Trúverðug kristni

Við Kristín Þórunn stungum niður penna og skrifuðum stutta grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag og á trú.is. Hún fjallar um kristni í samtímanum – um trúverðuga kristni. Við segjum meðal annars:

Það er ábyrgðarhluti að lifa í nútíma samfélagi, að vera upplýst, læs og geta tekið þátt í lýðræðisumræðu. En ábyrgðin stoppar ekki þar heldur felur hún líka í sér að við eigum að vera þjónar hins góða og talsmenn vonar í samfélaginu.

Svo þarf stíga næsta skref. Jesúbarnið sem kemur býður okkur ekki aðeins að læra af sér og tala heldur kallar það okkur til þjónustu við lífið. Hin fjölþætta áskorun aðventunnar er þá þessi: Að við hlustum, horfum, lesum og þjónum. Tölum um hið góða líf og þjónum því í öllu sem við gerum. Höfum augun opin fyrir táknunum kringum okkur. Fyrir táknum um fegurð, gleði og von, lyftum þeim fram og minnum á þau. Fyrir táknum um það sem er ekki í lagi: um fjölskyldur sem líða skort, um fólk sem er troðið á, um misrétti, um misferli, um börn sem fá ekki að vera börn.

Við eigum að haga eigin lífi þannig að það sé tími og rými til að láta gott af okkur leiða. Við eigum að láta okkur annt um þau sem þarfnast – til dæmis með því að gefa mat, peninga eða tíma til hjálparstofnanna sem sinna fólki nú fyrir jólin. Við eigum að forgangsraða þannig að börnin okkar finni hvers virði þau eru. Við eigum að vera málsvarar réttlætis, sáttar og vonar í samfélaginu.

Lesið greinina á trú.is.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.