Mörkin hennar Míu

princess

Síðustu daga höfum við enn á ný verið áþreifanlega minnt á ömurlegan veruleika barnaníðs og kynferðislegs ofbeldis sem þrífst m.a. fyrir sljóleika og sinnuleysi umhverfisins. Umfjöllun síðustu daga hefur varpað ljósi á hve samfélagið upplifðir sig ráðalaust og vanmáttugt þegar kynferðisofbeldi gegn börnum á sér stað, og bregst því ekki við sem skyldi. Ráðaleysið og skömmin býr til feluhjúp sem illvirkjar athafna sig á bak við.

Vitneskjan um barnaníð og útbreiðslu þess er orðin almennari og öruggari á ýmsan hátt. Sem betur fer hefur andrúmsloftið orðið þolendum ofbeldis skilningsríkara og allsgáðara, aukinn skilningur og eðlilegar varnir leiða vonandi til þess að hægt sé að fyrirbyggja barnaníð í sem flestum tilfellum.

Hluti af úrvinnslu samfélagsins og almennri vitundarvakningu um kynferðisbrotamál fer fram í listsköpun, svo sem bókmenntum og kvikmyndum. Óhætt er að segja að norræna senan hefur verið töluvert upptekin af þessum málaflokki síðustu ár. Ófáir skandinavískir krimmahöfundar hafa gert honum skil og margar gæðakvikmyndir, ekki síst frá Danmörku hafa varpað nístandi ljósi á veruleika barna sem níðst er á. Kvikmyndir eins og Veislan, Listin að gráta í kór, og Princess koma í hugann.

Við horfðum á dönsku kvikmyndinni Princess í gærkvöldi. Hún er frá árinu 2006 og er óvenjuleg að því leyti að hún er að stærstum hluta teiknuð. En þessi teiknimynd er ekki fyrir börn. Hún fjallar um Miu, sem er fimm ára og hefur þurft að þola markaleysi og ofbeldi af hálfu fullorðinna alla sína stuttu ævi. Móðir hennar er klámstjarnan The Princess, sem hefur malað gull fyrir gaurana sem hafa skapað heilan bransa í kringum líkama hennar.

Í upphafi myndarinnar fylgjumst við með bróður Prinsessunnar, sem er prestur, snúa heim frá framandi löndum, til að taka Míu að sér eftir að móðir hennar deyr. Bróðirinn, sem heitir August, ákveður síðan að hreinsa nafn systur sinnar með því að eyða öllu efni sem framleitt var með The Princess. Það gerist með tilheyrandi átökum og blóðsúthellingum.

Myndin er ljót og sorgleg. Hún er líka beitt áminning um hvað markaleysi og ofbeldi gerir börnum. Á ýktan hátt lætur myndin okkur íhuga hvað við myndum sjálf gera – eða hvort við myndum yfirleitt gera eitthvað?

Princess dregur athygli okkar að undirheimalífi klámsins og þeirri staðreynd að á bak við fígúrur eins og the Princess eru manneskjur eins og mamman Christine og dóttirin Mia. Misnotkun og valdbeiting eru ekki aðeins fylgifiskar klámiðnaðarins heldur grundvöllur hans.

Hvorutveggja ætti að uppræta – þótt við mælum ekki með aðferðum prestsins Augusts.

Mörkin hennar Míu eru mörk allra barna. Þau ber að virða.

Nándin nærir allan ársins hring

Unnur, Kristín, Heiðbjört

Um þessar eru ýmiskonar áramótaheit strengd. Hér kemur tillaga til foreldra: Við skulum knús börnin okkar meira á árinu sem er nýbyrjað. Og við skulum bregðast vel við þegar þau tjá sig, eyða meiri tíma með þeim og styðja þau í frjálsum leik. Því allt þetta skiptir sköpum þegar kemur að þroska og velferð barnanna okkar.

