Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Ósíuð aðventa 10: Dagur mannvirðingar og mannréttinda

Berlínarmúrinn.

Tíundi desember, er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna. Haldið hefur verið upp á hann frá árinu 1948 þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Mannréttindayfirlýsinguna eða Heimsyfirlýsingu um mannréttindi eins og það var orðað á þeim tíma.

#mannréttindi365

Þema dagsins 2015 er #mannréttindi365 (#rights365) sem er áminning um grundvallarsjónarmið Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þar er gengið út frá því að mannréttindi er allra. Þau binda mannkynið saman sem heimssamfélag. Þetta gildir 24 tíma á sólarhring, 365 daga ársins.

„Allir dagar eru mannréttindadagar. Þeir eru dagar sem við verjum við það að tryggja að allar manneskjur geti öðlast jafnrétti, reisn og frelsi,“ segir Zeid Ra’ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Við stöldrum við á þessum degi og íhugum hver það eru í samfélagi okkar sem njóta ekki jafnrétti, reisnar og frelsis. Í hugann koma óneitanlega þau sem koma hingað í neyð og biðja um skjól. Landlausa fólkið sem oft fær ekki réttarmeðferð eða umfjöllun út frá sínum aðstæðum, heldur er sett í fyrirframgefinn flokk sem á að ganga yfir línuna óháð aðstæðum hvers og eins. Slík meðferð tekur ekki tillit til einstaklingsins, bakgrunns hans og aðstæða. Þess vegna virðir hún ekki manneskjuna og réttindi hennar.

Fjölskylda á hrakningum

Í Víðsjá dagsins – á degi mannréttinda – gerði útvarpsmaðurinn Guðni Tómasson mál hælisleitenda að umfjöllunarefni sínu. Hann tengdi þau við jólasöguna:

„Viljum við búa í samfélagi sem er gjörsneitt mannúð og samkennd? Þar sem kaldhamraður veruleiki reglugerðarinnar er æðstur boðorða? Þar sem mannréttindi eru alltaf túlkuð eins þröngt og mögulega er hægt? Kannski, kannski viljum við bara fá að vera í friði, loka okkur af eins og hræddir fuglar í búri.

En svo koma jól og við minnumst fjölskyldu á hrakningum í Mið-Austurlöndum forðum daga, ekki svo ýkja fjarri Sýrlandi þar sem sprengjur ríku þjóðanna falla sem ætlað er að leysa allt, frelsa okkur undan óttanum í lífi okkar. Já, það koma jól og við gleymum albönsku börnunum, Kleu og Kevi, og foreldrum þeirra. Eftir situr óbragð í munninum sem jafnvel jólasteikin og möndlugrauturinn eiga erfitt með að eyða.“

Ekki næs – Dyflinnarkerfið virðir ekki manneskjur

Flóttafólk velkomið - meðmælaganga í London

eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur og Toshiki Toma.

Hver myndi stíga um borð í bát með galla á botninum? Enginn. Eða léti annað fólk fara á sjóinn í honum? Hver myndi telja slíkt í lagi? Varla nokkur maður. Eða hvað?

Því miður virðist þetta samt vera iðkað þegar kemur að málefnum hælisleitenda á Íslandi.

Á föstudaginn sl. fengu tveir íranskir umsækjendur um alþjóðlega vernd, úrskurð um frávísun á grundvelli Dyflinnareglugerðar, en þeir eru búnir að vera hérlendis um eitt ár. Báðir sóttu fyrst um alþjóðlega vernd í Noregi. Annar eyddi þar átta árum, hinn sjö árum áður en þeir komu til Íslands. Í Noregi fengu þeir sömu niðurstöðu og átti að senda þá tilbaka til Írans.

Norsk völdin senda flóttamenn til baka hvert sem er, og það er undrunarefni hvers vegna engin þjóð í Evrópu mótmælir þessu bersýnilega broti á alþjóðlegum flóttamannasamningum.

Mennirnir tveir eru báðir kristnir og ef þeir verða sendir til Noregs og þaðan til Írans, er líf þeirra sannarlega í hættu. Annar þeirra greindi frá viðbrögðum norskra yfirvalda við þessum aðstæðum. Ráðið sem hann fékk var: ,,Ef þú talar ekki um trú þína, þá verður þú í fínu lagi“.

Eins og margir hafa bent á, virðir Dyflinnarkerfið ekki mannslíf og er í raun ónýtt. Ástæðan er það ójafnvægi sem skapast vegna pólitískrar stefnu hvers ríkis sem á aðild að kerfinu og mismunandi fjölda flóttafólks í hverju landi.

