Eru konur kjánar?

Í Morgunblaðinu í dag er birtur pistillinn Kjánahrollur ársins. Þar er á gamansaman hátt fjallað um ýmsar uppákomur á árinu sem er að líða sem blaðamanni þykja neyðarlegar,  hallærislegar og kjánalegar. Meðal þeirra eru:

  1. Opnun Lindex
  2. PR-trikk Steinunnar Birnu
  3. Grjótkastsorð Vigdísar Hauksdóttur
  4. Ásókn íslenskra stúlkna í þekktan leikara
  5. VIP-partý og yfirlýsingar Hildar Lífar og Lindu Ýrar

Sjö ljósmyndir eru birtar með umfjölluninni. Á fjórum myndum eru konur í forgrunni og myndin frá opnun Lindex sýnir aðallega konur (og það eru konur á tveimur myndum til viðbótar). Lesandi sem skimar síðuna, les fyrirsögn og skoðar myndir gæti hæglega dregið þá ályktun að konur væru aðalkjánarnir í ár. Konurnar sem vildu gera góð kaup í Lindex toppa listann.

Ágætis tímakaup

Fyrir tveimur dögum vakti Morgunblaðið einnig athygli á verslunarhegðun þeirra sem vilja gera góð kaup en útsala á Apple vörum milli jóla og nýárs rataði á forsíðu blaðsins. Flottur strákur sem hafði lagt mikið á sig til að kaupa sér tölvu gerði  góð kaup þennan dag. Hann var tekinn tali og sagt frá tölvukaupunum hans undir fyrirsögninni „Þetta er ágætis tímakaup“. Í fréttinni kom einnig fram að allar útsöluvörurnar seldust upp á innan við klukkustund.

Við vonum að strákurinn sem keypti sér MacBook Pro tölvu fái ekki sömu útreið hjá Morgunblaðinu og fólkið sem vildi kaupa barnaföt á góðu verði í Lindex.

Við spyrjum: Hvers vegna er sniðugt að bíða í biðröð til að kaupa tölvu á góðu verði, en kjánalegt að bíða í biðröð til að kaupa barnaföt á góðu verði?

In

One response

  1. Nákvæmlega.
    Ég gerðist svo fræg að fara í margnefnda verslun þónokkru eftir að hún opnaði og beið reyndar ekki í neinni biðröð. Yfirhöfnin sem ég keypti á dótturdóttur mína kostaði nákvæmlega 6000 krónum minna en sambærileg flík í annarri verslun í sama verslunarkjarna. Mér fannst ég bara allas ekkert kjánaleg skal ég segja ykkur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.