Vaski, vaski, vaskir menn

dirty/clean dishwasher magnetÍ síðastliðinni viku bilaði uppþvottavél heimilisins. Fyrstu viðbrögð voru sjokk og ógeð sem fylgdi því að þurfa að plokka út fitug og skítug eldhúsáhöld, óþrifin, út úr vélinni, láta renna í vaskinn og handþvo allt draslið. Við höfum búið svo lengi við uppþvottavélarlúxusinn að uppþvottavöðvarnir höfðu slaknað allverulega og atferlið allt framandi.

En viti menn, eftir nokkrar máltíðir fór uppvaskið að venjast og jafnvel að hafa góð áhrif á einstaklinga sem og heimilisandann. Að vaska upp hægir á eldhúslífinu svo um munar og hið hæga líf er eftirsóknarvert. Uppvaskið tengir líka áhöld og notanda og gerir okkur meðvitaðri um það sem við grípum til og notum. Það er ákveðin jarðtenging sem fæst með því að handleika, þvo og þurrka, og setja á sinn stað.

Uppvaskslífið gefur líka möguleika á skemmtilegri samveru. Kallað á eitt barnanna og því fengið viskustykki. Á meðan pabbi eða mamma vaska upp stykki fyrir stykki og barnið þurrkar, er gott að spjalla um daginn, veginn og allt hitt.

Kannski er uppvaskið gullnáma eftir allt, sem er okkur hulin á meðan uppþvottavélarinnar nýtur við?

Mynd: scmtngirl á flickr

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.