Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Eitthvað jákvætt og uppbyggilegt

Kettlingur - af því að internetið elskar ketti

Ertu á Facebook?

Hvað skrifar þú mest um?

Hverju deilir þú með öðrum?

Myndum? Texta? Hugmyndum? Myndböndum? Efni sem vekur áhuga þinn?

Hvað einkennir þitt framlag til vefsamfélagsins á fésinu?

Ef þú ert eins og flestir þá er það eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Það sem ritstjórinn Jónas Kristjánsson kallaði Ást og friður í bloggfærslu um daginn:

Fólk býður góðan daginn, sýnir myndir af afabörnum, segir frá grillun með vinum og öðrum dásemdum tilverunnar.

Og svo gaf samfélagsmiðlinum hann einkunn:

Fésbókin er afar „jákvæður“ miðill, sem hvetur okkur til að vera góð.“

Við þetta má bæta: hún hvetur okkur til að vera góð, jákvæð og uppbyggileg, í daglega lífinu. Hún er vettvangur til að deila því sem við upplifum hér og nú. Ekki einhverju hátt-upp-höfnu og fjarlægu. Heldur lífinu okkar. Bara eins og það er.

Ég held að okkur geti stundum yfirsést þessi jákvæðni af því að oft er nöldrað yfir netinu:

 • Fólk notar það of mikið,
 • skrifar um eitthvað óáhugavert –
 • svo er það þessi hópur sem er „virkur í athugasemdum“ sem þykir víst ekki par fínn.

En svona er þetta.

Læk

Þetta uppbyggilega eðli facebook og kannski samfélagsmiðlanna almennt er staðfest með því hvernig viðbrögð við getum sýnt.

Við getum auðvitað skrifað viðbrögð eða sett mynd eða jafnvel myndband í viðbrögð – en það einfaldasta af öllu er að smella að þrýsta á læk-hnappinn.

Læk.

Það getur merkt:

 • Takk fyrir.
 • Sammála.
 • Þetta er áhugavert.
 • Ég stend með þér.
 • Þú ert ekki einn.
 • Þú skiptir máli.

Og ekki bara það heldur: Daglega lífið þitt skiptir máli.

Kannski ekki alla í veröldinni. En þann hóp sem tengist þér á Facebook.

Og ást, húmor, depurð, reiði

Í vikunni var reyndar kynnt tilraun á Facebook. Það á að bæta við hnöppum. Læk verður að viðbrögðum og viðbragðshnapparnir verða sjö talsins:

 1. Læk.
 2. Ást.
 3. Fyndið.
 4. Jibbí.
 5. Vá.
 6. Depurð.
 7. Reiði.

Það sem við deilum með öðrum nær nefnilega yfir allan tilfinningaskalann og viðbrögðin gera það líka. Hver hefur til dæmis ekki hugsað sig tvisvar um áður en smellt er á læk við stöðuuppfærslu sem fjallar um eitthvað sorglegt eða erfitt.

Við vitum samt að lækir merkir ekki: Mikið var gott að þú lentir í vanda. Það merkir til dæmis: Ég hugsa til þín. Ég veit af þér.

En það sem er áhugavert við þessa tilraun Facebook er að nýju lækhnapparnir gefa þér verkfæri til að sýna samstöðu með skýrari hætti. Sýna samhygð. Og skilaboðin eru þau sömu og áður:

Ég stend með þér.

Englarnir og títuprjónshausinn

Hér ætla ég að gera stuttan útúrdúr.

Vitið þið hvað margir englar komast fyrir á títuprjónshausi?

Ég veit það ekki. En þetta er semsagt ein af spurningunum sem var spurt á miðöldum þegar búin voru til flókin kerfi til að komast að mikilvægum sannleika um hið heilaga og eilífa og um Guð. Þá veltu menn semsagt fyrir sér hvort og þá hvað mikið pláss englar taka. Þeir hafa nefnilega ekki hefðbundinn líkama.

Kannski fannst einhverjum þetta fyndið.

Þetta minnir mig á brandarana um það hvað þú kemur mörgum manneskjum fyrir í litlum bíl.

