Gleðidagur 18: Agnes verður biskup

Sr. Agnes Sigurðardóttir

Í dag var talið í biskupskjöri og nú liggur fyrir að sr. Agnes Sigurðardóttir verður næsti biskup Íslands. Hún verður fyrsta konan í sögu þjóðkirkjunnar til að gegna embætti biskups.

Í morgunlestri dagsins segir frá orðaskiptum Jesú og Símonar Péturs:

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“

Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“

Þetta eru góð skilaboð á gleðidögum og gott veganesti fyrir næsta biskup.

Spurningin til þess sem leiðir kirkjuna er: Elskar þú Jesús?

Verkefni þess sem leiðir kirkjuna er að gæta lambanna – fólksins og samfélagsins okkar.

Nýr biskup var að þessu sinni kjörinn á gleðidögum. Það er von okkar og bæn að gleðin muni einkenna biskupstíð sr. Agnesar og að hún megi verða biskup gleðidaga í kirkju og samfélagi og boðberi vonarinnar.

Elskan til Jesú og elskan til náungans er mælikvarðinn á leiðtogana í kirkjunni. Við erum þess fullviss að sr. Agnes hefur hana til að bera í ríkum mæli og gleðjumst á átjánda gleðidegi yfir nýjum biskupi og tímamótum í kirkjunni.

Til hamingju með daginn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.