Fjórar mínútur

Vier Minuten er önnur kvikmynd leikstjórans Chris Kraus í fullri lengd. Myndin greinir frá Jenny, ungri konu sem situr í fangelsi fyrir manndráp. Hin áttræða Traude Krüger, sem kennt hefur föngum á píanó síðan 1944, uppgötvar hæfileika Jennyar sem var undrabarn í tónlist. Samband þeirra tveggja verður sérstakt og flett er ofan af atburðum úr fortíðinni. Fjórar mínútur fjallar um viljann til að nýta hæfileika sína.

Myndin er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís og á morgun, laugardaginn 19. mars kl. 20, verður dagskrá í tengslum við sýningu myndarinnar. Á undan sýningunni flytur Árni Svanur stutta innlýsingu og að  sýningu lokinni verða umræður um myndina.

Chris Kraus er einhver áhugaverðasti leikstjóri Þjóðverja í dag. Fyrstu mynd hans, Brotið gler (Scherbentanz), var afar vel tekið og hlaut margvísleg verðlaun í heimalandi hans. Fjórar mínútur er önnur mynd hans og þriðja mynd hans Poll var frumsýnd nú í febrúar.

Vier Minuten hlaut kvikmyndaverðlaun kirkjunnar þegar þau voru veitt í fyrsta sinn í október 2005. Í umsögn dómnefndar um myndina sagði:

„Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.“

Það er svo sannarlega hægt að mæla með þessari mynd.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.