Snjórinn og jafnvægið

Enlightening

Þegar byrjaði að kyngja niður snjó í gær breytti borgin um svip. Hús og garðar fengu á sig dulúðlegan blæ, götur og ljósastaurar voru eins og klippt út úr Narníu. Umferðarniðurinn og borgarhávaðinn sem fylgir íbúunum frá morgni til kvölds kæfðist undir þykkri snjóbreiðunni. Áætlanir og tímamörk riðluðust því enginn komst almennilega leiðar sinnar. Snjórinn fær okkur til að staldra við.

Nýfallinn snjórinn kallar fram þrá eftir því sem er hreint og óspillt og saklaust. Snjórinn sem fellur sýnir umhverfið okkar einmitt þannig: hreint og óspillt. Snjónum fylgir þannig huggun og hugheysting.

Þessa daga og misseri líður okkur á Íslandi eins og við sitjum á stórum haug þar sem ýmislegt leynist. Við bundum vonir við stjórnlagaþingið sem mikilvægt skref í rétta átt, en vitum nú ekki hvað verður.

Aðgerðir sem miða að réttlæti eru forsenda þess að sátt náist í samfélaginu. Án sáttar fær kreppan að lifa í huga og hjarta ungra sem aldinna. Aðgerðir sem miða að réttlæti í samfélaginu, nefna hlutina sínu rétta nafni og kryfja málin til margjar. Þær ganga jafnt yfir alla. Réttlæti snýst hvorki um hefnd né offors. Það miðar að jafnvægi og jafnrétti.

Góðverk og góður ásetningur koma aldrei í stað réttlætis. Á það benti Ágústínus kirkjufaðir á sinni tíð og á það minnum við núna. Við þurfum að vinna saman að réttlæti í samfélaginu. Þráin í hjarta okkar er til samfélags þar sem ríkir sátt og náungakærleikur.

Þangað skulum við stefna.

Við höfum áður skrifað um þetta. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.