Ósíuð aðventa 5: Þú skiptir máli

Heiðbjört Anna speglar sig í jólakúlu

Jólin snúast um fólk. Sögur jólanna og þemu snúast um mannlega reynslu og áskoranir. Um það hvernig við rísum undir þeim verkefnum sem lífið leggur okkur á herðar.

Jólin eiga snertiflöt við trúna gegnum sögur ritningarinnar og það hvernig þær hafa verið túlkaðar og tjáðar í gegnum aldirnar. Inntak Biblíunnar, líka í jólasögunni, er hvernig manneskjan sér sig sjálfa, og hvernig hún gefur reynslu sinni merkingu.

Fólkið í textum Biblíunnar var eins og ég og þú. Það lifði lífi sem var fullt af áföllum, ótta, ranglæti en líka ást, gleði og eftirvæntingu. Textar Biblíunnar miðla til okkar í gegnum tímann hvernig þetta fólk tókst á við lífsreynsluna og leyfði henni að móta sig.

Jólin snúast um þig og þína reynslu. Aðventan er tíminn sem við notum til að undirbúa jólin. Þess vegna felst í henni tilboð um að horfast í augu við lífið án þess að detta í fordóma um okkur sjálf og hvernig við eigum að vera. Notum aðventuna til þess að elska okkur sjálf, en ekki dæma okkur endalaust fyrir að vera ekki nógu góð, dugleg, falleg, skilningsrík, elskandi.

Látum aðventuna snúast um kærleika en ekki kitsch, samhjálp en ekki samkeppni, innihald en ekki umbúðir. Þetta eru góð íhugunarefni á meðan við bíðum eftir því að komast á áfangastað og allt er snjóað í kaf.

#ósíuðaðventa