Friðarþjóð

Reykjavík – Vikublað spyr í dag:

Verður samfélagið öruggara ef almennir lögregluþjónar bera vopn?

Ein stærsta blekking í vestrænum samfélögum er að byssur geri okkur öruggari. Við sjáum hvernig þessari afstaða er haldið fram undir formerkjum stjórnarskrábundins réttar um frelsi einstaklingsins í Bandaríkjunum með skelfilegum afleiðingum. Fleiri byssur í umferð þýðir ekki aukið öryggi eða færri glæpi.

Ég held að það væri ekki til góðs að almennir lögregluþjónar bæru skotvopn. Allar ákvarðanir um breytingar á þessu fyrirkomulagi hljóta að vera teknar á lögbundinn hátt og undanfari slíkrar ákvarðanartöku þarf að vera samtal í samfélaginu okkar því þetta er ekki einkamál lögreglunnar.
Við Íslendingar viljum vera friðarþjóð og byssuvæðing lögreglunnar styður ekki við það.

Jesús talaði um sitt fólk sem friðflytjendur og hvatti okkur til að vera farvegur friðar. Við þurfum fleiri talsmenn friðar í samfélaginu okkar því við leysum ekki ofbeldisvandann með meira ofbeldi.

Reykjavík – vikublað hefur fengið stóran hóp valinkunnra kvenna og karla til að spá í málefni líðandi stundar með lesendum. Úr verður eins konar Hringborð um málefni líðandi stundar.