Friður sé með þér

Morgunbæn á Rás 1, þriðjudaginn 20. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið þér endurnærandi og góður.

Einn fallegasti hluti messunnar í kirkjunni er það sem við köllum friðarkveðju. Þá snýr presturinn sér að söfnuðinum og segir eða syngur: Friður Drottins sé með yður Söfnuðurinn svarar síðan kveðjunni. Það er misjafnt hvað fylgir á eftir. Stundum heldur messan áfram. Þá stendur friðarkveðjan eins og sér sem örlítil áminning um að við eigum að vera friðarfólk.

Stundum er gert einskonar friðarhlé á messunni og friðarkveðjan er látin ganga út um alla kirkjuna. Þá snýr hver kirkjugestur sér að þeim sem eru næst honum eða henni, réttir út höndina og segir: „Friður sé með þér.“ Einu sinni fylgdi meira að segja friðarkoss þessari kveðju. Að sjálfsögðu á kinnina. Þegar friðarkveðjan berst svona út um kirkjuna með handabandinu breiðist friðurinn líka yfir fólkið sem þar er statt.

Í Lúkasarguðspjalli segir frá því þegar Jesús sendi lærisveina sína af stað. Þetta voru skilaboðin sem þeir fengu í veganesti:

„Farið! Ég sendi yður eins og lömb meðal úlfa. Hafið ekki pyngju, ekki mal eða skó og heilsið engum á leiðinni. Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: Friður sé með húsi þessu. Og sé þar nokkurt friðarins barn mun friður yðar hvíla yfir því, ella hverfa aftur til yðar.

Jesús sendi lærisveina sína með friðarkveðju og í dag vil ég óska þér friðar, í huga og hjarta og líkama.

Biðjum:

Góði Guð, þú sendir okkur friðarkveðju og kallar okkur til að vera boðberar friðarins þíns í heiminum. Viltu gefa að við megum upplifa þennan frið í dag, innra með okkur og að þaðan megum við breiða hann út til allra sem þurfa á friði að halda, vegna ófriðar hið innra eða hið ytra.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.