Laun heimsins eru vanþakklæti – áttundi Passíusálmur

Þegar Hallgrímur bendir á, í áttunda Passíusálmi að veröldin launi velgjörð með vondu, er það nokkuð sem lesandinn á auðvelt með að taka til sín. Þekkja ekki allir hvað manni sárnar þegar velmeinandi framlag, auka fyrirhöfn og alvöru vinna er lítið sem einskis metið?

Ekki vera hissa á þessu, segir Hallgrímur við sjálfa sig, því velgjörð manneskjunnar þótt vanþökkuð sé, er aðeins brot af kærleiksverki Krists sem þó var handtekinn, smáður og tekinn af lífi.

Hvers vegna var Jesús tekinn af lífi? Auðvitað er hægt að komast að ólíkum niðurstöðum þegar guðspjöllin eru lesin. Það er auðvelt að tengja atburði föstudagsins langa viðbrögðum valdaaflanna við róttækum samfélagsboðskapi Jesú frá Nasaret. Hann ruggaði bátnum og boðaði nýtt ríki friðar og réttlætis.

Hallgrímur lætur Jesú benda sjálfan á þetta í áttunda sálminum. Starf hans fór fram meðal fólksins, í samkunduhúsunum þar sem hann boðaði og átti samtal í dagsbirtunni – en þó var sótt að honum í skjóli myrkurs, með vopnum og valdi.

Þetta er saga svo margra friðarins barna sem boða nýjar leiðir – ríkjandi stéttir taka því ekki vel að heyra gagnrýni og þurfa að láta af forréttindum sínum. Þetta sýnir fjöldi samviskufanga og pólitískra drápa í heiminum vel.

Furða það, sál mín, engin er,
ei skalt því dæmi týna,
þó veröldin launi vondu þér
velgjörð mjög litla þína.
(Áttundi sálmur, vers sjö.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.