Það skýtur skökku við að einmitt núna þegar íslenskt þjóðfélag ræðir af einlægni um málefni flóttafólks í Evrópu og meirihluti þjóðarinnar ásamt löggjafanum tjáir vilja sinn að taka á móti auknum fjölda flóttafólks, skuli íslensk yfirvöld hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd án þess að hirða um að skoða aðstæður þeirra.

Hér er ekkert samræmi. Hér veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir. Við getum ekki kastað fólki burt um leið og við segjum vilja taka á móti fleirum. Allir fæðast með rétt til virðingar og sérhvert mannslíf er óendanlega dýrmætt.

Við biðjum í einlægni yfirvöld í málefnum útlendinga að horfa á málin út frá þessum raunveruleika. Dyflinnarkerfið er gallaður bátur sem ekki er hægt að senda fólk með á haf út. Slíkt felur ekki í sér virðingu fyrir mannslífum og slíkt er alls ekki næs.

Sem prestar og kristið fólk skorum við því á íslensk stjórnvöld á að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni, og efla þannig mannvirðingu og sanngirni í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Birtist fyrst á Vísi.is 19. september.

Barnatrú og mannþjónusta

Skírnarfontur í Hóladómkirkju.

Í Fræðunum minni fjallar Marteinn Lúther um grundvallaratriði kristinnar trúar og leggur meðal annars út af Faðirvorinu, postullegu trúarjátningunni og boðorðunum tíu. Þetta hefur stundum verið kallað kjarninn í íslenskri barnatrú. Lúther byrjar Fræðin á umfjöllun um Boðorðin. Þar vekur athygli að í meðförum hans verður boðorðið þú skalt ekki að jákvæðri þú skalt-yrðingu:

  • Þú skalt hjálpa náunga þínum að varðveita eigur sínar.
  • Þú skalt hjálpa náunga þínum að hlúa að hjónabandi sínu.
  • Þú skalt hjálpa náunga þínum að lifa vel.

Verslunarmannahelgin er að þessu sinni á milli tveggja mannréttindahelga hér á Íslandi: fyrir viku síðan var haldin Drusluganga í Reykjavík. Athyglin beindist að mannhelgi, mörkunum milli fólks og virðingu fyrir konum. Eftir viku verða mannréttindi hinsegin fólks í brennidepli í Gleðigöngu á Hinsegin dögum.

Mannréttindi og -skyldur

Mannréttindi er orð sem heyrist víða og mannréttindabarátta er fyrirferðarmikil í samfélaginu okkar. En við ræðum sjaldnar um hina hliðina á því: Skyldurnar sem fylgja réttindum.

Hvað gerist ef við nálgumst mannréttindi eins og Lúther nálgaðist boðorðin? Þá horfum við ekki lengur á lágmarks réttindi annarra heldur hámarks skyldur okkar. Tökum dæmi:

  • Fólk á ekki bara rétt til að tjá sig (tjáningarfrelsið). Það er skylda okkar að tryggja að þau geti það.
  • Börn eiga ekki bara rétt á góðu atlæti, uppeldi, öryggi (réttindi barna). Það er skylda okkar að tryggja að svo sé.

Mannréttindin standa vörð um ákveðinn grundvöll. Þau slá ramma kringum manneskjuna. Skyldurnar lúta aftur á móti að því hvernig við hugsum til og aðhöfumst í þágu annarra, náungans, lífsins og sköpunar Guðs.

Kannski er það þetta sem Páll á við þegar hann talar um að berjast góðu baráttunni í pistli dagsins. Og nota bene ekki aðeins að við berjumst fyrir mannréttindum – sem er gott og blessað út af fyrir sig – heldur að við göngum lengra.

Barnatrúin og mannþjónustan

Kjarni kristinnar trúar – líka barnatrúarinnar – er að nálgast náungann og þjóna honum í kærleika. Þegar það er gert þá hætta skyldurnar kannski að vera skyldur og verða að innblásinn löngun til að sinna þeim sem þarf að sinna, af einlægum vilja til vinna verkin.

Sem kristnar manneskjur erum við kölluð til láta okkur ekki aðeins varða grundvallar- eða lágmarks- mannréttindi heldur til að grípa hvert tækifæri til að sinna um og hlúa að lífinu þannig að sérhver einstaklingur megi og geti lifað lífi sínu í fullri gnægð.

Við getum kallað það mannþjónustu sem birtist í manngæsku. Það er að vera kristin manneskja.

Það er okkar barna- og fullorðinstrú.

Flutt í guðsþjónustu í Hóladómkirkju, sunnudaginn 2. ágúst 2015.