Rammpólitísk kirkja I

Herdís Þorgeirsdóttir skoraði á kirkjuna í ræðu á aðventukvöldi í Áskirkju fyrr í mánuðinum. Hún sagði meðal annars:

Ég vona að kirkjan hiki ekki heldur stígi fram og umvefji það samfélag sem hún vill þjóna, sameini sína rödd þeirra sem enga hafa. Kærleikur og réttlæti eiga að ráða för en ekki bókstafur og blind lagahyggja.

Hún kallar eftir pólitískari kirkju sem tekur skýrari afstöðu í pólitískari málum. Í því samhengi horfir Herdís meðal annars til Frans páfa í Róm sem hefur talað með skýrri röddu þegar kemur að ýmsum réttlætismálum.

Þetta er ekki nýtt kall. Fyrir ári síðan fjallaði sr. Sigurvin Lárus Jónsson um pólitíska kirkju í prédikun. Þar sagði hann:

[Í] mínum huga er óhugsandi að vera ópólitískur prestur, þar sem boðskapur Jesú frá Nasaret er hápólitískur. Jesús krefur okkur um réttlátt samfélag og setur í öndvegi alla þá sem standa höllum fæti í samfélagi manna; sjúka, synduga, útlendinga, fátæka, hvern þann sem handhafar hins veraldlega valds telja utangarðs eða beita valdi.

Kannski má orða þetta þannig að kirkjan hljóti að vera pólítísk því hún fylgir Jesú sem lét sig varða um manneskjuna, aðstæður hennar og kjör. Það þýðir þó ekki að hún þurfi að vera flokkspólitísk.

Á næstu dögum ætlum við að rýna aðeins í þetta og skoða dæmi um mál sem kirkjunnar þjónar hafa rætt í prédikunum sínum.

Fylgist með.