Marteinn Lúther siðbótarmaður brást við svona vangaveltum með því að segja að við ættum ekki eyða tímanum í svona spurningar. Þess í stað ættum við að setja fingurinn á það sem skipti máli. Á það sem hægt að gera hér og nú. Því Guð væri ekki hátt upp hafinn og fjarlægur heldur nálægur og að verki.

Ég rifjaði þetta upp þegar ég las guðspjall dagsins þar sem Jesús er spurður: „Hvers vegna er þessi maður blindur?“ Og svo fær hann tvo valkosti til að svara.

 • Syndgaði hann?
 • Syndguðu foreldrar hans?

En Jesús svarar:

„Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er.“

Þegar ég les þetta sé ég fyrir mér að hann hafi dæst og sagt eitthvað á þessa leið:

Krakkar, slakið aðeins á, þetta snýst ekki um að velta fyrir sér synd og sekt heldur um það sem við ætlum að gera í málinu. 

Svo læknaði hann manninn. Því þannig vann Jesú.

Og hver er boðskapurinn: Mikilvægast af öllu er verk Guðs. Og hvað er það? Það er að elska í verki. Með höndunum og orðunum og munninum og munnvatninu eins og við sjáum í guðspjalli dagsins.

Nei, þetta snýst ekki um að skyrpa.

Þetta snýst um að sýna umhyggju í verki með öllu sem við eigum. Hugmyndum, orðum, höndum og fingrum og því öllu.

Þið skiljið.

Jarðbundið

Og þetta er eiginlega frekar jarðbundið en himneskt. Þess vegna finnst mér þetta líka kallast svo ágætlega á við samfélagsmiðlana og fésbókina vegna þess að hún er jarðbundin. Hún er hér og nú. Skilaboðin sem við lesum þar eru endurtekin:

Þetta er það sem ég upplifi eða upplifði. Mig langar að deila því með þér.

Og lækið sem er okkar viðbrögð segir:

Takk. Ég sé þig.

Og þegar vel tekst til er það tjáning á umhyggju og ást sem ber áfram skilaboðin:

Þú ert hluti af hópi, þú skiptir máli og ég er þakklátur fyrir þig og þitt framlag.

Þegar við höfum þetta sem útgangspunkt og samskiptamáta þá held ég að það hafi áhrif – mótandi áhrif – á önnur samskipti.

Ég held að það greiði fyrir því að við vinnum verk hans sem skapaði heiminn og sendir okkur til annara með það verkefni að skilja eftir okkur falleg spor og láta láta gott af okkur leiða. Og breyta þanning heiminum.

Þannig ná fésbókin og Jesús saman í því sem er jarðbundið og einfalt. Í því sem er hér og nú. Í því sem er til uppbyggingar og er til góðs.

Fæ ég kannski læk á það?

Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

 

Jesús í Druslugöngunni

Druslugangan. Mynd: Rúv.

Í dag er haldin í fimmta sinn Druslugangan í Reykjavík, sem er farin til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning með því að vísa ábyrgðinni þangað sem hún á heima – til gerendanna. Prinsip Druslugöngunnar er einfalt: Að standa saman og skapa samkennd með þolendum ofbeldis. Í stað þess að leita eftir afsökunum fyrir ofbeldinu í fari þolendans, hvernig hún eða hann var klæddur eða hvert hún eða hann lagði leið sína á tilteknum tíma, er sjónum beint að raunverulegri ástæðu ofbeldisins, sem er að einhver einstaklingur beitir annan ofbeldi. Slíkt er alltaf á ábyrgð gerandans. Aldrei þolandans.

Gangan í ár leggur í stað frá Hallgrímskirkju, sem er ekki bara mest áberandi bygging í Reykjavík heldur ein frægasta kirkja í heimi. Mér finnst það einstaklega viðeigandi og eflandi að Druslugangan verði til með því að fólk safnist saman í skjóli við byggingu sem er ekki bara helsta kennileiti borgarinnar, heldur er reist í minningu og helguð okkar manni frá Nasaret, Jesú Kristi Jósepssyni.

