Hungursneyð, stríð og betri heimur

Hungursneyð, stríð og betri heimur eru meðal þess sem fermingarbörnin í Neskirkju ræða á sumarnámskeiðinu sem nú stendur yfir. Þau eru viss um að þau geti breytt heiminum.

Víða um land hefja söfnuðirnir vetrarstarfið með því að bjóða væntanlegum fermingarbörnum á námskeið, áður en hefðbundið skólastarf hefst. Þessa vikuna hefur Kristín kennt fermingarbörnum í Hafnarfirði og Árni hefur farið á milli sumar-fermingar-námskeiðanna og tekið myndir og myndbönd.

Í Hafnarfjarðarkirkju taka tveir söfnuðir höndum saman og halda námskeiðið sameiginlega. Hafnarfjarðarsókn og Ástjarnarsókn ná sameiginlega yfir 5 grunnskólahverfi og því er fermingarbörnum úr þessum hverfum boðið að taka þennan þátt fermingarstarfsins í sameiningu.

Námskeiðið byggir á fræðsluefni sem söfnuðirnir hafa unnið og nær yfir hefðbundin atriði sem finna má í námskrá fermingarstarfsins. Þar ber hæst fræðsla um Biblíuna, trúarlífið og samfélagið í kirkjunni. Hlutir eins og bænin, messan, líf Jesú og sköpunin eru rædd út frá sýn og reynslu fermingarbarnanna og þau leidd inn í kristna samtalshefð í öruggu umhverfi .

Kennarar eru prestar og starfsfólk safnaðanna sem hefur mikla reynslu af því að vinna með ungu fólki í kirkjulegu samhengi.

Sumarnámskeið fermingarbarna hafa rutt sér til rúms síðustu ár en þau eru gefandi og skemmtileg viðbót við hefðbundna fermingarfræðslu sem fer t.d. fram í vikulegum kennslustundum eftir skóla.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.