Stóra samhengið

Reykjavík – Vikublað spyr í dag:

Eiga vændiskaup að liggja í þagnargildi?

Hér er kannski aðalspurningin sú hvort ástæða sé að víkja í þessum málum frá þeirri meginreglu íslensks réttarfars að réttarhöld séu haldin í heyranda hljóði. Ég held að svo sé ekki. Skömm og sársauki eru óhjákvæmilegir fylgifiskur þess að vera opinberlega til umfjöllunar, eins og gerist í réttarhöldum og þar líða ekki bara hinir seku. En stóra samhengið snýr að ofbeldinu sem felst í vændiskaupunum og þar megum við ekki rugla saman hver hin raunverulegu fórnarlömb eru.

Munum líka að samhengi þessa máls er mansal og frelsissvipting sem því fylgir. Hér er því um dauðans alvöru að ræða og mikilvægt að taka með þunga og alvöru á brotum sem stuðla að ánauð og frelsisskerðingu kvenna sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Ef lokuð réttarhöld yfir meintum vændiskaupendum hindra baráttuna gegn mansali og kynbundnu ofbeldi eru þau ekki af hinu góða.

Reykjavík – vikublað hefur fengið stóran hóp valinkunnra kvenna og karla til að spá í málefni líðandi stundar með lesendum. Úr verður eins konar Hringborð um málefni líðandi stundar.