Stefnumótun með Markúsi

Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum. Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla. Og hann sagði við þá: Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar. Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun, ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá. Mark. 6:7-13

Í þessum knappa texta kemur ansi margt fram um kirkjuna og erindi hennar í heiminum. Þetta er stefnumótunartexti. Jesús leggur lærisveinum sínum línurnar og segir þeim hvað þeir eiga að gera og hvað þeir eiga að segja. Og hvað þeir þurfi til ferðarinnar. Þeir þurfa skó á fætur og staf. Hvað ætli þeir eigi að gera við stafinn? Styðja sig á göngunni? Halla sér að honum þegar þeir finna fyrir þreytu og mótlæti? Verja sig gagnvart aðsteðjandi ógnum?

Og þeir eiga að fara tveir og tveir. Aldrei einir. Því ein megnum við svo lítið. Ein getum við ekki myndað það samfélag sem við erum sköpuð til, ein getum við ekki reifað og rætt hugmyndir okkar, áhyggjur og drauma. Þess vegna sendir Jesús lærisveinana tvo og tvo til að prédika að menn skyldu gjöra iðrun. Það er erindi kirkjunnar. Að segja fólki að snúa við af þeim vegi sem leiðir okkur frá lífinu og kærleika Guðs. Að segja fólki að snúa sér til Guðs og varpa af sér fjötrum sem hindra okkur í að elska. Og að styðja það á þeirri leið.

En það er ekki alls staðar tekið við orði Guðs. Sum eyru eru lokuð og sum hjörtu eru samanherpt. Sumstaðar hefur vald byggt á peningum og vopnum leitt menn svo langt frá Guði að þeir sjá ekki lengur að það er rangt að meiða og drepa, niðurlægja og þvinga. Við gætum haldið að við ættum því sérstaklega að beina kröftum okkar þangað sem þannig er háttað. En Jesús segir lærisveinum sínum að þar sem sé ekki tekið við þeim eða á þá hlýtt, þaðan skuli þeir fara og hrista dustið af fótum sér þeim til vitnisburðar.

Hvað þýðir þetta í stefnumótunarumræðu kirkjunnar? Við vitum hvert við eigum að fara, við vitum hver sendir okkur, hvað við eigum að taka með okkur og með hverjum við eigum að fara. Okkur er því ekkert að vanbúnaði til að fara héðan í dag og vera kirkja. Kirkja sem er send af Honum til að leiða fólk til samfélags við hvert annað í Honum. Guð gefi okkur til þess náð sína. Amen.