Fjórar mínútur

Vier Minuten er önnur kvikmynd leikstjórans Chris Kraus í fullri lengd. Myndin greinir frá Jenny, ungri konu sem situr í fangelsi fyrir manndráp. Hin áttræða Traude Krüger, sem kennt hefur föngum á píanó síðan 1944, uppgötvar hæfileika Jennyar sem var undrabarn í tónlist. Samband þeirra tveggja verður sérstakt og flett er ofan af atburðum úr fortíðinni. Fjórar mínútur fjallar um viljann til að nýta hæfileika sína.

Myndin er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís og á morgun, laugardaginn 19. mars kl. 20, verður dagskrá í tengslum við sýningu myndarinnar. Á undan sýningunni flytur Árni Svanur stutta innlýsingu og að  sýningu lokinni verða umræður um myndina.

Chris Kraus er einhver áhugaverðasti leikstjóri Þjóðverja í dag. Fyrstu mynd hans, Brotið gler (Scherbentanz), var afar vel tekið og hlaut margvísleg verðlaun í heimalandi hans. Fjórar mínútur er önnur mynd hans og þriðja mynd hans Poll var frumsýnd nú í febrúar.

Vier Minuten hlaut kvikmyndaverðlaun kirkjunnar þegar þau voru veitt í fyrsta sinn í október 2005. Í umsögn dómnefndar um myndina sagði:

„Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.“

Það er svo sannarlega hægt að mæla með þessari mynd.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.