Reiðimessa

Árni og Kristín:

Það er margt sem gerir okkur reið á Íslandi í dag. Við erum reið yfir því sem við sjáum í kringum okkur, yfir því sem aflaga fer. Í Grafarvogskirkju verður  reiðimessa föstudaginn 16. apríl kl. 20.

Reiðimessa er guðsþjónusta þar sem við berum reiði okkar á borð fyrir Guð og hvert annað. Í reiðimessunni ætlum við að nefna reiðina okkar og biðja með henni.

Við lítum til Biblíunnar til að sjá hvernig reiðin getur birst í trúarlífi manneskjunnar. Alveg eins og með aðrar frumtilfinningar, þá hefur reiðin sinn sess og sitt hlutverk í bæn hins trúaða til Drottins.

Í 44. sálmi Davíðs er Guð ásakaður og manneskjan segir reið við Guð: „En nú hefur þú hafnað oss og niðurlægt!“ Á öðrum stað sjáum við hvernig Jesús bregst reiður við þegar honum er misboðið: „Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra.“

Við komum með reiðina okkar í kirkjuna og uppgötvum að þar erum við örugg að tjá okkur og nefna það sem lætur hjartað okkar slá örar í reiði og sorg. Við komum með hjarta sem er reitt og úthellum því frammi fyrir Guði. Við rísum upp og erum reið.

Verið velkomin til kirkju.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.