálparleysi sínu. Sumir hafa verið þarna svo árum saman, eins og maðurinn sem Jesú talar við – hann hafði verið þarna í 38 ár. Kannski var hann búinn að gefa upp alla von, á meðan fólk í kringum hann hafði jafnvel hlotið bata og komist úr þessum aðstæðum, hafði hann engan til að hjálpa sér og var þess vegna fastur á sama stað.

Þessi gamla saga í guðspjallinu á sér því miður hliðstæður í samtímanum. Í hugann koma myndir af fólki í flóttamannabúðum sem hefur verið hrúgað saman og býður þar hjálparlaust, jafnvel árum saman. Þótt flóttamannavandinn í heiminum hafi náð athygli okkar sem búum í Evrópu síðustu daga og vikur, þá er saga þeirra sem hrekjast frá heimilum sínum vegna stríðsátaka, hernáms, náttúruhamfara og efnahags, síður en svo ný.

Fólkið sem er núna að streyma frá Sýrlandi yfir til Evrópu og hefur svo rækilega náð að vekja athygli okkar á óbærilegum aðstæðum, er nefnilega ekki dæmigerðir flóttamenn eða stærsti hópurinn sem hefur lagt á flótta. Fólki er iðulega komið fyrir í flóttamannabúðum sem eru reistar nálægt löndunum sem það kemur frá og býður þar, þangað til aðstæður skapast fyrir það til að snúa aftur eða önnur lausn er fundin. Það felur venjulega í sér að í gegnum Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna er samið við yfirvöld annarra ríkja um að svo og svo margir flóttamenn fái að flytja til viðkomandi lands. Eins og gefur að skilja tekur þetta ferli langan tíma og það gengur hræðilega hægt að finna lausnir sem henta öllum og geta gefið fólki tækifæri á mannsæmandi og öruggu lífi.

Í umræðunni á Íslandi hefur fólk vitaskuld staldrað við möguleika og tækifæri flóttafólks til að aðlagast og verða virkir þátttakendur í samfélaginu, með réttindi og skyldur eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Það er auðvitað engin ástæða til annars en að ganga út frá því að slíkt muni ganga vel í allra flestum tilvikum, eins og áhrifamiklar sögur þeirra sem hafa áður komið hingað sem flóttamenn, frá Balkanskaga eða Víetnam, og eru núna frábærir nágrannar, vinir og samstarfsmenn, sýna.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga þau atriði sem þurfa að vera til staðar til að þau sem hingað koma sem flóttamenn hafi raunverulega möguleika til að aðlagast svo þeim líði sem best og allir vinni! Hérna vil ég að við skoðum aftur söguna um Jesú og fólkið í súlnagöngunum, því hún segir heilmikið um hluti eins og hjálp og sjálfshjálp og hjálp til sjálfshjálpar.

Jafnvel í yfirþyrmandi og niðurdrepandi aðstæðum er von og vonin er fólgin í því að grípa inn í aðstæður, stöðva það sem rífur niður og setja nýja hluti í gang. Jafnvel þegar við höldum að við eigum það ekki í okkur að standa upp og ganga úr aðstæðum sem kreppa okkur og brjóta niður, er það hægt, ef okkur er mætt með kærleika sem er styðjandi en ekki meðvirkur.

Það er reyndar dásamlegt hvað Jesús er alveg laus við að vera meðvirkur þegar hann talar við sjúka manninn í súlnagöngunum – þennan sem hafði verið sjúkur í 38 ár og var búinn að gefa upp alla von, af því að það var alltaf einhver annar sem komst fram fyrir hann í röðinni. Jesús spyr hann spurningu þar sem svarið ætti í raun að vera augljóst – en hefur kannski ekki verið það. Viltu verða heill? spyr Jesús, þennan mann sem hefur legið í 38 ár bjargar- og hjálparlaus. Maðurinn svarar eiginlega til að afsaka sig eða skella skýringunni á aðra:

„Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“

Svarið sem Jesús gefur honum er hreint og beint og það breytir öllu í lífi mannsins:

Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.

Það sem við fáum að hugsa um út frá þessari sögu, er hverjar eru þær aðstæður sem við höfum kannski hangið í, í fullri trú á að aðstæðurnar séu einhverjum öðrum að kenna eða að við höfum í raun ekki tækifæri til að laga það sem er að. Það sem við fáum að hugsa um í þessari sögu er, hvað er það sem við þurfum að hugsa, segja og gera, til að geta risið upp og orðið gerendur í eigin lífi og gert hluti sem verða okkur sjálfum til góðs og öðrum til blessunar. Getur verið að Jesús sé að tala við okkur þegar hann spyr: Viltu verða heill – eða viltu verða heil? Stattu þá upp og haltu áfram.

