Það er ekki of seint

Frans páfi

Lestin

Við byrjum í lestarferð.

Ung blaðakona er stödd í lestinni sem er á leið milli tveggja borga í Bandaríkjunum. Hún heyrir útundan sér símtal manns sem er háttsettur hjá Umhverfisstofnun ríkisins. Hann tjáir sig óvarlega. Blaðakonan gengur svo á hann, kynnir sig og segist hafa heyrt í honum. Af því að hann hafi verið að tala í lestinni – sem er opinber staður – njóti hann engrar friðhelgi. Þarna hefur semsagt átt sér stað leki úr Umhverfisstofnuninni. Á mikilvægum upplýsingum.

Þetta atriði kemur fyrir í sjónvarpsþáttunum Newsroom sem voru sýndir fyrir nokkrum árum í Bandaríkjunum. Framhaldið er ekki síður áhugavert. Blaðakonan unga er með pálmann í höndunum og getur sagt krassandi frétt en hún vill ekki stilla manninum upp við vegg. Þau semja: Hann lætur hana fá skýrslu á undan öðrum fjölmiðlum og samþykkir svo að koma í viðtal út af henni.

Viðtalið fer síðan á annan veg en við er að búast. Umfjöllunarefnið er plánetan okkar og hnattræn hlýnun – sem sumir virðulegir menn vestanhafs ræða undir sömu formerkjum og efnahagshrunið á Íslandi: Meint hnattræn hlýnun. Sem er hún er ekki.

Nema hvað, í viðtalinu er spurt sömu spurninga og alla jafna er spurt í svona viðtölum: hvernig er staðan? Hverju þarf að breyta til að snúa hlýnunarferlinu við? Hverjar verða afleiðingarnar ef við snúum þessu ekki við. Og viðmælandinn – sérfræðingur á þessu sviði svarar: Staðan er ómöguleg. Það er ekkert hægt að breyta þessu. Þessu verður ekki snúið við. Það er of seint. Við horfum fram á hörmungar.

Frans sendir bréf

Það var greint frá öðrum leka í fjölmiðlum í vikunni. Úr sjálfu Vatikaninu. Nýjasta páfabréfið sem hefur yfirskriftina Lof sé – Laudato si. Það hefst á bæn eftir dýrlinginn Frans frá Assisi:

„Lof sé þér Drottinn minn, fyrir systur okkar, Móður Jörð, sem nærir okkur og viðheldur og sem gefur margvíslega ávexti, lituð blóm og jurtir.“

Frans sem var ítalskur munkur og lifði á Ítalíu á 13. öld er meðal annars þekktur fyrir hófsemi og virðingu fyrir dýrum og umhverfi en ekki bara manneskjunni.

Bréf nafna hans sem situr á páfastóli fjallar um umhverfismál og það kannski var eins gott að það lak því það þurfti að milda höggið sem því fylgir. Umfjöllunarefnið er svolítið franslegt: umhverfið, nægjusemin.
Undirliggjandi og þó ekkert svo mikið undir heldur á yfirborði er kerfisgagnrýni á það hvernig við umgöngumst jörðina. Meginatriðin í bréfinu má draga svona saman:

  1. Loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Þetta er ekki að batna, það er að versna. Páfinn segir að í þeim felist ein mesta áskorun mannkyns á okkar tímum og við stöndum frammi fyrir áður óþekktum breytingum á vistkerfum sem hafa verulegar afleiðingar fyrir okkur öll.
  2. Mannfólkið ber höfuðábyrgð á loftslagsbreytingum.
  3. Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á hin fátæku í heiminum – hlutfallslega meiri en á aðra.
  4. Við getum og verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að bæta úr þessu.
  5. Einstaklingar geta lagt sitt af mörkum en stjórnmálamenn verða að leiða þessa vinnu.

Enski presturinn Giles Fraser lagði út af páfabréfinu í pistli í dagblaðinu Guardian í gær þar sem hann sagði Frans páfa líkjast baráttukonunni Naomi Klein – í hempu. Fraser segir þar meðal annars: Manneskjan er í grundvallaratriðum eins og stórt barn, knúin áfram af löngunum sínum: ég ég ég, vil vil vil. Kapítalískt hagkerfi reynir að uppfylla þessar langanir alveg óháð því hverjar þær eru.

Hann bætir við að kapítalisminn sé öflugt kerfi til að mæta eða koma til móts við það sem fólk vill – til að uppfylla langanir – en að hann geri engan greinarmun á því sem manneskjur vilja og því sem þær þurfa. Afleiðingarnar séu skelfilegar fyrir plánetuna okkar og fyrir hamingju eða velferð einstaklinganna.

Týndir synir, týndar dætur

Söguna um týnda soninn sem við lesum í kirkjunni í dag má heimfæra á þetta. Sonurinn sem fór að heiman er stóra barnið – sem heimtar peninga, fer út í heim, lifir lífinu óháð öðrum og endar í svaðinu. Hófsami bróðirinn varð eftir heima. Faðirinn fagnar þegar týndi sonurinn kemur aftur heim og tekur hann að sér.

En það er hinsvegar ekki í boði að lifa áfram hinu ýkta lífi sóunarinnar. Það er í boði að lifa í samfélagi og yrkja jörðina. Lifa í nægjusemi. Þótt það sé haldin veisla endrum og sinnum þá er lífið semsagt ekki veisla 24 tíma á sólarhring, 7 daga vikunnar. Frans páfi er því kannski að kalla á týnda syni og dætur þessa heims. Hættið að sóa, gerið greinarmun á þörfum og löngunum, komið heim.

Um leið er hann að kalla eftir því að við sjáum okkur öll sem hluta af heild. Skiljum að náunginn er ekki bara sá sem býr undir sama þaki og við og ekki bara sá sem býr í sömu borg eða sama landi eða sömu heimsálfu og við heldur allir sem við getum haft áhrif á með höndunum okkar, huganum og hjartanu – og þar liggur allur heimurinn undir.

„Auðvitað getum við breytt heiminum“

Þess vegna er svo gott að við höfum í þessari messu með okkur góðan kór frá systurþjóðinni í austri, frá dómkirkjunni í Niðarósi sem var einu sinni ein af okkar dómkirkjum. Við erum þakklát fyrir þá nærveru hér og líka fyrir tónlistina sem er hið sammannlega tungumál. Mér finnst líka sérlega dýrmætt að hafa ykkur hér því frá Noregi höfum við fengið ungliðahreyfinguna Changemaker sem vinnur eftir slagorðinu: Auðvitað getum við breytt heiminum og hefur kennt okkur að við erum hendur Guðs til góðra verka í heiminum.

Forsvarsmaður umhverfisstofnunarinnar í Newsroom var ómyrkur í máli og hann var líka vonlaus. Frans páfi er ómyrkur í máli en hann á von. Hún byggir á skýrri sýn á vandamálin og kallar á samstöðu við lausn þeirra. Hún krefst kerfisbreytingar. Ég held við eigum að fylgja honum að máli í þessum efnum.

Við ætlum að bjarga þessari plánetu.
Við ætlum að bjarga þessu fólki.
Það er ekki of seint.
Við ætlum að gera það saman.

Ertu með?

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn.
Dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást.
Dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

Flutt í Langholtskirkju, á þriðja sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 21. júní 2015.