Berlínarkaffihúsin

Við áttum langa helgi í Berlín í ágúst. Ferðin var meðal annars nýtt til að heimsækja uppáhaldsveitingastaði og -kaffihús. Kaffihúsin voru að sjálfsögðu borin saman við Kaffismiðjuna og Pallett. Hér koma nokkrar myndir og örfá orð um uppáhaldskaffihúsin okkar í Berlín.

Bonanza Coffee Heroes

Bonanza Coffee Roasters er á Oderberger Strasse sem er rétt hjá Mauerpark. Þau rista sitt eigið kaffi og það er selt víða í Berlín sem eðalkaffi. Innandyra eru örfá sæti, en þau eru fleiri fyrir utan. Þarna er alltaf fullt af fólki og kaffið er gott.

The Barn

The Barn

The Barn er á Auguststraße. Þar fáum við uppáhaldsbakkelsi og eðalkaffi. Skonsurnar eru nýjar á hverjum degi, bornar fram með góðri sultu. Á mánudögum klukkan ellefu bjóða þau gestum upp á kaffismökkun. Það er eins með The Barn og Bonanza að sætin eru fá innandyra en þeim mun fleiri fyrir utan.

Godshot

Godshot er á Immanuelkirchestrasse. Þeirra markmið (sem kemur fram í nafni kaffihússins) er að gera hinn fullkomna espresso – Guðsbollann. Þau komast líka nokkuð nálægt honum, í kaffigerð og stemningu. Á Godshot er boðið upp á þrenns konar baunir, þær bestu heita Backyard, og eru nokkuð góðar.

No Fire No Glory

Tvíhleypa @ No Fire No Glory

No Fire No Glory er á Rykestrasse. Þar fáum við besta kaffið í Berlín. Þau bjóða upp á tvenns konar baunir, annars vegar eðalbaunir frá The Coffee Collective í Kaupmannahöfn, hins vegar Bonanzabaunir. Kaffibarþjónninn sem afgreiddi okkur (og var líklega frá Ástralínu) mælti með CC baunum í espresso og B baunum í cappucino. Við fylgdum hans ráði og vorum ekki svikin.

Enginn verður svikinn af þessum eðalkaffihúsum og við mælum eindregið með þeim sem alla sem eru á ferð í Berlín og líta við á Prenzlauer Berg.Uppáhaldskaffið okkar er nú samt borið fram á íslensku kaffihúsunum tveimur.

Ps. Er það ekki verðugt markmið að eins og eitt Berlínarkaffihúsið bjóði upp á íslenskar baunir sem lúxusbaunir í eðalespresso ;)

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.