Andstæðurnar í textum dagsins birtast líka í sögum flóttafólksins sem nú streymir í gegnum Evrópu. Í djúp-vonlausum aðstæðum glittir samt í eitthvað nýtt, þegar fólk stendur upp og gengur til móts við nýja möguleika og nýtt líf. Og stundum gerist hið ótrúlega – sem er auðvitað skilgreiningin á því hvað kraftaverk er – að fólk tekur höndum saman í kærleika, örlæti og gestrisni og reisir við þau sem hafa verið barin niður og sundurkramin. Súlnagöng dagsins er kannski að finna á brautarstöðvum Evrópu, þar sem kraftaverkin gerast.

Myndir frá aðalbrautarstöðinni í München í Bæjaralandi síðasta sólarhringinn þar sem íbúar taka á móti Sýrlensku flóttafólki sem kemur með lest frá Ungverjalandi eftir ótrúlegar hrakningar, með lófataki, söng, gjöfum, vatni og mat, taka okkur eins og textar dagsins í þessa löngu ferð frá himni til jarðar, frá því sem virðist óyfirstíganlegt og erfitt til nýrrar vonar og velgjörða Drottins, sem birtist í opnum faðmi og hlýjum hjörtum sem segja velkomin.

Viltu verða heill? spyr Jesús sjúka manninn. Alveg eins og maðurinn í sögunni, fáum við þessa spurningu og við getum svarað henni, já ég vil verða heil. Ég vil leggja mitt af mörkum til að ég sjálf og aðrir á þessari jörðu geti gengið uppréttir með þeirri virðingu og kærleika sem allir menn eiga rétt á. Ég vil taka á móti þér, sem kemur til mín í neyð, og segja velkomin, mæta þér í sameiginlegri mennsku sem upphefur menningu, trú, kyn, reynslu og stétt! Velkomin.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Guðspjall

Guðspjallið er í Jóhannesarguðspjalli 5. kafla 1-15

Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.

Myndin sem fylgir færslunni er í eigu Sean Gallup/Getty Images.

Síðskeggjaður hipster vill fasta á ranglæti

Virðing er ekki nóg.

Þetta er merkilegur dagur.
Einn af dögunum þegar við ættum eiginlega ekki að prédika.
Bara láta textana tala.
Mig langar samt að segja þrjú orð:

  • Þú.
  • Þjóðin.
  • Þau.

Svo skal ég útskýra.

Unga fólkið í kirkjunni á slagorð: Við erum hendur Guðs til góðra verka.
Og fingur.
Og munnar.
Og fætur.

Hvað þýðir þetta?

Hvað sagði Jesaja?

Sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.

Svo kemur framhaldið:

Nema auðvitað að hann sé útlendingur.
Eða flóttamaður.
Eða hælisleitandi.
Eða úr annarri borg.
Eða öðru hverfi.

Þá skaltu bara sýna honum dyrnar.
Skella í lás.

Var það ekki annars?

Nei.

Jesaja skrifaði:

Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.

Og hann var alveg með þetta, síðskeggjaði hipstera-spámaðurinn í Mið-Austurlöndum.

Fólkið í strætó

Ég átti stutt samtal á netinu við einn kunningja í vikunni. Hann tekur strætó á morgnana og hefur gaman af að fylgjast með fólki og þennan morguninn sá hann nokkuð sem kom á óvart.
Fólkið í strætó var ekki með andlitin ofaní snjallsímunum sínum eins og þau eru alla jafna.

Hvers vegna?
Hvað hafði gerst?

Ikea-bæklingurinn var kominn.

Fólkið í strætó tók bæklinginn með sér og blaðaði í honum. Skoðaði myndir, stærðir, verð. Kannski til að fá hugmyndir eða innblástur, kannski til að láta sig dreyma.
Um hvað?
Betra líf með nýjum sófa?
Nýtt skipulag í eldhúsinu?
Mýkra rúm og litríkari rúmföt?
Ég veit það ekki.

En ég held að Ikea-bæklingurinn standi kannski fyrir það sama og matreiðslubækurnar og blöð eins og Hús og híbýli: Hugmyndina um eitthvað gott, betra líf sem við getum átt hlutdeild og kannski öðlast. Myndir og texti miðla því og kannski festir hugur og löngun sig við einhvern hlut sem gæti orðið okkar og þá verður allt.
Miklu.
Betra.

