Gróðursett í landinu

Kristín Þórunn prédikar í rósagarðinum í Laugardalnum

Að vera Íslendingur

Það á sér stað – og hefur lengi átt sér stað – mjög frjó og skemmtileg umræða um hvað það er að vera Íslendingur, í hverju íslensk menning felist og hver séu hin íslensku gildi. Á 17. júní kemur þessi umræða sérstaklega í hugann. Þá kalla á okkur spurningar um tengsl sögunnar við okkur sem lifum í dag, um áhrif þess sem gengnar kynslóðir áorkuðu og upplifðu á okkur, um hugmyndir sem hrifu og hreyfðu við fólki sem lifði í landinu okkar á öðrum tímum, við aðrar aðstæður.

17. júní er lýðveldisdagurinn, valinn af því að hann er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar, sem var talsmaður sjálfstæðis og sjálfræðis sinnar litlu og smáu þjóðar. Hann talaði máli Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar og hans er ekki síst minnst fyrir að hafa spyrnt við fótum og mótmælt þegar átti að koma því þannig fyrir að meiriháttar ákvarðanir um Ísland gætu átt sér stað án aðkomu Íslendingra sjálfra.

Nafn Jóns Sigurðssonar og arfleifð hans er því nokkuð tengd mótmælum. Mótmæli spretta ekki upp úr tómarúmi, þau eru ekki það sama og að vera með leiðindi og vesen. Mótmæli spretta upp úr jarðvegi sem ræktar hluti sem fólki finnst vera þess virði að berjast fyrir, sem gefur fólki sjálfsmynd sem fylgir því og mótar gildi og verðmætamat.

Mótmælt á Austurvelli

Akkúrat núna er verið að mótmæla á Austurvelli. Sumum finnst það ekki vera réttur tími eða réttur staður, vegna þess að það geri lítið úr því sem við höldum á lofti á 17. júní. Ég er ekki viss um að það sé svo. Kannski blæs 17. júní, fæðingardagur þjóðarhetjunnar Jóns Sigurðssonar, sem mótmælti svo sannarlega og blés anda kjarks og vonar í brjóst fólks. Kannski vekur 17. júní trú á að sannfæring okkrar sjálfra, skilningur og dómgreind, sé þess virði að halda á lofti. Þá eru mótmæli leið til að koma til skila og tjá eigin trú á hvað það er sem gerir samfélagið okkar betra og hvar pottur sé brotinn.

Ég trúi því að þau sem mótmæla geri það af því að réttlætiskennd þeirra bjóði þeim að láta í sér heyra. Að þau taki undir með Jóni Sigurðssyni sem vildi að heildarhagsmunir þjóðar væru heiðraðir í ákvörðunum og valdboðum. Við hljótum að spyrja hvernig þessir heildarhagsmunir líta út í dag – þegar kemur að nýtingu náttúrunnar, ráðstöfun sameiginlegra auðlinda og forgangsröðun samfélagsins.

Á 17. júní erum við minnt á söguna og við rifjum upp hugmyndir og líf þeirra sem gengu á undan okkur, þeirra sem eiga svo stóran hlut í því sem við köllum að vera Íslendingar. Við orðum þessa sögu og mátum hana við aðstæður okkar í dag. Við spyrjum, hverjar voru hugmyndir þeirra sem sköpuðu samfélagið okkar sem við búum við í dag, um hið góða líf, um jafnan rétt til gæða og gjafa hafs og jarðar, um lýðræði, um virðingu og helgi mannlegs lífs?

Hrútar og það sem vekur von

Margir hafa séð kvikmyndina Hrúta sem óhætt er að segja að fari sigurför um heiminn einmitt núna. Hrútar miðla til okkar ýmsu sem við þekkjum þegar við veltum fyrir okkur því hvað það er að vera Íslendingur. Það er sveitaumhverfið og bændasamfélagið sem við vorum flest eða öll hluti af fyrir örfáum kynslóðum. Það er samfélag sem byggir á jafnvægi og gagnkvæmni lands og manneskju, dýra og manna. Hún notar mynd- og hljóðmál sem kveikir og hreyfir okkur til eigin minninga, um hvernig tengsl við foreldra og nánasta samferðafólk mótar, meiðir og reisir upp. Hún tekur okkur í ferðalag sem spannar tilfinningaróf syndar og sáttar, ofbeldis og kærleika, fjarlægðar og hlýju.

Er þetta þjóðlegt eða mannlegt? Eru ekki íslensku gildin og gæðin þau sömu og hreyfa við hjörtum mannanna hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu? Og eru það ekki sömu hlutirnir sem hrífa okkur, vekja von og trú, í dag og fyrir 204 árum þegar Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð?

Land sem gefur líf

Fyrirheitið í orði dagsins, úr spádómsbók Jeremía, fjallar meðal annars um tengsl fólksins við landið sitt. Þar mælir spámaðurinn fyrir munn Drottins og segir:

Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð…Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.

Hér er tengslum fólksins við landið sitt lýst með orðfæri gróðurs og jarðvegs. Við erum gróðursett í landinu okkar. Það þýðir að við nærumst af því, við lifum á því, við erum því háð. Rætur okkar liggja bókstaflega í landinu, af auðæfum þess þiggjum við lífsafkomu okkar, af sögu þess þiggjum við sjálfsmynd okkar. Við löskumst af áföllum þess og ágangur og rányrkja landsins kemur niður á okkur og lífsgæðum barna okkar.

Myndin sem Jeremía dregur upp um fólkið sem er gróðursett í landinu minnir okkur líka á hvað afkoma okkar er nátengd jörðinni sjálfri og samferðafólki okkar. Samhengi alls sem lifir er staðreynd. Þegar jarðvegurinn mengast, sýkist það sem grær í honum. Sjúkt land getur ekki gefið af sér líf sem dafnar, rétt eins og riðan í kvikmyndinni Hrútum leggur sauðféð í Bárðardal – og þar með mannlífið – í rúst.

„Ég gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti“ segir í orðinu. Hér erum við, leitandi og spyrjandi að því hvað sé landinu okkar til heilla og mannlífinu til blessunar. Sumu er ekki hægt að breyta – eins og t.d. veðrinu, sem hefur sinn gang og spyr ekki um útihátíðir eða sumarfrí. Þar þurfum við æðruleysi til að sætta okkur hið óbreytanlega. Sumu er hægt að breyta – þar þurfum við kjark til að takast á við viðhorf og hefðir sem mismuna og sundra.

Svo er það nítjándinn

Eftir aðeins tvo daga höldum við aðra hátíð vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Í aðdraganda hennar höfum við heyrt upprifjun á ýmsu sem varð á vegi þeirra sem börðust fyrir jöfnun rétti kynja og stétta. Því var breytt og kosningaréttur og tjáningarfrelsi er síðan órjúfanlegur þáttur af sýn okkar á mannréttindi allra á Íslandi.

Á 17. júní rifjum við upp söguna og spyrjum, hverju þarf að breyta svo að landið sem Guð hefur gróðursett okkur í, hlúi að öllum kynjum og stéttum og gefi öllum af gæðum sínum. Látum það vera brýninguna til okkar sem hér erum komin saman, Guði til dýrðar og hvert öðru til blessunar. Amen.

Kristín flutti þessa prédikun í messu í Rósagarðinum í Laugardalnum, 17. júní 2015.