Góðar móttökur

„Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.“ (Lk 15.11-24)

• • •

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Það er svo áhugavert að kynnast nýjum hliðum á fólki. Við upplifum stundum nýjar hliðar á fólki sem við þekkjum mjög vel. Og á okkur sjálfum. Og þá sjáum við fólk í alveg nýju ljósi. Þetta gerist t.d. þegar maður verður foreldri sjálfur, þá fer maður að meta foreldra sína á allt annan hátt en áður og kynnist þeim kannski alveg upp á nýtt.

Lífið snýst svolítið um það að upplifa hluti sem maður þekkir upp á nýtt. Því aðstæður breytast og við breytumst. Í guðspjallinu um soninn sem fór að heiman fáum við að fylgjast með fólki í aðstæðum sem breytast og hvernig það hefur áhrif á líf þeirra sem þar koma við sögu. Sagan byrjar á því að yngri sonurinn á heimilinu vill brjóta upp tilveruna eins og hún hefur verið hingað til. Hann vill út í heim til að meika það. Hvorki hann né faðir hans sem lætur þetta eftir honum, vissu hvernig honum ætti eftir að ganga í þessum nýju aðstæðum.

Svo kemur á daginn að hann höndlar frelsið og sjálfstæðið ekkert mjög vel. Aðstæður hans breytast aftur og hann fer að líta á sig sem óverðugan og ómögulega manneskju. Þegar hann gengur í sig og snýr heim til að hitta föður sinn að nýju, býst hann ekki við öðru en að viðmótið heima fyrir verði í samræmi við það hvernig honum gekk að fóta sig í fjarlæga landinu. En svo er ekki. Ást föðurins til barnsins síns knýr hann til að fagna hinum týnda syni sem nú er fundinn og kominn heim. Kærleikurinn breytir erfiðum aðstæðum þar sem fólk er að kljást við sekt og byrðar, í fögnuð og gleði. Þessu hafði sonurinn týndi ekki búist við. Og þetta hefði hann ekki fengið að reyna nema vegna þess að hann fór og kom aftur.

• • •

Þessi dæmisaga Jesú skírskotar til reynslu okkar bæði af því að vera manneskjur í tengslum við aðrar manneskjur og til trúarlífs hvers og eins okkar. Hún sýnir kærleika í samskiptum sem er það eina sem getur bætt brotin tengsl og læknað sárin sem við völdum hvert öðru. Og hún sýnir okkur kærleika Guðs til barna sinna. Hún varpar ljósi á það hvernig Guð bregst við þegar nýjar aðstæður koma upp og kennir okkar að vænta nýrra hliða á Guði. Stundum erum við aðeins reiðubúin til að leita þess Guðs sem við þegar þekkjum en viljum síður leita þess Guðs sem við þekkjum ekki.

Kannski göngum við um með kvíða yfir því að vera óverðug og ómögulegar manneskjur, og vitum ekki að Guð bíður okkar með kærleika sem breiðir yfir allt, trúir öllu og vonar allt.

Sagan um týnda soninn sem snýr aftur heim brýnir fyrir okkur að leita leiða í samskiptum og samfélagi okkar sem hafa kærleikann að leiðarljósi. Það þurfum við alltaf að vera minnt á. Einmitt núna stöndum við sem elskum kirkjuna okkar og störfum við að útbreiða boðskapinn um Jesú Krist frammi fyrir því hvernig við getum sæst við þau sem boðskapurinn er ætlaður. Hvernig getum við boðið þau velkomin sem hafa farið að heiman og eru hrædd við að snúa við – af því að þau halda að það sé leiðinlegt og þvingandi í kirkjunni? Hvernig getum við látið þeim líða vel þegar þau koma til kirkju, þannig að þau finni sig og upplifi að það sé talað til þeirra?

Því Guð sem þau þekkja ekki, bíður þeirra þar með kærleika sinn sem þau vænta ekki.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.