Og það er bara allt í lagi að langa.
Það er gott að láta sig dreyma.
Og svo söfnum við og látum draumana jafnvel rætast.

Draumarnir þeirra

Fólkið í flóttamannabúðunum í Calais lætur sig líka dreyma.
Fólkið í Sýrlandi lætur sig dreyma.
Fólkið sem fer á litlum flekum yfir Miðjarðarhafið lætur sig dreyma.
Um að lifa af.
Um betra líf.
Um eitthvað annað.
Þau eiga sér von og það er hún sem rekur þau áfram.
Það er jú enginn sem gerir það að gamni sínu að flýja land til að búa í flóttamannabúðum.

En hvað kemur það okkur við?

Ja, við erum hendur Guðs, til góðra verka.

Hvött og eiginlega kölluð til að gefa hinum hungruðu af brauði okkar, hýsa bágstadda, hælislausa menn og ef við sjáum klæðlausan mann, að við klæðum hann – eins og spámaðurinn skrifaði.

Það sama sagði Jesús þegar hann hvatti lærisveina sína.

En Útlendingastofnun?

Hvað er presturinn nú að spá?
Vill hann bara opna landið?
Veit hann betur en Útlendingastofnun?

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé sérfræðingur í málefnum flóttafólks.
En ég veit til hvers við erum send.
Hvaða viðhorf Jesús hafði og hvaða viðhorfi hann kallaði eftir hjá fylgjendum sínum.
Til þeirra sem eru öðruvísi.
Til þeirra sem búa við skort.
Til þeirra sem þurfa.

Þetta má orða með öðrum hætti.
Farið ekki í manngreinarálit.
Sinnið fólki jafnt.
Gefið öllum tækifæri.
Ekki bara Íslendingum á Íslandi heldur öllu fólki sem þið getið haft áhrif á til góðs.

Það er ákall dags kærleiksþjónstunnar – og líka hinna 364-5 daganna á árinu.

Mig langaði að deila því með ykkur.

Gróðursett í landinu

Kristín Þórunn prédikar í rósagarðinum í Laugardalnum

Að vera Íslendingur

Það á sér stað – og hefur lengi átt sér stað – mjög frjó og skemmtileg umræða um hvað það er að vera Íslendingur, í hverju íslensk menning felist og hver séu hin íslensku gildi. Á 17. júní kemur þessi umræða sérstaklega í hugann. Þá kalla á okkur spurningar um tengsl sögunnar við okkur sem lifum í dag, um áhrif þess sem gengnar kynslóðir áorkuðu og upplifðu á okkur, um hugmyndir sem hrifu og hreyfðu við fólki sem lifði í landinu okkar á öðrum tímum, við aðrar aðstæður.

17. júní er lýðveldisdagurinn, valinn af því að hann er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar, sem var talsmaður sjálfstæðis og sjálfræðis sinnar litlu og smáu þjóðar. Hann talaði máli Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar og hans er ekki síst minnst fyrir að hafa spyrnt við fótum og mótmælt þegar átti að koma því þannig fyrir að meiriháttar ákvarðanir um Ísland gætu átt sér stað án aðkomu Íslendingra sjálfra.

Nafn Jóns Sigurðssonar og arfleifð hans er því nokkuð tengd mótmælum. Mótmæli spretta ekki upp úr tómarúmi, þau eru ekki það sama og að vera með leiðindi og vesen. Mótmæli spretta upp úr jarðvegi sem ræktar hluti sem fólki finnst vera þess virði að berjast fyrir, sem gefur fólki sjálfsmynd sem fylgir því og mótar gildi og verðmætamat.

Mótmælt á Austurvelli

Akkúrat núna er verið að mótmæla á Austurvelli. Sumum finnst það ekki vera réttur tími eða réttur staður, vegna þess að það geri lítið úr því sem við höldum á lofti á 17. júní. Ég er ekki viss um að það sé svo. Kannski blæs 17. júní, fæðingardagur þjóðarhetjunnar Jóns Sigurðssonar, sem mótmælti svo sannarlega og blés anda kjarks og vonar í brjóst fólks. Kannski vekur 17. júní trú á að sannfæring okkrar sjálfra, skilningur og dómgreind, sé þess virði að halda á lofti. Þá eru mótmæli leið til að koma til skila og tjá eigin trú á hvað það er sem gerir samfélagið okkar betra og hvar pottur sé brotinn.

