Að hýsa hælislausa

Heiðraðu flóttamanninn

Boðskapur Jesaja gamla spámanns er eins og talaður inn í aðstæður dagsins.

Sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn…

Þannig hljóðar hið heilaga orð og sæl eru þau sem heyra Guðs orð og varðveita það.

Í skírninni hér áðan þegar litla stúlkan var vatni ausin og gefið fallega nafnið sitt, gerðist líka svolítið annað. Hún var tekin inn í fjölskyldu Guðs. Venjulega þegar við hugsum um fjölskyldu hugsum við um þau sem eru skyld, eða tengd, búa undir sama þaki. En við tilheyrum líka fjölskyldu allra þeirra sem lifa, því öll erum við börn Guðs.

Síðustu daga höfum við verið óþyrmilega minnt á að sumir í þessari fjölskyldu búa við ömurlegar og lífshættulegar aðstæður. Það eru flóttamennirnir, karlarnir, konurnar og börnin sem streyma frá stríðshrjáðum löndum, skilja allt við sig og leggja allt í sölurnar til að komast á öruggari stað.

Við höfum þessa síðustu daga fengið örlitla innsýn inn í aðstæður flóttafólksins sem streymir til Evrópu og hvernig lífi þeirra er ógnað við hættulegar aðstæður. Það er enginn ósnortinn af því að heyra um og sjá myndir af litlum börnum sem hafa drukknað á leiðinni yfir Miðjarðarhafið af því að þau voru á báti sem var allt of lítill og allt of óöruggur og með allt of mörgum.

Einn vinur minn á facebook sem býr í Austurríki skrifaði á síðuna sína:

Austurríkismenn eru í sjokki yfir fréttunum um flóttamennina, 71 talsins þar af 4 börn, sem fundust látnir í yfirgefnum flutningabíl skammt utan við Vínarborg í fyrradag. Allt í einu færðist dauðinn í Miðjarðarhafinu yfir á miðevrópska hraðbraut….Einn austurrískur stjórnmálamaður birti í morgun myndir á facebooksíðunni sinni af líkum barna sem drukknuðu í gær á leið frá Líbíu – myndir sem eru víða á internetinu – og sagði nauðsynlegt að horfa á þær. Viðbrögðin létu ekki á sér standa í kommentakerfinu. Margir tóku undir en enn fleiri gagnrýndu hann fyrir að birta myndir af líkum; sögðu það smekklaust. Hann svaraði um hæl og sagði smekklaust að láta sem ekkert sé. Ég er sammála honum. Það minnsta sem við getum gert er að sýna að við vitum að allt þetta flóttafólk dó á leiðinni til betra lífs. Ef við horfum í hina áttina, þá fyrst er útilokað að við finnum lausnir. Ef við látum sem ekkert sé, hvað er þá líka orðið um manneskjuna/mennskuna í okkur sjálfum?

Svo mörg voru þau orð. Og í dag erum við með orðum Biblíunnar minnt á að þau sem við deilum þessari jörð með, koma okkur við. Það er skylda okkar að koma til hjálpar þeim í fjölskyldunni okkar, öðrum börnum Guðs, þegar þau þarfnast okkar.

Öll orð Jesú í guðspjallinu hvetja okkur til þess:

Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.

Og hann hvetur okkur til að ganga langt – það er ekki nóg að elska þau sem elska okkur! Við eigum að elska þau sem við þekkjum ekki – líka þau sem við lítum á sem óvini okkar.

Kannski er aðalatriðið hér að við eigum ekki að skipta fólki upp í hópa eins og vini, óvini, fjölskyldu og ókunnuga, útlendinga og Íslendinga, þegar kemur að því að bera ábyrgð og tryggja velferð. Við erum öll á sama báti, við erum ein fjölskylda.

Og í orðum Jesú í guðspjalli dagsins býr svo mikill sannleikur, því hann bendir okkur á að þessari skyldu að elska náungann eins og sjálf okkur, er hvorki létt né einfalt að fylgja eftir. Það er heilmikið mál! Það væri heilmikið mál að taka við 5000 flóttamönnum á Íslandi, eins og hefur komið fram í umræðunni. Auðvitað! En það þýðir ekki að við eigum ekki að gera það.

Við skulum bera gæfu til þess að axla ábyrgð okkar sem þjóð meðal þjóða, fylgja eftir þeirri góðu sátt sem þverpólitísk þingnefnd leggur til um stefnu í útlendingamálum, og setja mannúð og réttaröryggi í forgrunn, handa öllum sem hingað koma.

Við þurfum ekki að vera hrædd um að missa eitthvað sem við höfum eða eitthvað sem er mikilvægt, ef við opnum Örkina okkar fyrir þeim sem þurfa á skjóli og hjálp að halda. Þar er aftur gamli skeggjaði hipsterinn hann Jesaja, með puttann á púlsinum og beinir okkur á rétta braut:

Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
Drottinn mun stöðugt leiða þig,
seðja þig í skrælnuðu landi
og styrkja bein þín.
Þú munt líkjast vökvuðum garði,
uppsprettu sem aldrei þrýtur.

Dýrð sé Guði sem lítur á okkur öll sem sín börn, er bróðir okkar allra, og endurnýjar von og hugrekki í hjörtum okkar.

Flutt í Laugarneskirkju, 30. ágúst 2015.