„Kæri páfi, nú ertu í vanda“

Ég vildi óska að þú hefðir slegið á þráðinn til mín. Þú ert í vanda staddur. Ég sé að þér hefur verið stefnt fyrir Alþjóða glæpadómstólinn í Haag.

Ég vona að þú skiljir hvers vegna þessi leið var farin og hvers vegna málshefjendur líta á kynferðisbrot presta gegn börnum og þöggun kirkjunnar sem glæp gegn mannkyni. Þetta virðist vera eina leiðin sem er fær til að varpa ljósi á umfang brotanna og á getuleysi kirkjunnar og meðvitaða þöggun hennar á sögum þolenda.

Ég sé að þú áttir fund með þolendum í síðustu viku þegar þú heimsóttir Þýskalands. Ég vona að þú haldir áfram að hitta þolendur kynferðisbrota.

Reyndar geri ég að tillögu minni að þú eigir slíka fundi á hverjum einasta degi sem þú átt eftir ólifaðan. Þótt þú gerðir það, myndir þú samt eiga langt í land með að hitta alla þá karla og þær konur sem voru beitt kynferðisofbeldi sem börn. En það yrði góð andleg lexía fyrir þig að hitta þau.

Ég efast ekki um að hryggð þín yfir „ólýsanlegum glæpum“ innan kaþólsku kirkjunnar gegn börnum sé einlæg. Hvernig væri annað hægt þegar hlustað er á sögur þolenda? Í heimsókninni til Þýskalands sagðir þú: „Fyrst og fremst votta ég saklausum fórnarlömbum hinna ólýsanlegu glæpa mína innilegustu samhyggð, og vona að náðarkraftur Krists og sáttarfórn hans færi lækningu og frið inn í líf þeirra.“

Með fullri virðingu, þá mun samhyggð þín og náðarkraftur Krists (eins magnaður og hann nú er) ekki færa lækningu og frið inn í líf þolenda kynferðisofbeldis. Þolendur þurfa réttlæti og eiga skilið að hlutur þeirra sé réttur (sbr. Lúkasarguðspjall 18.1-8). Þolendur þurfa meira en að þú viðurkennir sársauka þeirra. Þeir þurfa á því að halda að þú takir skref í átt að því að gera biskupana ábyrga fyrir kerfisbundnu getuleysi til að setja ofbeldismönnum stólinn fyrir dyrnar og vernda börn. Þetta hefur þú ekki gert. Þess vegna er málið nú fyrir Alþjóða glæpadómstólnum.

Kannski er það staðurinn þar sem þolendur fá það réttlæti og lækninguna sem þeir eiga skilið.

Ég bíð áfram eftir að þú hringir. Ég held ennþá að ég geti hjálpað þér í gegnum þetta.

Þín systir í Kristi,
Marie M. Fortune
FaithTrust Institute


Dr. Marie M. Fortune er einn virtasti sérfræðingur heims á sviði fræðslu- og forvarnarmála um kynferðislegt ofbeldi. Hún skrifaði Benedikt páfa XVI opið bréf á bloggi sínu 3. október sl. Íslenska þýðingu er að finna hér að ofan. Fortune sækir Ísland heim í október og mun tala á málþingi og námskeiði um forvarnir og viðbrögð við kynferðislegri misnotkun í samhengi kirkju og trúfélaga, 18. og 19. október.

In

4 responses

 1. Elin Hirst Avatar
  Elin Hirst

  Hlakka til ad fa Rev. Dr. Fortune hingad til lands eftir adeins 12 daga
  Kv elin

 2. Ég segi það með þér Elín, það er fengur að því að fá svona öfluga manneskju hingað til lands til að miðla af reynslu sinni.

  1. Elín Lóa Kristjánsdóttir Avatar
   Elín Lóa Kristjánsdóttir

   Þetta er frábært tækifæri að fá þessa mikilsmetnu fræðikonu til okkar til að deila með okkur reynslu sinni. Takk fyrir gott blogg Árni Svanur og Kristín Þórunn : )

 3. […] Fortune skrifaði bloggfærslu á dögunum sem Kristín þýddi á íslensku. Það er ágætt að renna yfir hana í aðdraganda […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.