Ég trúi því að þau sem mótmæla geri það af því að réttlætiskennd þeirra bjóði þeim að láta í sér heyra. Að þau taki undir með Jóni Sigurðssyni sem vildi að heildarhagsmunir þjóðar væru heiðraðir í ákvörðunum og valdboðum. Við hljótum að spyrja hvernig þessir heildarhagsmunir líta út í dag – þegar kemur að nýtingu náttúrunnar, ráðstöfun sameiginlegra auðlinda og forgangsröðun samfélagsins.

Á 17. júní erum við minnt á söguna og við rifjum upp hugmyndir og líf þeirra sem gengu á undan okkur, þeirra sem eiga svo stóran hlut í því sem við köllum að vera Íslendingar. Við orðum þessa sögu og mátum hana við aðstæður okkar í dag. Við spyrjum, hverjar voru hugmyndir þeirra sem sköpuðu samfélagið okkar sem við búum við í dag, um hið góða líf, um jafnan rétt til gæða og gjafa hafs og jarðar, um lýðræði, um virðingu og helgi mannlegs lífs?

Hrútar og það sem vekur von

Margir hafa séð kvikmyndina Hrúta sem óhætt er að segja að fari sigurför um heiminn einmitt núna. Hrútar miðla til okkar ýmsu sem við þekkjum þegar við veltum fyrir okkur því hvað það er að vera Íslendingur. Það er sveitaumhverfið og bændasamfélagið sem við vorum flest eða öll hluti af fyrir örfáum kynslóðum. Það er samfélag sem byggir á jafnvægi og gagnkvæmni lands og manneskju, dýra og manna. Hún notar mynd- og hljóðmál sem kveikir og hreyfir okkur til eigin minninga, um hvernig tengsl við foreldra og nánasta samferðafólk mótar, meiðir og reisir upp. Hún tekur okkur í ferðalag sem spannar tilfinningaróf syndar og sáttar, ofbeldis og kærleika, fjarlægðar og hlýju.

Er þetta þjóðlegt eða mannlegt? Eru ekki íslensku gildin og gæðin þau sömu og hreyfa við hjörtum mannanna hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu? Og eru það ekki sömu hlutirnir sem hrífa okkur, vekja von og trú, í dag og fyrir 204 árum þegar Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð?

Land sem gefur líf

Fyrirheitið í orði dagsins, úr spádómsbók Jeremía, fjallar meðal annars um tengsl fólksins við landið sitt. Þar mælir spámaðurinn fyrir munn Drottins og segir:

Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð…Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.

Hér er tengslum fólksins við landið sitt lýst með orðfæri gróðurs og jarðvegs. Við erum gróðursett í landinu okkar. Það þýðir að við nærumst af því, við lifum á því, við erum því háð. Rætur okkar liggja bókstaflega í landinu, af auðæfum þess þiggjum við lífsafkomu okkar, af sögu þess þiggjum við sjálfsmynd okkar. Við löskumst af áföllum þess og ágangur og rányrkja landsins kemur niður á okkur og lífsgæðum barna okkar.

Myndin sem Jeremía dregur upp um fólkið sem er gróðursett í landinu minnir okkur líka á hvað afkoma okkar er nátengd jörðinni sjálfri og samferðafólki okkar. Samhengi alls sem lifir er staðreynd. Þegar jarðvegurinn mengast, sýkist það sem grær í honum. Sjúkt land getur ekki gefið af sér líf sem dafnar, rétt eins og riðan í kvikmyndinni Hrútum leggur sauðféð í Bárðardal – og þar með mannlífið – í rúst.

„Ég gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti“ segir í orðinu. Hér erum við, leitandi og spyrjandi að því hvað sé landinu okkar til heilla og mannlífinu til blessunar. Sumu er ekki hægt að breyta – eins og t.d. veðrinu, sem hefur sinn gang og spyr ekki um útihátíðir eða sumarfrí. Þar þurfum við æðruleysi til að sætta okkur hið óbreytanlega. Sumu er hægt að breyta – þar þurfum við kjark til að takast á við viðhorf og hefðir sem mismuna og sundra.

Svo er það nítjándinn

Eftir aðeins tvo daga höldum við aðra hátíð vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Í aðdraganda hennar höfum við heyrt upprifjun á ýmsu sem varð á vegi þeirra sem börðust fyrir jöfnun rétti kynja og stétta. Því var breytt og kosningaréttur og tjáningarfrelsi er síðan órjúfanlegur þáttur af sýn okkar á mannréttindi allra á Íslandi.

