Frá Útlendingastofnun til Egyptalands

Engill á jólatré

Ég heimsótti Útlendingastofnun í fyrsta sinn í vikunni. Ég var þar með hópi fólks: sjálfboðaliða frá Rauða krossinum, tveimur prestum, múslimskum hjónum og svo voru fulltrúar frá þremur fjölmiðlum sem fylgdust með. Ég skal segja ykkur hvert tilefnið var rétt strax en fyrst langar mig að tala um jólaguðspjallið.

Frá Betlehem

Sagan af Jósef og Maríu sem hefur verið sögð um allan heim í næstum 2000 ár er saga af flóttafólki.

Jólaguðspjallið er saga af hjónum sem þurftu að ferðast langan veg og fundu sig á stað þar sem þeim var uppálagt að láta skrásetja sig – kannski var eins konar Útlendingastofnun síns tíma. En í raun var staðurinn ókunnur og þau höfðu ekki húsaskjól og það voru engir ættingjar eða aðrir sem þau gátu reitt sig á.

Jólaguðspjallið er sagan af því þegar þau voru á svona stað á tíma sem var snúinn fyrir því því þau áttu von á barni og barnið var að koma. Núna.

Jólaguðspjallið er saga af einskonar fjölskylduboði sem varð til þegar gestir heimsóttu þau: Englar, hirðar, vitringar.

Jólaguðspjallið er saga af flótta því þeim var ekki vært þarna. Yfirvöld sem fóru með hagsmuni þeirra og allra annarra og  áttu að gæta þegnanna – þessi yfirvöld voru og vildu barnið feigt.

Það er jólaguðspjallið.

Og svona sögur eru að gerast allt í kringum okkur. Þessa dagana … vikurnar … misserin.

Frá Sýrlandi til Grikklands

Fyrr í mánuðinum las ég um fjölskyldu sem reyndi að flýja frá Sýrlandi til Grikklands. Þau keyptu sér far með smyglurum og þeim var sagt að börnin og fullorðna fólkið þyrftu engin björgunarvesti af því þess að ferðalagið væri svo stutt.

Gróðavon sem rak smyglarana áfram. Og þeir viðhöfðu ekki nauðsynlegar öryggiskröfur. Skipið varð vélarvana úti á sjó og sökk. Einn fjölskyldumeðlimur komst lífs af.  Pabbinn.

Það er nefnilega ekki öruggt að vera flóttamaður í heiminum í dag.

Kennitölur eða hjörtu

Ég heimsótti Útlendingastofnun í vikunni. Í fyrsta sinn. Tilefnið var ekki skrásetning heldur hvatning. Afhending 4700 undirskrifta til stuðnings fjölskyldu frá Sýrlandi. Þau þurftu að flýja heimili sitt með tvær dætur sem voru þá á þriðja og fjórða ári. Þau komust til Grikklands.

Heil á húfi.

Þar bjuggu þau erfiðar aðstæður í rúmt ár. Svo komust þau til Íslands. Hér hafa þau verið í tæpt hálft ár og þeim líður vel. Þau eru að læra íslensku, dæturnar eru á leikskóla, það er vel búið að þeim. Einkunnin sem Íslendingar fengu sem tóku á móti þeim var ágætiseinkunn. Það sama heyrði ég í samtali við fulltrúa Rauða krossins á dögunum sem sagði að meðal almennings væri mikill velvilji í garð flóttafólks og hælisleitenda. Það er ágætiseinkunn þjóðar.

En kerfið er ekki alltaf velviljað. Samkvæmt Dyflinarsamkomulaginu á þetta fólk bara að fara aftur til Grikklands. Þar komu þau inn í Evrópu og Grikkir eiga þá að sjá um þau. Á tölvumáli myndum við kalla þetta „computer says no“ því tölvan fylgir bara sinni forskrift. Hún sér ekki einstaklinga með nafn og sögu og hjörtu sem slá – hún sér bara fjórar kennitölur.

Kannski þurfum við meira hjarta, meiri umhyggju og kærleika inn í reglurnar og lögin kringum mótttöku þeirra sem leita til okkar í neyð sinni. Það er verkefni stjórnmálamanna og það er best að þau gangi í það strax eftir hátíðirnar, gjarnan innblásin af jólasögunni.

Til Egyptalands

Á jólum rifjum við upp söguna af flóttafjölskyldunni sem flúði frá Betlehem til Egyptalands.

Þau flúðu af því að þeim var ekki vært. Þau voru ekki með skilríki. Þau voru ekki sömu trúar og fólkið í landinu sem þau leituðu til. En það var tekið á móti þeim. Þau fundu sig örugg í nýja landinu. Þar til þau gátu snúið aftur.

Þar gátu þau búið sér og barninu sínu þannig líf að þegar hann varð fullorðinn gat hann lifað það að vera kallaður af Guði til að prédika að við ættum að standa saman, hugsa um hvert annað. Og hann sagði um börnin:

„Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“ (Mark. 9.37)

Munum eftir þessu og munum líka að prédikun Jesú er ekki prédikun þess sem hafði búið við forréttindi alla ævi. Hún er ekki prédikun þess sem hafði það alltaf gott og þurfti aldrei að hafa fyrir lífinu.

Hún er prédikun flóttamannsins sem var rifinn upp nýfæddur og flutti í annað land þar sem hann bjó þar til hann gat svo snúið aftur til síns heima.

Hún er prédikun þess sem bjó við ógn ofbeldis, ofríkis og vantrausts en stóð  með boðskapnum sínum og fólkinu.

Og hver er boðskapurinn? Þú skiptir máli. Eins og þú ert. Og það skiptir máli að þú látir aðra finna það að þeir skipta líka máli.

Það er jólaguðspjallið.

Það er hugsunin á bak við þetta allt saman.

Guð elskar.

Heiminn.

Og þig.

Þess vegna sendi hann Jesú.

Þess vegna biður hann þig að lifa með opinn faðminn og opið hjarta.

Þetta erum við beðin að taka með okkur inn í jólin.

Þetta erum við beðin um að bera áfram til annarra.

Sérstaklega þeirra sem eru á flótta og hafa fengið þau skilaboð að þau og þeirra hagsmunir skipti ekki máli.

Sérstaklega til þeirra sem hafa fengið þau skilaboð þau séu ekki í lagi.

Guð gefi þér gleðileg jól.

Flutt í Brautarholtskirkju og Saurbæjarkirkju á aðfangadegi, 24. desember 2015.