Að skilja ríki og kirkju

Alþingishúsið

Það er liðin tíð á Íslandi að stjórnmál, vísindi og listir lúti kenningarvaldi eða sjónarmiðum kirkjunnar. Aðgreining hins opinbera frá trúarsetningum er óumdeilanlegt fyrirkomulag um vestrænan heim og einkenni nútímans. Það þýðir hins vegar ekki að ríkisvaldið sé ósnortið af veruleika trúar og trúfélaga eða tengsl kirkju og ríkis séu ekki til staðar í einhverri mynd á hverjum tíma.
Krafan um „algjöran aðskilnað“ ríkis og kirkju missir að okkar mati marks því hún horfir fram hjá veigamiklum atriðum sem er nauðsynlegt að hafa í huga til að skilja ríki og kirkju.

Í fyrsta lagi snúast tengsl ríkis og kirkju um stöðu trúarbragða í menningunni og hvernig hið opinbera tengist þeim í samfélaginu. Undir þetta fellur hvernig trú, trúfélög og trúarbrögð móta einstaklinginn í nútímanum, viðhorf hans, lífstúlkun og mannskilning. Trú er persónulegs eðlis en samt ekki einkamál hvers og eins. Samspil einstaklings og samfélags er gagnvirkt að þessu leyti og á sér stað í hinu opinbera rými.

Í öðru lagi lúta tengsl ríkis og kirkju að því hvernig hið opinbera hefur bein afskipti af starfsemi trúfélaga í gegnum lagasetningar og reglugerðir. Hér ber að horfa til þjónustu sem ríkið innir af hendi í þágu allra trúfélaga, vegna þess að framlag þeirra til samfélags og velferðar eru metin. Ríkið þjónustar trúfélög m.a. með innheimtu sóknargjalda, sem eru einmitt ekki bein framlög hins opinbera.

Í þriðja lagi þarf að huga að sérstakri stöðu þjóðkirkjunnar sem stærsta trúfélags í landinu með auknar skyldur og ábyrgð þess vegna. Um það hefur Hæstiréttur fjallað og komist að því að núverandi tengsl ríkis og trúfélagsins þjóðkirkjunnar brjóti ekki gegn jafnræðisreglu ríkisins eða séu óeðlileg út frá mannréttindasjónarmiðum.

Annars skiljum við ekki ríki og kirkju.

Birtist í Fréttablaðinu, 16. júní 2010.