Á 17. júní rifjum við upp söguna og spyrjum, hverju þarf að breyta svo að landið sem Guð hefur gróðursett okkur í, hlúi að öllum kynjum og stéttum og gefi öllum af gæðum sínum. Látum það vera brýninguna til okkar sem hér erum komin saman, Guði til dýrðar og hvert öðru til blessunar. Amen.

Kristín flutti þessa prédikun í messu í Rósagarðinum í Laugardalnum, 17. júní 2015.

Það er dýrt að vera fátækur

Trúboðarnir á Gauknum

Tónlistin okkar hljómar í sálinni, sagði kona í samtali við Fréttastofu Rúv í gærkvöldi. Hún var að segja frá þjóðlagasöng sem er iðkaður þessa helgi á Akureyri. Af orðunum mátti ráða að tónlistin skiptir máli. Hún snertir sálina,  getur nært hana og lyft henni upp.

Mig langar að íhuga tónlist og trú í dag og ég ætla að gera það með því að leggja út af þremur tónleikum sem ég hef sótt á undanförnum vikum.

Fyrst hlustaði ég á síðpönksveitina Trúboðana sem fagnaði útkomu plötunnar Óskalög sjúklinga. Þá tróð söngvaskáldið Svavar Knútur upp og fagnaði útkomu fjögurra platna á vínil. Það er stundum svolítið pönk í honum. Loks var það frumpönkarinn T. V. Smith sem gaf innsýn í sína tónlist. Ég lærði sitthvað á þessum tónleikum og mig langar að deila því með ykkur í kirkjunni í dag.

*

Trúboðarnir tróðu upp á Gauknum. Þeir syngja um smáatriðin í daglegu lífi  sem spegla samtímann og ljúka lífinu upp. Óskalög sjúklinga beina kastljósinu að því sama og kvöldfréttirnar: Heilbrigðiskerfinu og fólkinu sem þiggur þjónustuna:

Færðu fatið undir lekann
Sérðu ekki að húsið það er fokhelt
Lyftan aftur föst aá milli hæða
Hjartastuðtækið orðið straumlaust

Söngvarinn er staddur á spítalanum og og það sem styttir stundir eru hin nostalgísku óskalög sjúklinga. Svo lýkur laginu á þessum hendingum:

Ég hlusta á’ óskalög sjúklinga
fæ ég lifrarígræðsluna
náðu í nýrnavélina
viltu græða í mig sálina.

Undirliggjandi eru skilaboðin um að kerfið sé ekki í fullkomnu lagi þótt manneskjan þrauki.

Það sama er uppi á teningnum í laginu Vantrúboð:

Ei skal hafa annan guð en Glitni
Glöð við beygjum höfum til Nastakk
Gröfum síðan gömul hindurvitni
Við Guð við segjum einfaldlega nei takk
– Hvaða guð sé oss næstur

Athygli hlustandans er líka beint að trú og trúarhefðum í skólastofunni og sungið um gildismat. Trúboðarnir spyrja hvort það geti verið að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Textinn er brýnandi og málefnið mikilvægt.

Lög Trúboðanna eru þétt og kraftmikil, textarnir fullir af boðskap og spurningarnar um samfélagið okkar brýnandi. Þetta er gott stöff.

*

Svavar Knútur lék og söng á Rósenberg.

Svavar Knútur heillaði gesti á Rósenberg.

Svavar Knútur söng á Rósenberg og beindi hug og hjarta  að gildi einveru og íhugunar, sársaukanum sem getur fylgt því að vera manneskja og að ferðaþránni sem leiðir okkur á ókunnar lendur. Hann söng um lífið í hæðum og lægðum á minimalískan og einfaldan hátt sem snertir hjartað. Í lagasmíðum sínum hefur Svavar líka beint sjónum að ranglátum kerfum og lýst áhyggjum.

Eitt besta dæmið um það er lagið Af hverju er ég alltaf svona svangur. Þar er sungið er á gamansaman hátt um uppvakninga – zombíur – sem kunna að meta Bauhaus og Bylgjulestina, Kringluna og Smáralind. Undirliggjandi eru áhyggjur af gildismati sem metur neysluna meira en manneskjur. Það er gildismat hagvaxtarins sem stundum virðist tröllríða öllu.

*

T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.

T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.

