Ósíuð aðventa 16: Bernskusögurnar snúa aftur

Myndrammi úr Star Wars: The Force Awakens

Laust eftir miðnætti verður nýja Stjörnustríðskvikmyndin frumsýnd hér á landi. Forsala hefur gengið vel og fjöldi fólks á öllum aldri mun sjá myndina á morgun. Sagan af Loga geimgengli og fjölskyldu hans er stórsaga, goðsögn sem hreyfir við mörgum.

Þetta er saga af baráttu góðs og ills sem er þó ekki svarthvít heldur full af litbrigðum. Áhorfandinn getur samsamað sig við persónur og íhugað hvernig væri að vera í sporum hetjanna, standa frammi fyrir freistingum og erfiðum ákvörðunum.

Þannig má segja að Stjörnustríðssögurnar séu líkar sögunum af Jesú. Þær eru líka stórsögur sem fjalla um stóru spurningarnar í lífinu. Við óskum öllum sem ganga í barndóm í nótt góðrar skemmtunar og viljum líka deila með ykkur útfærslu munkanna í Unvirtuous Abbey á Stjörnustríðs-aðventukertunum fjórum.