Það sem einkennir líf og starf Jesú er hvað hann gekk beint inn í aðstæður sem sköpuðust vegna fordóma og dómhörku í garð samferðafólks, ekki síst í tilfelli kvenna og reynslu þeirra. Jesús átti samneyti við druslur og mætti þeim á jafningjagrundvelli. Í guðspjöllunum lesum við um samtöl og samskipti sem Jesús átti við konur sem samfélagið hafði fordæmt á grundvelli reynslu af kynferðisofbeldi og kynhegðunar. Í samfylgd Jesú setjumst við niður með samversku konunni sem samfélagið leit niður á fyrir að hafa átt fullt af mönnum og við horfumst í augu við konuna sem átti að verða grýtt fyrir það að drýgja hór. Eins og Jesús stöndum við með konum sem samfélagið kallar druslur og skilum skömminni til þeirra sem beita aðra ofbeldi.

Það er maklegt og réttvíst að ganga Druslugönguna og vita að Jesús er með í för þegar við upprætum fordóma, dómhörku og ranglæti. Frá Hallgrímskirkju sækjum við styrk og innblástur til að ganga með náungakærleik og gegn ofbeldi og sinnuleysi. Gleðilega Druslugöngu!

Jesús í Druslugöngunni, birtist fyrst á Vísi.is.

Mýkingarefni handa hjörtum

Mýkingarefni fyrir þvott

Ég ætla að kenna þér boðorð sem getur breytt lífinu þínu. Boðorð sem er einfalt og stutt svo allir geta munað það og hefur umbreytandi áhrif í lífinu. Það er svona:

„Þú skalt ekki eiga óvini og ekki eignast óvini.“

Hvers vegna? (meira…)

Þrautseigja í þrengingum

Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið. Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.

Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?

En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir. Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?

Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.
Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis. (Heb 12.4-11)

Þessi texti er um viðbrögð okkar við mótlæti og þrautseigju í þrengingum. Á hnitmiðaðan hátt minnir hann okkur á þá augljósu staðreynd að lífið er erfitt og getur farið um okkur ómjúkum höndum. Mennirnir missa, elska, gráta og sakna kvað Jóhann Sigurjónsson í vögguvísu sinni og bað þess að unginn mætti sofa sem lengst til að verða síður fyrir mæðunni sem bíður allra manna. Texti Hebreabréfsins talar til þeirra sem í mótlætinu velta því fyrir sér hvers vegna Guð leyfi allt það illa og erfiða sem við þurfum að ganga í gegnum. Hvernig stendur á því að jafnvel góðar manneskjur sem ganga á Guðs vegum upplifa erfiðleika og hryggð? Hvernig geta þær komið því heim og saman að Guð sem er góður leyfi allt það erfiða og vonda?

Textinn svarar þessum stóru spurningum ekki. En hann stappar stálinu í þau sem gætu verið að missa móðinn og missa trúna á að þau eigi nokkuð gott í vændum. Hann minnir á að þótt eitthvað geti virst óbærilegt í augnablikinu þá eru þau sem setja traust sitt á Guð í öruggri hendi hans. Eins og börn í umsjón ástríkra og ábyrgra foreldra. Þessi áminning er ekki sett fram til að gera lítið úr upplifunum fólks á erfiðleika- og hryggðartímum – þvert á móti þá eru þrengingar lífsins dauðans alvara og afar raunverulegar. Mótlæti er aldrei gleðiefni, heldur hryggðar. Þess vegna er ómögulegt að segja við þau sem þjást og spyrja sig áleitinna spurninga um tilgang þess sem þau eru að ganga í gegnum að þau muni vissulega upplifa eitthvað gott vegna þess hvað þau eiga erfitt núna.

Hins vegar geta þau sem finna sig einangruð og afskipt í þrengingunum verið viss um að þau eru elskuð af Guði sem er trúfastur og gleymir engum. Að upplifa erfiðleika í samskiptum og sambandi við annan þýðir ekki að við séum gefin upp á bátinn. Samband sem er byggt á trausti og ást er sterkara tímabundnum ágjöfum og persónulegu mótlæti.

Og þversögn lífsins er að þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti lærum við á því að takast á við lífið í trú á að við erum elskuð. Agi gefur þeim sem við hann hafa tamist ávöxt friðar og réttlætis. Og andlegur agi sem við getum lært að nýta okkur til að vaxa og þroskast í trúnni gefur hlutdeild í heilagleika Guðs. Það er agi sem vert er að sækjast eftir – látum vera með sjálfsaga sem beinist að því að takmarka súkkulaðiinntöku og hámarka kraftgöngur.

