Skilnaðarveislur

Kristín:

Mynd: Roberto Bouza

Mynd: Roberto Bouza

Í skemmtilegri frétt á RUV segir frá hugvitsömum bissnissmanni í Japan sem býður hjónum sem eru að skilja upp á að halda þeim veislu af tilefninu.  Kannski dettur flestum ekki veisluhöld í hug þegar hjónaskilnaður er annars vegar – en hugmyndin að gera þeim tímamótum skil er ekki ný af nálinni.

Það fylgir manneskjunni að vilja lyfta upp með einhverjum hætti stórum stundum í lífinu.  Margar kenningar í mannfræði um helgihald og helgisiði ganga út frá því að við tímamót og krossgötur sé manneskjunni beinlínis nauðsynlegt að viðhafa ritúal eða heilaga stund. Slík stund miðlar merkingu og staðfestir ferli sem á sér stað.

Þessar helgistundir gegna margvíslegu hlutverki. Stundum eru þær beinlýnis ætlaðar til þess að koma breytingum til leiðar – eins og margvíslegir útfararsiðir gegna því hlutverki að auðvelda ferðalagið frá þessu lífi yfir í hið næsta. Við getum skoðað hjónavígsluna – eins og hún birtist í ólíkum trúarbrögðum og menningarsamhengi – út frá þessu sjónarhorni. Hjónavígslan er haldin til að gera sýnilegt – og raunverulegt – að tveir einstaklingar úr tveimur fjölskyldum rugla nú reitum sínum og binda nýtt bandalag. Þetta er gert í heyranda hljóði og staðfestir fyrir umhverfinu að þessi breyting hefur átt sér stað.

Ýmsar félagslegar aðstæður þurfa að vera til staðar til að krossgötur í lífi manneskjunnar fá þann sess að verðskulda helgisiði. Eitt af því er sameiginlegur skilningur á því sem á sér stað. Barn fæðist – á því leikur enginn vafi – við höldum skírn, nafngjöf, helgun eða eitthvað slíkt. Barn verður að fulltíða manneskju – við sjáum ýmsar útfærslur á hvernig haldið er upp á það.

Þetta á líka við um hjónavígslu eða brúðkaup. Skilnaður hefur hins vegar ekki fengið sérstaka athöfn fyrir sig – og fer þannig lagað séð ekki fram fyrir opnum tjöldum.  Engum dylst að skilnaður er stór breyting á högum einstaklinga og fjölskyldu – félagslega, tilfinningalega, fjárhagslega. En það sem greinir skilnað frá mörgum öðrum breytingum í lífinu er að aðilar málsins koma hugsanlega að því frá ólíkum hliðum og upplifa hann ólíkt. Fyrir einn er skilnaðurinn lausn, fyrir annan skipbrot.  Jafnvel þegar um sama skilnað er að ræða.

Vegna þess að erfitt er að finna sameiginlega tjáningu á því sem skilnaðurinn hefur í för með sér, er líka erfitt að miðla henni með athöfn. En það er auðvitað alltaf tilefni til að halda góða veislu.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.