Það fullyrðir Darcia Narvaez, prófessor í sálfræði við Notre Dame háskólann í Bandaríkjunum. Hún varar við ýmsu sem hefur verið viðhaft í uppeldi ungra barna þar í landi síðustu hálfa öldina, s.s. að hafa börn ekki á brjósti, setja þau í sérherbergi frá fæðingu, láta þau gráta til að spilla þeim ekki og síðast en ekki síst vera í litlum líkamlegum tengslum við þau.

Það er hefur sýnt sig að þetta hefur slæm áhrif á sálar- og líkamsþroska barnanna. Það er því verðugt áramótaheit að faðma og halda meira á börnunum sínum, styðja þau í leik og bregðast við þegar þau láta í ljós þörf fyrir athygli og umönnun.

Það er gott fyrir þau og gefur pabba og mömmu líka heilmikið.

Myndin er af mæðgunum Unni, Heiðbjörtu og Kristínu í jólaversluninni í desember. Þá var gott fyrir litla hnátu að kúra í magapoka framan á mömmu.

Ekki endilega fyrstur í mark

Tómas Viktor á nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga

Tómas Viktor, sem er næstyngstur barnanna á heimilinu, tók þátt í Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga sem var haldið í Laugardalslauginni í dag. Þarna voru saman komnir krakkar og foreldrar sem æfa sund og eru mörg hver meistarar. Sum voru að stíga fyrstu skrefin á sundbrautinni, önnur þrautreyndir sundkappar sem hafa jafnvel keppt um árabil. Við sáum einn ólympíumeistara á mótinu í dag og erum viss um að fleiri leynast í hópi keppenda.

Á þessu móti er það því ekki endilega sá eða sú sem fyrst kemur í mark sem vinnur besta afrekið, heldur sá eða sú sem nær bestum tíma miðað við sinn flokk.

Við lásum þessi orð í bæklingnum sem við fengum afhentan á mótsstað. Þetta er áminning um að fötluðu íþróttamennirnir sem kepptu á mótinu voru ekki öll í sama flokki og þar af leiðandi er árangurinn ekki endilega sambærilegur. Sundkappi getur náð framúrskarandi árangri þótt hann sé ekki fyrstur í sínum riðli. En þetta miðlar líka grunngildi alls íþróttastarfsins sem er viljinn til að gera betur, sama hvert formið er.

Við þurfum ekkert endilega að vera best af öllum, en það er gaman að vera betri en við vorum sjálf í gær eða í fyrra.

Fleiri myndir frá mótinu.

Flugeldar fyrir hipstera

Fireworks for all of you bearded #hipsters out there.

Njótið áramótanna og farið varlega þegar þið skjótið upp rakettum og kveikið í kökunum. Við keyptum þessa köku sem er kennd við Þórólf Mostraskegg. Hann var svo nefndur af því að hann var skeggprúður og átti rætur að rekja til eyjarinnar Mostur í Noregi. Miðað við hversu vel skeggið var snyrt þá var Þórólfur kannski einhvers konar hipster. Í dag hefði hann líklega verslað fötin hjá piltunum í Kjörgarði og fengið skeggið snyrt þar líka ;)

Hvað sem öðru líður þá er gott ár í vændum og við hlökkum til þess. Takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Guð blessi ykkur á áramótum og á nýju ári.

Betlehem, Newtown, Reykjavík

Úr barnadagspistli á Trú.is sem fjallar um þrjá barnadaga. Þann í Betlehem forðum daga, í Newtown fyrr í þessum mánuði og barnadagana í Reykjavík á komandi ári:

Atburðurinn voðalegi þegar tuttugu börn og sex kennarar voru skotin til bana í Newtown í Connecticut er hluti af jólasögunni um Guð sem gerðist manneskja í litlu viðkvæmu barni. Hryllingurinn í Newtown átti sér ekki einvörðungu stað í aðdraganda jólahátíðarinnar heldur varpar hann ljósi á jólasöguna og merkingu hennar.