Gleðidagur 1: Mikilvægasta máltíð ársins

Páskaegg á pönnu.

Við heyrum stundum sagt að morgunmaturinn sé mikilvægasta máltíð dagsins. Hollur og góður matur í morgunsárið er veganesti sem skilar oftar en ekki betri degi. Ætli besti morgunmatur ársins – og þar með mikilvægasta máltíð ársins – sé ekki morgunmaturinn á páskadagsmorgni. Vel heppnaður páskadagsmorgunmatur er sætur og bjartur og vonandi líka svolítið trefjaríkur. Hann lyftir upp af krafti, er í senn innspýting og undirstaða.

Dagur vonarinnar

Páskadagsmorgunn er einn mikilvægasti dagur ársins. Ástæðan er sú að hann er dagur vonarinnar í lífi og samfélagi. Páskarnir standa fyrir trúna og hugrekkið, fyrir málstað Jesú sem rís upp í lífi þeirra sem trúa á hann. Upprisa hans gefur okkur kraft til að vona og elska og feta í fótspor Jesú. Boðskapur hennar er að ef við sýnum við sama hugrekki og hann getum við breytt samfélaginu til betri vegar.

Þessu er fagnað í kirkjum og safnaðarheimilum um allt land. Á síðustu árum hefur sá skemmtilegi siður breiðst út að eftir messu á páskadagsmorgun sest söfnuðurinn niður og á sameiginlega máltíð, eins og til að undirstrika að fastan er liðin og páskarnir komnir.

Gult marmelaði

Morgunmatinn okkar snæddum við eftir morgunmessu í Bessastaðakirkju. Öllum kirkjugestum var boðið í safnaðarheimilið þar sem sjálfboðaliðar höfðu dekkað borð, þeytt rjóma og hrært súkkulaði, lagt brauðbollur í körfur og tekið til smjör og marmelaði, gult að sjálfsögðu af því að páskarnir eru gulir.

Páskadagur er fyrsti gleðidagurinn og þetta er fyrsta gleðidagsbloggið. Framundan eru fimmtíu gleðidagar. Við hlökkum til að eiga þá með ykkur.

Gleðilega páska.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.