Barnatrú og mannþjónusta

Skírnarfontur í Hóladómkirkju.

Í Fræðunum minni fjallar Marteinn Lúther um grundvallaratriði kristinnar trúar og leggur meðal annars út af Faðirvorinu, postullegu trúarjátningunni og boðorðunum tíu. Þetta hefur stundum verið kallað kjarninn í íslenskri barnatrú. Lúther byrjar Fræðin á umfjöllun um Boðorðin. Þar vekur athygli að í meðförum hans verður boðorðið þú skalt ekki að jákvæðri þú skalt-yrðingu:

  • Þú skalt hjálpa náunga þínum að varðveita eigur sínar.
  • Þú skalt hjálpa náunga þínum að hlúa að hjónabandi sínu.
  • Þú skalt hjálpa náunga þínum að lifa vel.

Verslunarmannahelgin er að þessu sinni á milli tveggja mannréttindahelga hér á Íslandi: fyrir viku síðan var haldin Drusluganga í Reykjavík. Athyglin beindist að mannhelgi, mörkunum milli fólks og virðingu fyrir konum. Eftir viku verða mannréttindi hinsegin fólks í brennidepli í Gleðigöngu á Hinsegin dögum.

Mannréttindi og -skyldur

Mannréttindi er orð sem heyrist víða og mannréttindabarátta er fyrirferðarmikil í samfélaginu okkar. En við ræðum sjaldnar um hina hliðina á því: Skyldurnar sem fylgja réttindum.

Hvað gerist ef við nálgumst mannréttindi eins og Lúther nálgaðist boðorðin? Þá horfum við ekki lengur á lágmarks réttindi annarra heldur hámarks skyldur okkar. Tökum dæmi:

  • Fólk á ekki bara rétt til að tjá sig (tjáningarfrelsið). Það er skylda okkar að tryggja að þau geti það.
  • Börn eiga ekki bara rétt á góðu atlæti, uppeldi, öryggi (réttindi barna). Það er skylda okkar að tryggja að svo sé.

Mannréttindin standa vörð um ákveðinn grundvöll. Þau slá ramma kringum manneskjuna. Skyldurnar lúta aftur á móti að því hvernig við hugsum til og aðhöfumst í þágu annarra, náungans, lífsins og sköpunar Guðs.

Kannski er það þetta sem Páll á við þegar hann talar um að berjast góðu baráttunni í pistli dagsins. Og nota bene ekki aðeins að við berjumst fyrir mannréttindum – sem er gott og blessað út af fyrir sig – heldur að við göngum lengra.

Barnatrúin og mannþjónustan

Kjarni kristinnar trúar – líka barnatrúarinnar – er að nálgast náungann og þjóna honum í kærleika. Þegar það er gert þá hætta skyldurnar kannski að vera skyldur og verða að innblásinn löngun til að sinna þeim sem þarf að sinna, af einlægum vilja til vinna verkin.

Sem kristnar manneskjur erum við kölluð til láta okkur ekki aðeins varða grundvallar- eða lágmarks- mannréttindi heldur til að grípa hvert tækifæri til að sinna um og hlúa að lífinu þannig að sérhver einstaklingur megi og geti lifað lífi sínu í fullri gnægð.

Við getum kallað það mannþjónustu sem birtist í manngæsku. Það er að vera kristin manneskja.

Það er okkar barna- og fullorðinstrú.

Flutt í guðsþjónustu í Hóladómkirkju, sunnudaginn 2. ágúst 2015.