Gleðidagur 36: Þrjár og hálf mínúta er ekki nóg

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á því hvað foreldrar notuðu að meðaltali langan tíma til að tala við börnin sín á hverjum degi. Niðurstaðan var ekki beysin. Í ljós kom að fyrir utan skammir og bein tilmæli stóðu eftir um þrjár og hálf mínútua í alvöru samtal. Samtal um lífið, um gleðina og óttann, stóru spurningarnar, litlu áhyggjurnar, þarfir og óskir og allt hitt.

Þrjár og hálf mínúta. Það er ekki langur tími miðað við allt sem hver dagur ber með sér. Ekki síst í ljósi þess að börnin okkar eru þær manneskjur sem við viljum vera í sem bestum tengslum við. Þess vegna skyldi maður ætla að við leggðum meira í samskipti við þessar mikilvægustu manneskjur í heimi.

Bænadagurinn sem er í dag, fjallar um samskipti og kærleikstengsl. Í textum sunnudagsins sjáum við að samskipti liggja til grundvallar tengslum. Bæn er samskipti. Í dag er líka Dagur barnsins.

Í guðspjallinu útleggur Jesús bænina eins og afar hversdagslegan hlut, þegar maður kemur að máli við vin sinn og biður hann bónar, um eitthvað sem vantar.

Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.

Þessi vinur, segir Jesús, mun að sjálfssögðu ekki vísa beiðninni á bug, ef ekki fyrir vináttu sakir, þá fyrir bónina sjálfa og áleitni þess sem biður.

Þetta notar Jesús til að útskýra hvernig manneskjan nálgast Guð í bæn.

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.

Ef við hugsum um bænina eins og samskipti sem manneskjan notar til að tjá óskir og þarfir, sjáum við hliðstæðuna við samtalið sem við eigum sem foreldrar og börn.

Samskipti eru lykill að tengslum við okkur sjálf, okkar nánustu og við Guð. Notum bænadaginn til að iðka þessi samskipti – í samtali og bæn.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.