Ósíuð aðventa 23: Skatan

Skata á borðum

Dagur skötunnar og fyrsti í fjölskylduboðum er runninn upp. Við höfum það fyrir sið að bjóða fjölskyldunni í skötu á Þorláksmessu og eigum saman dásamlega stund sem færir okkur nær jólahátíðinni.

Hér á bæ er boðið upp á vel kæsta skötu, tindabykkju, soðnar kartöflur, hamsa og tólg, hnausþykkt rúgbrauð, rófur og dásamlegt rauðkálssalat. Svo er sungið um Þorlák biskup, skrafað og skipst á góðum sögum.

Í biskupasögum Jóns Helgasonar segir um Þorlák að

„Hann var svo var í sínum orðum að hann lastaði aldrei veður, sem margir gera. Hann kveið engu mjög nema Alþingi og imbrudögum, af því Alþingi að honum þótti margur maður þar verða villur vegar, en imbrudögum, að honum þótti það ábyrgðarráð mikið að vígja menn er til þess sóttu langan veg, og hann sá þá mjög vanfæra til. Hann söng hvern dag messu, bæði sér til hjálpar og öðrum og minntist í sífellu píningar guðssonar. Hann fastaði þá er hann var heima, vakti löngum um nætur og baðst fyrir. Hann var drykksæll svo ekki þraut drykki þá er hann blessaði í veislum. Hann lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir 12 eða 9 eða 7 og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerrði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu áður á brott færi.“

Hér er á ferðinni sannur dýrlingur – enda þarf heilagan mann til að lasta aldrei veður á Íslandi!

Við vitum fátt betra en svona fjölskylduboð þótt ýmsar skoðanir séu á skötulyktinni. Við sjóðum hangikjöt á eftir.

Aðventan er tími fjölskyldu og vina og í dag óskum við þess að þú megir eiga góðar stundir með þeim sem skipta þig mestu máli.

#ósíuðaðventa