Kirkjan þarf að taka þjóðarpúlsinn

Hjalti Hugason ritar pistil um samband ríkis, kirkju og þjóðar í dag. Þar vísar meðal annars til nýlegrar skoðanakönnunar Gallup. Hann segir:

Burtséð frá skoðanakönnun Capacent-Gallup þarf íslenska þjóðkirkjan að taka þjóðarpúlsinn, telja hjartslögin og spyrja: Erum við og viljum við vera þjóðkirkja? Þá skipta tengsl við ríksivaldið engu máli heldur tengslin við þjóðina sjálfa. Hvað merkja ¾ hlutarnir sem nefndir voru í upphafi? Er samleið kirkjunnar og þjóðarinnar að rakna?

Þetta eru spurningar sem þjóðkirkjan verður að spyrja sig nú. Framtíðartengsl hennar og þjóðarinnar munu að miklu leyti ráðast af því hvernig kirkjunni tekst að standa með þjóðinni að uppbyggingunni eftir hrunið.

Verður þjóðkirkjan í fararbroddi þeirra sem leita sannleikans um hrunið og berjast fyrir réttlátu uppgjöri eða stendur hún álengdar? Hvernig tekst henni að styðja og styrkja þau sem urðu illa úti í hruninu eða eiga eftir að gjalda afleiðinga þess? Sækir hún út eða hverfur hún inn í sig sjálfa? Verður hún fljót að endurheimta það traust sem hrunið svipti hana og flestar opinberar stofnanir eða ekki? Á því veltur staða hennar sem þjóðkirkju hvernig svo sem menn kjósa að marka henni lagalega stöðu í framtíðinni.

Ég held að hann hitti naglann á höfuðið. Sem kirkja stöndum við nú frammi fyrir spurningu um sjálfsmynd: Hvers konar kirkja ætlum við að vera á tímum kreppu í samfélaginu, hvernig ætlum við að starfa, með fólki og fyrir fólk. Það eru bæði brýnar og spennandi spurningar!

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.