Hvíldardagur

Morgunbæn á Rás 1, sunnudaginn 18. janúar.

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að nóttin hafi verið þér góð.

Í dag er sunnudagur. Hvíldardagur.

Stundum er svo mikill ys og þys í kringum okkur. Og það getur verið krefjandi að lifa í heimi sem er fullur af snjalltækjum og samskiptamiðlum. Þá er gott að taka frá tíma til að aftengjast.

Við getum slökkt á öllum tækjunum sem senda okkur skilaboð í sífellu: á farsíma og tölvu, sjónvarpi og útvarpi. Við getum aftengt sítenginguna við netið sem er afsakaplega gagnlegt af því að hún tengir okkur við þau sem skipta okkur máli, en má líka alveg við því að detta út endrum og sinnum. Til dæmis á hvíldardeginum. Í dag.

Mig langar að lesa fyrir þig úr guðspjalli þessa sunnudags:

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“
Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Lúk 19.1-10

Sagan um Sakkeus tollheimtumann minnir okkur á að Guð vitjar okkar allra. Hún minnir okkur líka á gildi þess að taka frá tíma til að vera með fólki – þegar tækifærin gefast. Í dag óska ég þér hvíldar og næðis og endurnæringar.

Við skulum biðja saman:

Guð minn, viltu koma til mín og gefa mér skjól.
Hjá þér fæ ég að vera barn, sem er borið hverja stund.
Hugsanirnar hljóðna og hjartað finnur hvíld.
Amen.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.