Einhverju kannski stolið, skömmum kirkjuna

Sigurvin Lárus Jónsson og Sunna Dóra Möller á Vísi:

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur viðurkennir að „helsta röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember er mánaðarnafnið” (1993:321), sem og sú staðreynd að fæðingarhátíð frelsarans tók á sig heitið jól á norðurlöndum.

Hvað vitum við annars um heiðin jól í desember? Sigurvin Lárus og Sunna Dóra bæta við:

Hverjar sem orðsifjar hugtaksins eru til forna er ljóst að heimildir okkar um forn-heiðna jólahátíð eru næsta engar. Við vitum ekki hvort slík hátíð var útbreidd, hvenær hún var haldin eða hvert inntak hennar var. Það sem við vitum er að orðsifjar hugtaksins jól tengjast fornu tímatali á norðurslóðum.

Það er semsagt ekki vitað hverju var stolið því hátíðin er ekki þekkt. En orðið er þekkt. Snýst þessi kristni-sem-stal-jólunum kannski bara um orðið „jól“ en ekki hátíðina sem slíka?

Er það ekki áhugavert í ljósi þess að kristnir menn á Íslandi hafa haldið jól á sama tíma og kristnir menn í útlöndum. Ekki nota útlendingarnir orðið jól um sína hátíð. Eru okkar jól þá stolin en þeirra ekki?

Sigurvin og Sunna komast að þessari niðurstöðu:

Fullyrðingar þess efnis að kristnir menn hafi stolið jólunum úr heiðnum sið eru áróður en ekki staðreyndir, eins og ítrekað er staðhæft í umræðunni.

Sammála.

Að lokum þetta: Ef einhverjum finnst úr lausu lofti gripið að segja að jólin séu kristin hátíð gildir það ekki síður um þá fullyrðingu að þau séu heiðin hátíð. Þegar upp er staðið eru jólin hátíð sem bera með sér þá merkingu sem við hvert og eitt leggjum í hana út frá lífi okkar og reynslu. Líf okkar, saga og reynsla er ólík, virðum það og eigum gleðileg jól.