Gestrisni, hvíld og náð

Þrenningaríkon Andrei Rublev

Marteinn Lúther sagði á efri árum að merkilegasti dagur lífs sins hefði verið löngu áður en hann mundi eftir sér, nefnilega skírnardagurinn hans. Skírnardagurinn er sannarlega hátíðisdagur, þar sem barnið sjálft er í miðpunkti og umvafið góðum óskum safnaðarins og fjölskyldu sinnar. Skírnin er stundin þar sem við fáum að leggja fram þakklæti okkar fyrir undrið sem nýtt líf er, hún minnir okkur á gang lífsins og tímann sem líður. Hún vekur hugleiðingar um tilgang lífsins, hvaðan við komum og hvert við förum.

Í skírninni mætir barnið trúarhefð sem formæður og forfeður hafa haft í heiðri og miðlað áfram kynslóð eftir kynslóð í trú og trausti til þess að trúin geymi þau lífsgildi sem standast áföll tímans. Skírnin er beinir huganum á vit hins heilaga, þess sem er stærra en við sjálf og nær út fyrir hið skiljanlega og áþreifanlega. Barnið er helgað í skírninni með tákni krossins sem minnir á samkennd og samlíðan Guðs með öllum mönnum, vegna þess að Jesús birtir okkur Guð í lífi sínu, dauða og upprisu.

Kannski er ekkert sem minnir okkur sterkar á hið heilaga en lítið barn sem okkur er treyst fyrir og skírnin tengir einhvern veginn saman þá upplifun að við tilheyrum samhengi sem er stærra en við sjálf og að í gegnum tengsl við aðrar manneskjur verðum við þau sem við erum.

Í dag, þegar Hrafnar Rökkvi er skírður, er þrenningarhátíð, dagurinn sem við íhugum fyrst og fremst tvennt, annars vegar það hvernig tengsl móta og skilgreina ekki bara okkur sjálf heldur líka Guð, og hins vegar guðsmyndirnar í lífi okkar – hvernig Guð birtist okkur.

Gömul og hefðbundin framsetning á Guðdóminum í kristinni trú er að tala um þrenninguna eða heilaga þrenningu, sem er ein heild en þrjár persónur. Guð er faðirinn, sonurinn og heilagur andi.

Hugmyndin um þrenninguna og hlutverk hinna ólíku persóna Guðs er t.d. útfærð í postullegu trúarjátningunni sem við förum með þegar barn er skírt. Það er Guð faðir sem skapar himinn og jörð, allt hið sýnilega og ósýnilega. Það er Jesús Kristur, sem lifði á sínum stað og sinni stund, tengdist fólkinu sem er nefnt í trúarjátningunni og gekk í gegnum atburðina sem eru taldir upp. Það er heilagur andi sem býr til kirkjuna, býr til samfélagið sem við upplifum með hvert öðru, leiðir fram forsendur fyrir sáttum og fyrirgefningu og lífi í fullri gnægð.

Allt þetta á myndin af Guði að ná utan um og miðla til okkar, óháð stund og stað. Þrenningarpælingin á líka að miðla til okkar því að tengsl tilheyra innsta eðli og veru hins heilaga, vegna þess að persónurnar þrjár tengjast og eru þær sem þær eru vegna þess hvernig þær tengjast.

Þrenningin er oft sett fram með myndrænum hætti, við sjáum það meira að segja hér í kirkjunni okkar sem lumar á nettum og fallegum myndtáknum sem skírskota m.a. til þrenningarinnar. Eitt frægasta listaverk sögunnar sem gerir tilraun til að miðla heilagri þrenningu er íkonamálverk eftir Rússann Andrei Rublev sem hann málaði snemma á sextándu öld.

Myndin sýnir þrjá engla sitja í kringum borð og á borðinu stendur bikar eða kaleikur. Í bakgrunni sést hús og tré. Fyrirmyndin sem Rublev studdist við er sagan sem við heyrðum lesna áðan af því þegar Drottinn birtist Abraham og Söru í tjaldinu þeirra í Mamrelundi. Þessi ævaforna saga gerist á þeim tímum þegar engin Ísraelsþjóð var til, hún er í Gamla testamentinu vegna þess að hún útskýrir aðdraganda og tilkomu Guðs útvöldu þjóðar, sem Abraham og Sara urðu frumforeldrar að.

Lífið sem Abraham og Sara lifðu var hirðingjalífið sem fólst í því að fjölskyldur, sem voru stórar, karlar áttu kannski fleiri en eina konu og flestar áttu fullt af börnum, fluttu sig stað úr stað með hjarðirnar sínar í leit að vantsbólum og beitilöndum. Abraham var auðugur maður og átti margar skepnur og marga þræla – en hann átti engin börn með eiginkonu sinni Söru og þegar hér var komið sögu, voru þau bæði orðin það roskin að engin von var til þess að þau gætu eignast eigið barn.

En þennan heita dag, þegar Abraham sat í tjalddyrunum sínum í Mamrelundi koma til þeirra þrír menn – eða einn maður – því sagan skiptir svolítið á milli þess að tala um mennina þrjá og einn. Stundum tala mennirnir þrír, stundum bara einn – og það er Drottinn sjálfur sem þarna er á ferðinni.

Við sjáum hvernig hin forna dyggð gestrisninnar er í hávegum höfð í hirðingjasamfélaginu, því Abraham og Sara rjúka til og matreiða fyrir gestina á meðan þeir hvíla sig undir trénu, þar sem er skuggi og skjól. Þau gefa þeim steiktan kálf, flatkökur, skyr og mjólk. Gestirnir, sem Rúblev túlkar sem heilaga þrenningu, taka sér góðan tíma og njóta gestrisni Söru og Abrahams. Þar kemur að sögu að Drottinn opinberar áætlun sína um að Abraham eigi að verða ættfaðir heillar þjóðar sem telur eins marga niðja og stjörnur himins.

Það er þarna sem Sara fer að hlæja – vegna þess að hún veit að gangur lífsins er sá að við ákveðinn aldur fara konur úr barneign og karlar slappast. En gestirnir eru afar sannfærandi þegar þeir segja: Er Drottni nokkuð ómáttugt? Ég mun koma til þín aftur á sama misseri að ári og Sara hefur þá eignast son.

Þessi forna saga sem útskýrir uppruna Ísraelsmanna er jafnframt elsta myndin sem er notuð til að tákna heilaga þrenningu, Guð sem er þrjár persónur sem í tengslum sínum mynda hið heilaga.

Þegar við segjum í skírninni, í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda, vísum við til þessarar þrenningar um leið og við áköllum hið heilaga og leggjum okkur sjálf og barnið sem við elskum svo ótrúlega heitt, í faðm þess. Við gerum það í bæn um að líf þess einkennist af gestrisni Söru og Abrahams, hvíldinni undir trénu í Mamrelundi, náð hins heilaga og veginum sem Jesús bendir á.

Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem sýnir okkur þessa ást, dýrð sé andanum sem er þessi ást.