Gjálífissvefninn – fjórði Passíusálmur

Baráttan milli þess að halda vöku sinni og fljóta sofandi að feigðarósi er rauður þráður í 4. Passíusálmi. Baksviðið er samtal Jesú við lærisveinana sem fylgdu honum í grasagarðinn nóttina örlagaríku þegar Jesús var handtekinn. Lærisveinarnir komu til að styðja við meistara sinn og tóku m.a. að sér að vaka með honum og biðja. En svefninn náði yfirhöndinni og svo fór að enginn þeirra stóð vaktina með Jesú.

Þessi saga verður Hallgrími að yrkisefni sem hann útleggur inn í samhengi baráttunnar sem á sér stað í mannssálinni milli þess sem göfgar og þess sem leiðir til glötunar. Svefninn verður tákn fyrir sinnuleysi gagnvart því mikilvæga í lífinu. Sinnuleysið tekur á sig ólík form eftir því hvar við erum stödd. Fyrst er það ungdómsbernskan sem rænir okkur gjörhyglinni en þegar aldurinn færist yfir er það gjálífissvefninn, gleymsku- og heimskusvefninn sem tælir frá því sem skiptir máli.

Gegn hinni innbyggðu svefnsýki manneskjunnar teflir Hallgrímur bæninni sem áhrifaríku vopni í baráttunni við andlegan dauða. Þar er Jesús aftur fyrirmynd þeim trúuðu. Bænin er lykill að því sem gefur lífið og veitir styrk í lífsbaráttunni og á dauðastundinni sjálfri. Síðustu þrjú versinn í fjórða Passíusálminum eru þekkt, elskuð og mikið notuð, ekki bara á föstunni heldur árið um kring.

Bænin má aldrei bresta þig.
Búin er freisting ýmislig.
Þá líf og sál er lúð og þjáð,
lykill er hún að drottins náð.

Andvana lík til einskis neytt
er að sjón, heyrn og máli sneytt.
Svo er án bænar sálin snauð,
sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér;
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki, þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.