Svo var það pönkarinn T.V. Smith sem trommaði gítarinn sinn áfram á Dillon og kyrjaði hrá pönklög um kerfisbundið ranglæti. Laglínurnar voru einfaldar og textarnir boruðu sig undir kvikuna. Það er dýrt að vera fátækur syngur T. V. Smith:

Það er dýrt að vera fátækur,
því allt kostar meira,
ég banka á luktar dyr.
Það er dýrt að vera fátækur,
vill einhver kasta til mín nokkrum brauðmolum,
ég skal borða þá af gólfinu.
Það er dýrt að vera fátækur,
en ég lít kannski vel út þegar ég er fullur örvæntingar.

Upp úr lögunum hans stendur ekki bara tilfinning fyrir ranglæti heldur spurningar: Ertu með? Eigum við að breyta heiminum?

*

Kæri söfnuður.

Við erum enn inni á áhrifatíma Hvítasunnunnar. Hátíðar heilags anda. Og heilagur andi talar til okkar með margvíslegum hætti. Í gegnum reynsluna í lífinu, gegnum þrautir og sigra. Í daglegu lífi. Í tónlistinni sem við heyrum. Líka þegar við búumst bara alls ekki við því.

Trúboðarnir brýna okkar. Ekki með því að segja: Eitt er best og miklu betra en annað heldur með því að spyrja út í gildismatið og spyrja um það hvernig og hvers vegna og setja fingurinn á það sem er kannski bara svolítið ranglátt og ætti að vekja okkur til umhugsunar. Það sama gera Svavar Knútur og T. V. Smith.

Svo er það kirkjan.

Hér syngjum við líka.

Hér erum við líka að fást við sömu spurningar og tónlistarmennirnir gera í lögum sínum.

Spurningar um það hvernig við búum til gott og réttlátt samfélag.

Hjörtun okkar slá í takt og við ætlum að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Hvað þýðir það?

Það þýðir að við viljum betri heim.

Eins og Jesús.

Það þýðir að við viljum gera heiminn betri. Sjálf.

Eins og Jesús.

Kannski þurfum við bara svolítið pönk í kirkjuna. Var Jesús ekki töluverður pönkari – svona miðað við viðbrögðin sem hann fékk? Kannski er kirkjupönk kall dagsins.

Við þurfum að byrja núna.

Því kerfið er ekki fullkomið.

Og þá þarf að bretta upp ermarnar og gera breytingar.

Annað var það nú ekki.

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé Jesú sem þorði að vera öðruvísi og orða hlutina eins og þeir eru, dýrð sé heilögum anda sem gefur hugrekki til að aðhafast.

Þessi prédikun var flutt í síðdegismessu í Laugarneskirkju á öðrum sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 14. júní 2015.

Gestrisni, hvíld og náð

Þrenningaríkon Andrei Rublev

Marteinn Lúther sagði á efri árum að merkilegasti dagur lífs sins hefði verið löngu áður en hann mundi eftir sér, nefnilega skírnardagurinn hans. Skírnardagurinn er sannarlega hátíðisdagur, þar sem barnið sjálft er í miðpunkti og umvafið góðum óskum safnaðarins og fjölskyldu sinnar. Skírnin er stundin þar sem við fáum að leggja fram þakklæti okkar fyrir undrið sem nýtt líf er, hún minnir okkur á gang lífsins og tímann sem líður. Hún vekur hugleiðingar um tilgang lífsins, hvaðan við komum og hvert við förum.

Í skírninni mætir barnið trúarhefð sem formæður og forfeður hafa haft í heiðri og miðlað áfram kynslóð eftir kynslóð í trú og trausti til þess að trúin geymi þau lífsgildi sem standast áföll tímans. Skírnin er beinir huganum á vit hins heilaga, þess sem er stærra en við sjálf og nær út fyrir hið skiljanlega og áþreifanlega. Barnið er helgað í skírninni með tákni krossins sem minnir á samkennd og samlíðan Guðs með öllum mönnum, vegna þess að Jesús birtir okkur Guð í lífi sínu, dauða og upprisu.

Kannski er ekkert sem minnir okkur sterkar á hið heilaga en lítið barn sem okkur er treyst fyrir og skírnin tengir einhvern veginn saman þá upplifun að við tilheyrum samhengi sem er stærra en við sjálf og að í gegnum tengsl við aðrar manneskjur verðum við þau sem við erum.

Í dag, þegar Hrafnar Rökkvi er skírður, er þrenningarhátíð, dagurinn sem við íhugum fyrst og fremst tvennt, annars vegar það hvernig tengsl móta og skilgreina ekki bara okkur sjálf heldur líka Guð, og hins vegar guðsmyndirnar í lífi okkar – hvernig Guð birtist okkur.

