Tími þakka og pakka

Jólin eru sú hátíð „sem hjartanu er skyldust,“ orti Steinn Steinarr. Í kringum jólahátíðina eru iðulega dregin fram minningarbrot eldri kynslóða í ljóðum og frásögnum, sem varpa ljósi á hughrif og merkingu jólanna á liðnum tímum. En hvað einkennir jól samtímans?

Dægurmenningin gefur vísbendingu um það. Þess vegna er áhugavert að skoða jólin í spegli kvikmynda og vinsællar tónlistar. Það eru ljóð og frásögur okkar tíma.
Love Actually er ein vinsælasta jólamynd síðari ára. Sambönd fólks eru viðfangsefni myndarinnar og bakgrunnur hennar eru jólin. Eftir því sem sögunum vindur fram kemur grunnafstaða persónanna til jólanna í ljós – og það er augljóst að jólin sjálf hafa áhrif á gang mála.

Jólin í Love Actually snúast um tvennt: að segja það sem manni býr í brjósti – segja sannleikann – og að vera hjá þeim sem maður elskar. Þetta tvennt knýr myndina áfram, vegna þess að það eru jól. Þegar við förum að segja það sem okkur í brjósti býr, horfumst í augu við tilfinningar, brotna erfið og gömul samskiptamynstur upp og nýir hlutir fá rými í lífinu. Að viðurkenna hvernig manni líður og segja frá því getur valdið manni sjálfum og öðrum erfiðleikum, eins og sumar persónurnar reyna. En jólin eru tími sannleikans og það er þess virði að mæta hindrunum til að uppfylla köllun jólastundarinnar.

Geislaplatan Nú stendur mikið til kom út fyrr í vetur og inniheldur flutning Sigurðar Guðmundssonar á nýjum söngperlum með klassísku yfirbragði, ekki síst fyrir tilstilli texta Braga Valdimars Skúlasonar. Kunnugum myndum og táknum bregður fyrir á plötunni, eins og jólastjörnunni, jólasnjónum, drekkhlöðnu allsnægtarborði, stjörnueygðum strák og ferðamanni sem brýst í gegnum vetrarstormana til að vera hjá henni sem hann elskar.

Söngvar Sigurðar og Braga Valdimars hitta beint í hjartastað – vegna þess að þeir slá á strengi sem tengja okkur við jólin. Þessir strengir ná enda alla leið til jólaguðspjallsins, þaðan sem þeir spretta, upp úr frummyndunum sem þar koma fyrir og allar kynslóðir kannast við.

Í jólaguðspjallinu mætum við þrá okkar fyrir öryggi, skjól og hlýju, í fjárhúsinu sem Jesúbarnið kom í heiminn, þar brýst ljósið fram úr myrkviðum næturinnar, jatan er tákn um næringu og umhyggju sem við þurfum til að lifa af og síðast en ekki síst er nýfædda barnið tákn um líf og upphaf, hreinleika og ást.
Þessar myndir hitta tilfinningar okkar fyrir og taka form í minningum okkar og reynslu. Það hvernig við höldum jólin tjáir þetta að einhverju leyti. Þörfin fyrir öryggi og næringu kemur fram í áherslunni á þægindi og góðgerðir sem einkennir hátíðahaldið. Köllunin til að sýna kærleika og veita umhyggju sýnir sig í því að við viljum gefa gjafir og gera öðrum gott.

Að gefa og þiggja helst því í hendur og einkennir jólin, eins og segir í einum söngnum á Nú stendur mikið til:

„Því jólin eru tími til að þakka
og taka ofan fyrir þeim sem ber.
Meðan ég hef matarögn að smakka
og meðan ég fæ risavaxinn pakka.
-Þá mega jólin koma fyrir mér.“ (Bragi Valdimar Skúlason)

Birtist fyrst í Sunnudagablaði Morgunblaðsins, 24/12/2010.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.