Ósíuð aðventa 20: Sagt til syndanna

Jólakúla

Jólasagan er aldrei sögð án þess að minna okkur á að barnið sem fæðist í Betlehem er sá sem gekk inn í aðstæður hinna fátæku og sjúku, þeirra sem samtíminn lítur á sem smælingja. Þau sem hafa orðið undir í gildismati umhverfisins. Þar er Jesús. Þess vegna syngur María móðir í lofsöngnum sem kenndur er við hana

„…drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja.“

Þetta er örugglega ástæðan fyrir því að á fjórða sunnudegi í aðventu íhugum við söguna um Jóhannes skírara – spámanninn og frænda Jesú sem stóð við ána Jórdan og þrumaði yfir lýðnum, sagði þeim bókstaflega til syndanna og brýndi fyrir þeim tengsl trúar og breytni.

Ef þú átt tvo kyrtla gefðu þá annan þeim sem engan á! Ekki rukka of mikið ef þér er trúað fyrir því að innheimta gjöld, ekki trampa á náunga þínum og halda því fram að þú sért góð manneskja af því þú trúir á Guð!

Eftir fjóra daga göngum við inn í jólin, helgi þeirra, frið og birtu. Við gerum það eftir að hafa hlustað á Jóhannes segja okkur til syndanna og íhugað að barnið í jötunni sem við fögnum með öllum ljósunum og öllum gjöfunum og allri gleðinni, mætir okkur fyrst og fremst í náunga okkar, þegar hann þarf á okkur að halda.