Gömul og hefðbundin framsetning á Guðdóminum í kristinni trú er að tala um þrenninguna eða heilaga þrenningu, sem er ein heild en þrjár persónur. Guð er faðirinn, sonurinn og heilagur andi.

Hugmyndin um þrenninguna og hlutverk hinna ólíku persóna Guðs er t.d. útfærð í postullegu trúarjátningunni sem við förum með þegar barn er skírt. Það er Guð faðir sem skapar himinn og jörð, allt hið sýnilega og ósýnilega. Það er Jesús Kristur, sem lifði á sínum stað og sinni stund, tengdist fólkinu sem er nefnt í trúarjátningunni og gekk í gegnum atburðina sem eru taldir upp. Það er heilagur andi sem býr til kirkjuna, býr til samfélagið sem við upplifum með hvert öðru, leiðir fram forsendur fyrir sáttum og fyrirgefningu og lífi í fullri gnægð.

Allt þetta á myndin af Guði að ná utan um og miðla til okkar, óháð stund og stað. Þrenningarpælingin á líka að miðla til okkar því að tengsl tilheyra innsta eðli og veru hins heilaga, vegna þess að persónurnar þrjár tengjast og eru þær sem þær eru vegna þess hvernig þær tengjast.

Þrenningin er oft sett fram með myndrænum hætti, við sjáum það meira að segja hér í kirkjunni okkar sem lumar á nettum og fallegum myndtáknum sem skírskota m.a. til þrenningarinnar. Eitt frægasta listaverk sögunnar sem gerir tilraun til að miðla heilagri þrenningu er íkonamálverk eftir Rússann Andrei Rublev sem hann málaði snemma á sextándu öld.

Myndin sýnir þrjá engla sitja í kringum borð og á borðinu stendur bikar eða kaleikur. Í bakgrunni sést hús og tré. Fyrirmyndin sem Rublev studdist við er sagan sem við heyrðum lesna áðan af því þegar Drottinn birtist Abraham og Söru í tjaldinu þeirra í Mamrelundi. Þessi ævaforna saga gerist á þeim tímum þegar engin Ísraelsþjóð var til, hún er í Gamla testamentinu vegna þess að hún útskýrir aðdraganda og tilkomu Guðs útvöldu þjóðar, sem Abraham og Sara urðu frumforeldrar að.

Lífið sem Abraham og Sara lifðu var hirðingjalífið sem fólst í því að fjölskyldur, sem voru stórar, karlar áttu kannski fleiri en eina konu og flestar áttu fullt af börnum, fluttu sig stað úr stað með hjarðirnar sínar í leit að vantsbólum og beitilöndum. Abraham var auðugur maður og átti margar skepnur og marga þræla – en hann átti engin börn með eiginkonu sinni Söru og þegar hér var komið sögu, voru þau bæði orðin það roskin að engin von var til þess að þau gætu eignast eigið barn.

En þennan heita dag, þegar Abraham sat í tjalddyrunum sínum í Mamrelundi koma til þeirra þrír menn – eða einn maður – því sagan skiptir svolítið á milli þess að tala um mennina þrjá og einn. Stundum tala mennirnir þrír, stundum bara einn – og það er Drottinn sjálfur sem þarna er á ferðinni.

Við sjáum hvernig hin forna dyggð gestrisninnar er í hávegum höfð í hirðingjasamfélaginu, því Abraham og Sara rjúka til og matreiða fyrir gestina á meðan þeir hvíla sig undir trénu, þar sem er skuggi og skjól. Þau gefa þeim steiktan kálf, flatkökur, skyr og mjólk. Gestirnir, sem Rúblev túlkar sem heilaga þrenningu, taka sér góðan tíma og njóta gestrisni Söru og Abrahams. Þar kemur að sögu að Drottinn opinberar áætlun sína um að Abraham eigi að verða ættfaðir heillar þjóðar sem telur eins marga niðja og stjörnur himins.

Það er þarna sem Sara fer að hlæja – vegna þess að hún veit að gangur lífsins er sá að við ákveðinn aldur fara konur úr barneign og karlar slappast. En gestirnir eru afar sannfærandi þegar þeir segja: Er Drottni nokkuð ómáttugt? Ég mun koma til þín aftur á sama misseri að ári og Sara hefur þá eignast son.