Markmið okkar sem kristnar manneskjur á að vera að nærast í samfélaginu við Krist í gegnum orð og sakramenti. Þaðan drögum við okkar sjálfsmynd og þangað sækjum við okkar styrk í mótlæti og þrengingum.

Flutt í árdegismessu í Hallgrímskirkju 8. október 2003.

Góðar móttökur

„Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.“ (Lk 15.11-24)

• • •

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Það er svo áhugavert að kynnast nýjum hliðum á fólki. Við upplifum stundum nýjar hliðar á fólki sem við þekkjum mjög vel. Og á okkur sjálfum. Og þá sjáum við fólk í alveg nýju ljósi. Þetta gerist t.d. þegar maður verður foreldri sjálfur, þá fer maður að meta foreldra sína á allt annan hátt en áður og kynnist þeim kannski alveg upp á nýtt.

Lífið snýst svolítið um það að upplifa hluti sem maður þekkir upp á nýtt. Því aðstæður breytast og við breytumst. Í guðspjallinu um soninn sem fór að heiman fáum við að fylgjast með fólki í aðstæðum sem breytast og hvernig það hefur áhrif á líf þeirra sem þar koma við sögu. Sagan byrjar á því að yngri sonurinn á heimilinu vill brjóta upp tilveruna eins og hún hefur verið hingað til. Hann vill út í heim til að meika það. Hvorki hann né faðir hans sem lætur þetta eftir honum, vissu hvernig honum ætti eftir að ganga í þessum nýju aðstæðum.

Svo kemur á daginn að hann höndlar frelsið og sjálfstæðið ekkert mjög vel. Aðstæður hans breytast aftur og hann fer að líta á sig sem óverðugan og ómögulega manneskju. Þegar hann gengur í sig og snýr heim til að hitta föður sinn að nýju, býst hann ekki við öðru en að viðmótið heima fyrir verði í samræmi við það hvernig honum gekk að fóta sig í fjarlæga landinu. En svo er ekki. Ást föðurins til barnsins síns knýr hann til að fagna hinum týnda syni sem nú er fundinn og kominn heim. Kærleikurinn breytir erfiðum aðstæðum þar sem fólk er að kljást við sekt og byrðar, í fögnuð og gleði. Þessu hafði sonurinn týndi ekki búist við. Og þetta hefði hann ekki fengið að reyna nema vegna þess að hann fór og kom aftur.

• • •

Þessi dæmisaga Jesú skírskotar til reynslu okkar bæði af því að vera manneskjur í tengslum við aðrar manneskjur og til trúarlífs hvers og eins okkar. Hún sýnir kærleika í samskiptum sem er það eina sem getur bætt brotin tengsl og læknað sárin sem við völdum hvert öðru. Og hún sýnir okkur kærleika Guðs til barna sinna. Hún varpar ljósi á það hvernig Guð bregst við þegar nýjar aðstæður koma upp og kennir okkar að vænta nýrra hliða á Guði. Stundum erum við aðeins reiðubúin til að leita þess Guðs sem við þegar þekkjum en viljum síður leita þess Guðs sem við þekkjum ekki.

Kannski göngum við um með kvíða yfir því að vera óverðug og ómögulegar manneskjur, og vitum ekki að Guð bíður okkar með kærleika sem breiðir yfir allt, trúir öllu og vonar allt.

Sagan um týnda soninn sem snýr aftur heim brýnir fyrir okkur að leita leiða í samskiptum og samfélagi okkar sem hafa kærleikann að leiðarljósi. Það þurfum við alltaf að vera minnt á. Einmitt núna stöndum við sem elskum kirkjuna okkar og störfum við að útbreiða boðskapinn um Jesú Krist frammi fyrir því hvernig við getum sæst við þau sem boðskapurinn er ætlaður. Hvernig getum við boðið þau velkomin sem hafa farið að heiman og eru hrædd við að snúa við – af því að þau halda að það sé leiðinlegt og þvingandi í kirkjunni? Hvernig getum við látið þeim líða vel þegar þau koma til kirkju, þannig að þau finni sig og upplifi að það sé talað til þeirra?

Því Guð sem þau þekkja ekki, bíður þeirra þar með kærleika sinn sem þau vænta ekki.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.