Biblíublogg 22: Mannakorn

Á mörgum heimilum eru til box með svokölluðum mannakornum. Í þeim eru pappaspjöld með stuttum ritningarversum sem hægt er að draga. Stundum leynast þar skilaboð sem hafa merkingu fyrir okkur hér og nú. Það er hægt að draga sér mannakorn á vef Hins íslenska Biblíufélags. Þar drógum við þetta mannakorn í dag:

Biðjið, leitið Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. (Matt. 7.7-8)

Orðið mannakorn vísar til 2. Mósebókar þar sem segir:

Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. 15Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. […] Ísraelsmenn nefndu þetta manna. Það var hvítt eins og kóríanderfræ og eins og hunangskaka á bragðið. (2Mós. 16)

Þannig eru mannakornin líka hugsuð, sem andleg næring í dagsins önn.