Sæluboð einhverfunnar

Í dag er sunnudagur einhverfunnar og alþjóðlegur dagur bæna fyrir þeim sem eru einhverfir og með Asperger heilkenni. Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur þýðingu okkar á sæluboðum einhverfunnar.

Sæl eru þau sem tala ekki,
því að þau munu kenna okkur það sem er handan orðanna.

Sæl eru þau sem einbeita sér að því smáa,
því að þau munu sjá undur sem aðrir sjá ekki.

Sæl eru þau sem hringsnúast,
því að þau sjá lífið úr öllum áttum.

Sæl eru þau sem sem eru sérlunduð,
því að þau vita nákvæmlega hvað þau vilja.

Sæl eru þau sem baða út höndunum,
því að þeim munu vaxa vængir svo þau geti flogið.

Sæl eru þau sem ganga alltaf sömu leiðina,
því að þau eru staðföst og sönn.

Sæl eru þau sem halda fast við siði sína og venjur,
því að fyrir þeim verður lífið allt að helgiþjónustu.

Sæl eru þau sem endurtaka sig,
því að þau kunna að meta hvert hljóð og þagnirnar á milli þeirra.

Sæl eru þau sem eru þrautseig,
því að þau munu ljúka því sem aðrir gefast upp á.

Sæl eru þau sem helga sig einni ástríðu,
því að þau munu sjá dýptina í því sem öðrum yfirsést.

Sæl eru þau sem leggja hvert smáatriði á minnið,
því að þau varðveita það sem annars væri gleymt.

Sæl eru þau sem berjast fyrir því að vera heyrð og samþykkt eins og þau eru,
því að þau gæta réttar okkar allra.

Sæl eru þau sem fylgjast með og bíða,
því að þau munu uppgötva og þekkja og skilja.

Sæluboðin minna okkur á að þau sem eru öðruvísi í augum samfélagsins geta kennt okkur margt um leyndardóma lífsins. Sæluboð einhverfunnar kallast á við sæluboðin í Matteusarguðspjalli. Höfundur þeirra heitir Tim og hann bloggar um einhverfu ásamt konu sinni Mary. Þau eiga einhverfan son eins og við.

Við vitum ekki til þess að haldið hafi verið upp á þennan sunnudag í kirkjum hérlendis, en það er full ástæða til að taka upp þann sið, í kirkjunum og í samfélaginu okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.