Besti flokkurinn – starfsmenn á plani

Kristín:

Í nýafstöðnum bogarstjórnarkosningum dró til tíðinda. Nýtt framboð, Besti flokkurinn, spratt upp og sópaði til sín atkvæðum. Þegar talið var upp úr kjörkössunum í Reykjavík var Besti flokkurinn það framboð sem flest atkvæði hlaut.

Mannfjöldinn II

Þetta er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Að mínu mati hljótum við að horfa á niðurstöður í kosningum í höfuðborginni í ljósi þeirra hræringa sem þjóðfélagið allt hefur gengið í gegnum síðustu misseri. Þær eru tímanna tákn.

Eftir efnahagshrunið hafa hefðbundnar stofnanir samfélagsins, þar á meðal stjórnmálaflokkarnir, þurft að spyrja sig hvort þær hafi ennþá það traust sem þarf til að vera lýðræðislegur farvegur þjóðarinnar. Stjórnmál og stjórnmálamenn sem stóðu vaktina í hruninu, eru í augum kjósenda hluti af vandamálinu sem Ísland glímir við en ekki partur af lausninni sem þarf til að reisa það á fætur.

Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að Besti flokkurinn kom, sá og sigraði í borgarstjórnarkosningunum. Á einhvern hátt hitti hann í mark hjá kjósendum sem voru hættir að sjá sig sjálfa í hefðbundnum fjórflokknum, hættir að skilja hina pólitísku orðræðu, hættir að treysta atvinnustjórnmálamönnunum.

Hvað stendur svo Besti flokkurinn fyrir? Guðmundur Andri Thorsson talar um hópinn í kringum Besta sem pólitísk viðrini, þ.e. að hann sjálfur standi ekki fyrir neitt sérstakt heldur komi inn í andrúmsloft sem hafnar trénuðu orðfæri, úrsérgengnu kerfi og stöðnuðum hugmyndum. Besti bauð ekki fram með atvinnu stjórnmálafólki heldur fólki úr öðrum áttum, með annan bakgrunn og ólík sjónarmið.

Kannski eru árangur Besta flokksins fyrst og fremst endurkoma leikmannsins í stjórnmálin – starfsmanna á plani. Manneskjunnar sem býr að reynslu borgarans, hefur lifað og starfað í Reykjavík, alið upp börn, beðið eftir leikskólaplássi, þurft að hafa samskipti við skólakerfið, notað íþróttaaðstöðu og ferðast með strætó. Allt í einu föttuðu kjósendur að svoleiðis fólk er alveg eins hæft til að fást við borgarmálin og vera fulltrúar borgarbúa eins og atvinnupólitíkusar.

Kirkjan hefur líka upplifað leikmannabyltingu eins og nú á sér stað í Reykjavík. Það var þegar Lúther setti fram hugmyndina um hinn almenna prestsdóm. Hún gengur út á að fagnaðarerindið tilheyri öllum skírðum og að hvert og eitt okkar hafi þannig ábyrgð og réttindi gagnvart Guði og náunga okkar. Það þarf ekki sérstaka atvinnustétt til að vera milligöngumaður Guðs og manna. Þar er hver og einn einstaklingur við stjórnvölinn.

Það er hollt fyrir samfélagið að dusta rykið af almenna prestsdóminum, hvort sem er í kirkju eða þjóðfélaginu almennt. Einstakir flokkar og einstakar stéttir eiga hvorki kirkjuna né samfélagið, heldur þú og ég. Við berum öll ábyrgð, við eigum öll að njóta frelsis og erum öll kölluð til þjónustu.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.