Er það pólitískur rétttrúnaður að mæta fólki af virðingu?

Róðukross

Í vikunni las ég um ungan mann sem skrifaði lítið forrit og tengdi það við vafrann í tölvunni sinni. Forritið gerir aðeins eitt: Þegar textinn „political correctness“ kemur fyrir á vefsíðu breytir það honum í „treating people with respect“. „Pólitískur rétttrúnaður“ verður „að mæta fólki með virðingu.“

Um pólitískan rétttrúnað sagði á Wikipediu laugardagsmorguninn 8. ágúst í texta sem er reyndar ekki allskostar hlutlaus:

„Gjarnan er talað um pólitískan rétttrúnað í tengslum við tungutak um minnihlutahópa og átt við ofurvarfærni gagnvart niðrandi orðfæri, svo sem um kynþætti, konur, meðlimi trúarhópa, fatlaða, samkynhneigða og svo framvegis. Þó á hugtakið ekki aðeins við um tungutak heldur einnig gjörðir, pólitísk stefnumál, hugmyndafræði og hegðun, alla afvegaleidda viðleitni til að lágmarka móðganir og mismunun gagnvart hópum sem eiga undir högg að sækja.“

Það er ótrúlegt hvað þessi litla breyting hefur mikil áhrif. Með því að taka hlaðið tungutak úr umferð og setja í staðinn lýsingu á því sem reynt er að ná fram: að mæta fólki af virðingu er nefnilega hægt að afhjúpa ofbeldið í samfélaginu og þannig berjast gegn því. Orð hafa nefnilega áhrif.

Eva Hauksdóttir, sem er skarpur pistlahöfundur, skrifar á einum stað:

„Málflutning skal gagnrýna með rökum. Merkimiðar eru ekki rök; þeir sem telja andmælendur sína á valdi pólitískrar rétthugsunar ættu þessvegna að útskýra hvað nákvæmlega er gagnrýnivert við skoðanir þeirra.“

Hér hittir hún naglann á höfuðið. Merkimiðar geta vissulega verið gagnlegir til að flokka og skilja, en þegar þeir eru notaðir til að meiða – eins og stundum og jafnvel oft er raunin með merkimiðann „pólitískan rétttrúnað“ þá eru þeir skaðlegir. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að við megum ekki ræða um skoðanir og afstöðu. Það þýðir hins vegar að við eigum að eiga í samtali án þess að hafa þann ásetning að meiða aðra.

Virðing fyrir manneskjunni er nefnilega ekki til umræðu, um hana verður ekki samið. Hún er grundvallaratriði og forsenda.

Jesús er reiður

Jesús er reiður í guðspjalli dagsins. Hann ávítar. Hann er ekki alltaf glaður – frekar en við.

„Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.“

Þetta er öðrum þræði lýsing á vonbrigðum þess sem hefur ekki náð markmiði sínu. Jesús kom og prédikaði og fólkið hlustaði, hann gerði kraftaverk og fólkið horfði. En þau breyttu ekki hátterni sínu. Kannski af því að þau skildu ekki. Kannski af því að breytingar taka tíma og hann var ekki nógu lengi á staðnum. Við vitum það ekki.

En hverju vildi hann breyta?

Mörgu.

Eitt af því var hvernig við lítum á og nálgumst annað fólk.

Hvernig?

  • Hann umgekkst þau sem samfélagið úthýsti,
  • hann vildi að samfélagsreglurnar væru í þágu manneskjunnar – svo hann læknaði á hvíldardegi,
  • hann bar virðingu fyrir hverri manneskju sem hluta af sköpun Guðs.
    hann elskaði. Alla.
  • hann bað fyrir öðrum – líka þeim sem ofsóttu hann.

Hann. Bar. Virðingu.

Virðingin

Það eru ekki allar breytingar jafn einfaldar og sú að setja upp forrit sem skiptir út merkimiða fyrir innihald. Breytir pólitískum rétttrúnaði í virðingu fyrir manneskjunni. Það er í sjálfu sér einfalt og tekur skamma stund – en getur auðvitað haft áhrif. Því orð hafa áhrif.

Hitt tekur lengri tíma: að hætta að setja fólk niður og mæta þeim af virðingu. Og það gildir nota bene ekki bara um vini okkar eða nágranna heldur líka þau sem við skiljum sem öðruvísi eða sjáum jafnvel sem andstæðinga.

Það er hin kristna afstaða.
Að því vinnum við.
Ekki síst um helgar eins og þessa þegar við stöndum með þeim sem hafa verið ofsótt um aldir.

Og þegar það tekst segjum við ekki „vei og skamm“ heldur „vei og jibbí jei“.
Það er boðskapur dagsins.

Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.