Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Ósíuð aðventa 11: Uppskerutími

Bökum saman

Allir sem eiga börn vita að á aðventunni fer mikill tími í að fylgjast með uppskeru barnanna á því sem þau hafa verið að vinna að á haustmisserinu. Á barnmörgu heimili eru ótal stundir í desember sem fara í að mæta á danssýningar, tónleika, helgileiki, jólaböll og kynningar af ýmsu tagi.

Þetta eru kærkomin andartök og dýrmæt tilefni að eiga stund með börnunum. Allt of oft einkennast samskipti og samvera við börnin okkar af hlaupum og stressi. Á jólum er kannski það dýrmætasta sem þú getur gefið börnunum í lífi þínu að vera til staðar, sýna áhuga á því sem þau gera, gefa tíma og skemmtilegheit sem þau kunna að meta.

Áskorun dagsins

Hérna er áskorun: Þegar þú veltir fyrir þér hvað þú eigir að gefa barninu þínu eða börnunum þínum í jólagjöf, íhugaðu hvað það gæti verið sem það/þau langar mest í – nefnilega þú og athyglin þín. Allt legó, Barbie, Batman, Playstation dót í heiminum nær ekki að slá út það sem barnið þráir mest: athygli pabba og mömmu og áhuga þeirra á því sem barnið er að gera og leggja sig fram við.

Kannski er skemmtilegasta verkefnið sem við fáum með börnunum okkar að gera ekkert með þeim: bara að vera, leika, borða, kúra, knúsa og fylgjast með hvað þau hafa stækkað, þroskast og blómstrað allt árið sem nú er að líða.

Aðventan er uppskerutími.

Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur á Reynivöllum:

Það skiptir máli að við mótumst til mannúðar í bernsku okkar og æsku,

  • að við mótumst til að vera þátttakendur í baráttu þeirra, sem eiga á brattann að sækja,
  • að við mótumst til að standa með þeim sem verða fyrir einelti í stað þess að leggja aðra í einelti,
  • að við mótumst til þess að láta okkur þykja vænt um fólk í stað þess að líta á aðra sem óvini okkar,
  • að við lærum að vera frjáls í stað þess að ánetjast því sem vont er og gæti fjötrað okkur þeim fjötrum sem við losnum kannski aldrei úr.

Mótun til mannúðar, það er gott leiðarhnoð í uppeldinu.

Þú ert of mikilvægur til að fara ekki í fæðingarorlof

Í Fréttablaðinu og á Vísi í dag er sagt frá því að færri feður fari í fæðingarorlof en undanfarin ár. Samkvæmt fréttinni hefur hlutfallið lækkað úr 90% í 77% frá 2009 til 2014. Þetta eru slæmar fréttir. Mig langar því að birta hér á blogginu stutt bréf til nýbakaðra feðra sem eru að velta fyrir sér hvort þeir eigi að fara í fæðingarorlof eða ekki.

Heiðbjört Anna leikur sér meðan.

Þetta er Heiðbjört Anna sem naut þess að vera með pabba og mömmu í fæðingarorlofi.

Kæri faðir.

Ég hef þrisvar sinnum verið í fæðingarorlofi. Þetta hefur alltaf verið góður tími. Ég veit að hann hefur skipt mig miklu máli og er viss um að dæturnar hafa notið hans líka. Ég er líka sannfærður um að þetta hefur haft heilmikil áhrif á samband okkar.

Staðreynd málsins er sú að tíminn okkar með börnunum okkar skiptir máli. Árin líða hratt og fyrr en varir eru þau orðin hálffullorðin og við höfum misst af mótunarárunum. Ég á því aðeins eitt ráð til þín sem ert að velta fyrir þér hvort þú eigi að taka fæðingarorlof:

Ekki hugsa þig um tvisvar. Farðu í fæðingarorlof og njóttu þess með börnunum þínum og fjölskyldunni.

Að eiga þrjá eða fleiri mánuði með barninu sínu eru nefnilega forréttindi. Vinnan getur beðið og verkefnin líka. Barnið getur hinsvegar ekki beðið.