Völdum fylgir ábyrgð – opið bréf

Árni og Kristín:

Elsku Besti flokkur!

Innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur í borgarstjórnarkosningunum um helgina. Eins og alþjóð veit, þá komst þú, sást og sigraðir. Hinum flokkunum gekk ekki jafn vel.

Á ylströndinni

Kannski mátum við kjósendur það sem svo að hinir flokkarnir hafi ekki staðið við loforðin sín. Hafi ekki notað völdin vel. Hafi frekar notað þau í eigin þágu en annarra. Hafi ekki hlustað.

Þú lofaðir ýmsu. Vonandi gengur vel að efna það. Við hlökkum sérstaklega til að þurfa ekki að taka handklæði með í sund. Við eigum svo mörg börn að okkur munar um að þurfa ekki að druslast með fullt skott af blautum handklæðum.

Nú er þetta í þínum höndum. Og völdum fylgir ábyrgð. Fyrsta bíómyndin um Köngulóarmanninn minnir okkur á það. Þar sjáum við þegar Peter Parker lætur ógert að stíga inn í aðstæður og stoppa skúrk sem vinnur óvinum hans tjón. Afleiðingarnar eru hræðilegar. Á þetta er líka minnt í sjónvarpsþáttunum The Wire, eins og þú þekkir auðvitað mæta vel. Þar erum við líka minnt á hvað þarf að vera í lagi til að samfélag sé gott.

Ofurhetja með ábyrgðartilfinningu er kannski það sem Reykvíkingar óskuðu sér í þessum kosningum. Mikill vandi blasir við einstaklingum og samfélaginu öllu. Inn í þessar aðstæður þarf að stíga, slá vörð um velferð og styðja við fólk á öllum aldri. Til þess varst þú valinn.

Nú ríður á að nota okkar sameiginlegu sjóði sem best. Af því að þeir eru ekki ótakmarkaðir, þarf að ákveða hvað verður gert og hvað er látið ógert. Kannski eru ókeypis handklæði ekki það sem mest liggur á. Við treystum þér til að velja rétt.

Gangi þér allt í haginn!

Þessi pistill birtist einnig í Fréttablaðinu, 2. júní 2010.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.