Þessi forna saga sem útskýrir uppruna Ísraelsmanna er jafnframt elsta myndin sem er notuð til að tákna heilaga þrenningu, Guð sem er þrjár persónur sem í tengslum sínum mynda hið heilaga.

Þegar við segjum í skírninni, í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda, vísum við til þessarar þrenningar um leið og við áköllum hið heilaga og leggjum okkur sjálf og barnið sem við elskum svo ótrúlega heitt, í faðm þess. Við gerum það í bæn um að líf þess einkennist af gestrisni Söru og Abrahams, hvíldinni undir trénu í Mamrelundi, náð hins heilaga og veginum sem Jesús bendir á.

Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem sýnir okkur þessa ást, dýrð sé andanum sem er þessi ást.

Við byggjum brýr

Kristín Þórunn og Kristinn meðhjálpari í Hátúni

Við vorum mörg sem sátum við skjáinn í gærkvöldi þegar söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna stóð yfir. Opinber yfirskrift Júróvisjón í ár, sem lauk í gær með sigri Måns frá Svíþjóð, er “Building bridges” eða við byggjum brýr. Í keppninni var unnið með þetta þema á margvíslegan hátt, í grafík og tónlist en ekki síst í  uppfrifjunum á því að í ár eru 70 ár síðan heimsstyrjöldinni miklu lauk en þau tímamót skipta vitanlega miklu máli í Evrópu og í mörgum þeim löndum sem taka þátt í söngvakeppninni. (meira…)

Kristín prédikaði um guðslömbin í Laugarneskirkju í morgun:

Kraftaverk hvítasunnunnar er líka af þessum toga. Í því sameinast það fallega, eðlilega, góða, sigur lífsins og nærvera hins heilaga, sem hvert og eitt okkar á aðgang að – alveg eins og við fengum öll aðgang að undrinu að Syðri-Hofdölum í heilan sólarhring.

Líf og fjör á hverfishátíðinni

Það var gaman að taka þátt í hverfishátíðinni Laugarnes á ljúfum nótum um helgina. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á torgið við Laugarneskirkju þar sem fulltrúar félaganna í hverfinu buðu upp á fjölbreytta dagskrá. Skólahljómsveitin lék, skátarnir reistu klifurvegg og seldu kandífloss, foreldrafélögin buðu upp á pylsur, félagsmiðstöðin leiddi miðaldaskylmingar, kórar og hljómsveitir kirkjunnar léku og Rebbi refur kíkti í heimsókn. Í safnaðarheimilinu var basar og kaffisala. Svo voru hoppikastalar og risa-fússball og sitthvað fleira.

Allir skemmtu sér vel og glöddust í góða veðrinu eins og myndirnar bera með sér. Við hlökkum til að undirbúa hátíðina að ári og þökkum fyrir gott samstarf. Það gott að vera í Laugarneshverfinu!

Ég og Kim Kardashian

Árni prédikaði í Laugarneskirkju:

Samfélagsmiðlarnir eru leikvöllur. Leikvöllur sjálfsins. Þar sem við drögum upp mynd af okkur sjálfum og myndum tengsl á grundvelli þess. Við skrifum, birtum myndir, tökum þátt í samtali. Oftast undir eigin nafni, stundum undir dulnefni.

En þeir eru meira. Þeir eru líka vettvangur samfélagsins til að hugsa upphátt sem hópur. Og þeir geta skapað samkennd og tilfinningu fyrir því að við getum/megum/eigum að taka þátt og fyrir því að við séum hluti af einhverju sem er stærra – jafnvel miklu stærra – en við erum sjálf.

Selirnir og sunnudagaskólinn

Sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum 5. apríl 2015.

Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

Ein af skemmtilegustu upplifunum páskadags var sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum. Skemmtunin hófst með því að selunum fjórum var gefið og svo var haldið í tjaldið í garðinum þar sem við tók söngur, sögur og bænir undir handleiðslu presta og sunnudagaskólakennara úr Laugardalnum að viðbættum Þorvaldi Halldórssyni sem lék undir. Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

Ps. Rúv mætti á staðinn.

Stríð 0 – friður 1

Kristín í prédikun að morgni páskadags:

Þetta er það fallega og öfugsnúna við upprisuna, sem snýr ríkjandi gildismati á hvolf. Við lifum nefnilega í menningu sem er með þráhyggju á háu stigi fyrir hinu sterka, því að ná árangri, skara fram úr, vera best og mest. En Jesús tekur ekki þátt í því, heldur býður fram leið friðarins.