Bræðrasagan Submarino

Í gær var kvikmyndin Submarino sýnd í Bíó Paradís. Myndin hlaut á dögunum kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, en þau verða einmitt afhent í kvöld. Þetta var nóvembersýning Deus ex cinema í Bíó Paradís og hún var sérstök að því leyti að leikstjórinn, Tomas Vinterberg var á staðnum og hann tók þátt í umræðum að lokinni sýningu. Vinterberg er flottur fagmaður og það var virkilega gaman að hlusta á hann.

Það kom í hlut Árna Svans að flytja stutta innlýsingu á undan sýningunni. Hún var nokkurn veginn svona:

Submarino er verðlaunamynd. Dómnefndin sem veitti henni kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs á dögunum fangaði kjarna hennar í umsögn sinni. Þau skrifuðu:

„Submarino er óvægin en jafnframt áhrifamikil saga tveggja bræðra sem tengjast vegna örlagaríkra atburða í æsku. Myndin fjallar um bræður sem axla ábyrgð fullorðinna og um hvernig barn fær félagslegar aðstæður í arf, en einnig um von um betri framtíð. Í myndinni er fjallað um þemu eins og áföll, sekt og sættir. Submarino er einfalt en jafnframt flókið listaverk, handritið er heilsteypt og leikstjórnin stílviss. Fínleg og þétt innri bygging sem gengur upp, nálægð í leiknum og snjöll notkun hljóðs og ljóss stuðla að því að skapa þessa áleitnu mynd af lífi fólks.“

Þetta er bræðrasaga og stórsaga – sumir myndu segja samtíða goðsaga.
Þetta er saga um erfiða, brotna, fortíð, um fíkn og hömluleysi.
Þetta er saga um samfélagið okkar á Norðurlöndunum.
Þetta er saga um uppgjör.
Þetta er saga um vonleysi. Og þetta er saga um von.

Submarino er vel gerð og hún er vel leikin. Það er ljóst að leikstjórinn, Tomas Vinterberg, hefur gott vald á viðfangsefninu og það verður spennandi að fá tækifæri til að ræða myndina við hann á eftir. Ég ætla ekki að segja meira um myndina sjálfa, en vil biðja ykkur að taka eftir þrennu við áhorfið, einu einkenni á kvikmyndinni, einu stefi og einu atriði í Submarino:

  1. Það fyrsta er lýsingin í myndinni. Fylgist með því hvernig samspilið er milli ljóss og skugga. Hvaða atriði eru dimm, full af myrkri, hvaða atriði eru full af ljósi.
  2. Annað er þetta: Við getum skoðað Submarino sem íhugun á tveimur þekktum stefjum – bæði eru Biblíuleg: Annars vegar syndir feðranna, sem koma niður á börnunum. Hér getum við spurt okkur: Miðlar Submarino von eða vonleysi? Hins vegar sögunni þekktu um bræðurna Kain og Abel, en sú saga spyr einmitt grundvallarspurningar sem má íhuga í samhengi Submarino: Á ég að gæta bróður míns?
  3. Það þriðja sem ég vil vekja athygli ykkar á er eitt atriði í upphafi myndarinnar. Þá fylgjumst við með einfaldri skírnarathöfn. Þar er nýfæddu barni gefið nafn. Hvaða merkingu hefur þessi athöfn í samhengi myndarinnar? Og hvaða merkingu hafa nöfn og nafnleysi í myndinni?

Góða skemmtun.

Ps. Lesið líka pistilinn Bræður munu bregðast sem var skrifaður þegar myndin var sýnd á RIFF í september.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.