Við byggjum brýr

Kristín Þórunn og Kristinn meðhjálpari í Hátúni

Við vorum mörg sem sátum við skjáinn í gærkvöldi þegar söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna stóð yfir. Opinber yfirskrift Júróvisjón í ár, sem lauk í gær með sigri Måns frá Svíþjóð, er “Building bridges” eða við byggjum brýr. Í keppninni var unnið með þetta þema á margvíslegan hátt, í grafík og tónlist en ekki síst í  uppfrifjunum á því að í ár eru 70 ár síðan heimsstyrjöldinni miklu lauk en þau tímamót skipta vitanlega miklu máli í Evrópu og í mörgum þeim löndum sem taka þátt í söngvakeppninni.

Brúarsmíði talar líka sterkt til okkar á Íslandi og við skiljum mikilvægi þess að geta brúað ár, firði og sanda, sem skilja að byggðir og samfélög. Það er ekki lengra síðan en árið 1974 að síðasta stóra brúin sem tengdi vegakerfið okkar í eina heild var tekin í notkun og hringvegurinn varð til.

Brúarsmíði er líka orð dagsins, á hvítasunnunni, hátíð heilags anda. Við segjum stundum að á hvítasunnunni hafi kirkjan orðið til, að hvítasunnan sé afmælisdagur kirkju Krists. Kannski er réttara að segja að afmælisdagur kirkjunnar sé dagurinn sem Jesús Kristur fæddist – eða dagurinn sem Jesús reis upp frá dauðum og vinir hans söfnuðust saman í ljósi upprisunnar. Kannski er ennþá réttara að segja að það sé í raun ekki hægt að tala um neinn einn afmælisdag kirkjunnar – því hún er alltaf að verða til, þar sem Jesús er og safnar fólki í kringum sig, í nafni Guðs, til að sætta fólk og til að byggja nýtt samfélag.

En á hvítasunnunni gerðist eitthvað sem var alveg nýtt og mjög mikilvægt í lífi kirkjunnar og þeirra sem trúðu á Jesú. Eins og við lesum í frásögn postulasögunnar af atburðum hvítasunnunnar, uppgötva vinir Jesú að þau geta talað við og náð til alls konar fólks sem þeim hafði aldrei dottið í hug að þau ættu eftir að tala við. Í gegnum gjafir tungumálsins er þeim kleift að tala við og ná til þessa stóra skara pílagríma sem eru saman komnir í Jerúsalem frá öllum heimsins hornum. Þau uppgötva að þau geta byggt brýr til ókunnugra.

Þannig að þótt kirkjan sé þannig séð þegar til á hvítasunnunni, í gegnum þau sem hafa fylgt Jesú og svarað kalli hans um að elska náungann, þá er það á þessari stundu sem vinir Jesú og hinir fyrstu kristnu uppgötva að það sem þau hafa að segja um Jesú, reynslan þeirra af því að hafa gengið með honum og átt samfélag við hann, geta þau miðlað til allra, sama hvaðan þau koma, sama hvaða menningarbakgrunn þau hafa, sama hvaða tungumál þau tala.

Á hvítasunnunni sjáum við boð Jesú í lok Matteusarguðspjalls, um að lærisveinarnir skyldu fara út um allan heim og kenna það sem Jesús bauð þeim, verða að veruleika. Farið út um allan heim, sagði Jesús og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þau í nafni föður sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.

Á hvítasunnunni er kristinni kirkju og þeim sem safnast saman í kringum Jesú, gefinn heilagur andi, til þess að byggja brýr til þeirra sem þau þekkja ekki. Það minnir okkur á að alltaf þegar við hugsum um heilagan anda í kirkjunni, hugsum við um hvernig Guð tengist fólki og tengir fólk. Það er heilagur andi sem tengir okkur við Jesú, og í gegnum Jesú tengjumst við Guði föður okkar á himnum.

Það er heilagur andi sem skapar samfélag og samband á milli þeirra sem trúa á Jesú og gerir þau eitt. Það er heilagur andi sem gefur okkur orðin sem við berum fram fyrir Guð í bæn, eins og postulinn Páll segir okkur, og í postulasögunni er heilagur andi aflið sem byggir brýr til þeirra sem við þekkjum ekki, aflið sem gerir okkur kleift að eiga merkingarbær, mikilvæg og árangursrík samskipti og samtal um góðu fréttirnar, um fagnaðarerindið sem er reynsla okkar af Jesú, jafnvel  við þau sem við þekkjum ekki, jafnvel inn í umhverfi og samhengi sem okkur er framandi.

Á meðan svo margt í heiminum ýtir okkur út í að hugsa um það sem skilur okkur að og dregur úr okkur kjarkinn að deila því sem skiptir okkur máli, tala um það hver við erum, blæs hvítasunnan og heilagur andi okkur í brjóst trú, von og kærleika, til að vera frjáls og elska, launa illt með góðu og láta gott af okkur leiða í öllum aðstæðum sem mæta okkur. Verum opin fyrir þessum gjöfum andans sem standa okkur öllum til boða, á hvítasunnudeginum til forna og alla dag.

Dýrð sé guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Kristín flutti þessa prédikun á Hvítasunnudegi, 24. maí 2015, í Sóltúni og Hátúni.