Ástin blómstrar á Ítalíu

Loksins tókst mér að gera gamanmynd án þess að dramað tæki yfir, sagði Susanne Bier í gær. Hún kynnti nýjustu kvikmynd sína um Hárlausa hárskerann stuttlega áður en sýningin hófst og nefndi meðal annars að fyrri tilraunir hefðu orðið full dramatískar á köflum. Eða jafnvel al-dramatískar.

Umfjöllunarefnið í Hárlausa hárskeranum er samt alvarlegt. Ida, sú sem titillinn vísar til, er að ljúka krabbameinsmeðferð. Hún hefur tekist vel. Líklega. Í upphafi situr hún hjá lækninum sínum og hann spyr hvort hún vilji ekki íhuga að endurgera brjóstið sem þurfti að taka. „Nei, nei,“ svarar hún, því eiginmaðurinn Leif styður hana og elskar eins og hún er. Hann er ekkert fyrir útlitið. Svo fer hún heim og kemst þá að því að kauði er búinn að halda við ungpíu af skrifstofunni allan tímann sem hún var í meðferðinni.

Heimurinn hrynur og ævintýrið getur hafist.

Hárlausi hárskerinn er mynd um flókin fjölskyldutengsl, um Ítalíu sem er staður ástarinnar að mati danskra leikstjóra, um sorgina sem tekur yfir lífið, um óttann við sjúkdóminn sem hefur einu sinni tekið lífið yfir og gæti gert það aftur. Þetta er líka mynd um vonina sem er sterkasti drifkrafturinn og um mikilvægi þess að setja sér og öðrum mörk því vonarríkt líf og skynsamleg mörk eru lykillinn að hamingjunni, á Ítalíu, í Danmörku og kannski á Íslandi líka.

Ég mæli með Hárlausa hárskeranum sem er mannbætandi mynd. Hún er sýnd í Háskólabíói að kvöldi 1. október og fer svo vonandi í almennar sýningar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.